Beint í efni

Vampírur, vesen og annað tilfallandi

Vampírur, vesen og annað tilfallandi
Höfundur
Rut Guðnadóttir
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Ungmennabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Vampírur eru ekki á hverju strái í íslenskum barna- og ungmennabókmenntum, ekki frekar en í bókum fyrir fullorðna ef því er að skipta. Þær hafa hins vegar um nokkuð skeið notið töluverðra vinsælda í erlendum bókmenntum fyrir ungt fólk, í sjónvarpsþáttum og í kvikmyndum, en meðal nýlegra dæma sem margir þekkja má nefna Twilight bókaflokk Stephanie Meyer, sem hefur einnig verið kvikmyndaður, sjónvarpsþættina Vampire Diaries og Sookie Stackhouse bækur Charlaine Harris, sem voru gerðar að sjónvarpsþáttunum True Blood.

Vampírur, vesen og annað tilfallandi eftir Rut Guðnadóttur, sem hlaut íslensku barnabókaverðlaunin í ár, er íslensk vampírusaga fyrir unglinga. Í bókinni segir frá átökum þriggja vinkvenna við vampíru sem þær hafa grunaða um að valda veikindum meðal nemenda í skólanum þeirra. Vampíran sem um ræðir á ekki margt sameiginlegt með þeim sjarmerandi en viðkvæmu blóðsugum sem leika aðalhlutverk í dæmunum hér að ofan, og er ekki heldur ófrýnilegt skrímsli eins og er líka oft tilfellið. Hér er á ferðinni annars konar vampíra, sem villir á sér heimildir og felur sig þar sem síst skyldi, meðal starfsfólksins í frekar venjulegum íslenskum grunnskóla.

Vinkonurnar Milla, Rakel og Lilja eru í áttunda bekk og hafa þekkst lengi. Þær eru eins ólíkar og hugsast getur en þó að þær séu yfirleitt ágætar vinkonur valda ólíkar hugmyndir þeirra um allt milli himins og jarðar oft bæði spennu og rifrildum þeirra á milli. Þegar sagan hefst er samband þeirra þriggja á sæmilegu róli, en lítið má út af bregða til að allt fari í háaloft. Nemendur í skóla stelpnanna hafa verið að veikjast af óþekktum sjúkdómi og meðal þeirra sem hafa orðið verst úti er eldri systir Millu. Milla óskar þess heitast af öllu að systir hennar nái heilsu á ný og allt geti orðið aftur eins og það var áður en hún veiktist, en þangað til er hún staðráðin í að standa sig fullkomlega í öllu sem hún gerir til að gleðja foreldra sína.

Fullkomnunarárátta Millu og stöðugar aðfinnslur við samnemendur sína verða til þess að skólastjórinn býður henni að vera gangavörður í skólanum, aðallega til að halda henni upptekinni svo hún hætti að trufla kennslu með leiðréttingum og athugasemdum. Hún fer á fund með skólastjóranum til að ræða málið en á leiðinni þangað lendir hún í árekstri við stærðfræðikennarann Kjartan. Milla tekur eftir því, sér til mikillar furðu, að Kjartan er ískaldur viðkomu og þegar hún hugsar nánar út í það áttar hún sig á því að hann hagar sér oft nokkuð grunsamlega. Þegar Rakel er svo send til námsráðgjafans skömmu seinna og fréttir hjá eldri nemanda að æ fleiri nemendur þjáist af þessum dularfulla sjúkdómi fara vinkonurnar að leggja saman tvo og tvo. Eftir nokkra rannsóknarvinnu og töluvert þref tekst Millu að sannfæra hinar um að Kjartan sé í raun vampíra og sé að valda veikindum nemendanna. Rakel og Lilja eru ekki alveg vissar í sinni sök en láta til leiðast og ákveða að hjálpa Millu að rannsaka málið til hlítar.

Þríeykið leggur ýmislegt á sig til að sanna kenningu Millu, meðal annars innbrot og njósnastarfsemi, en þegar rannsókninni virðist loksins ætla að miða áfram setur stórkostlegt rifrildi strik í reikninginn og ekki bara eru þær engu nær um hvort grunsemdirnar um stærðfræðikennarann eigi við rök að styðjast, heldur virðist vináttu þeirra endanlega lokið. Veikindin halda áfram að herja á nemendur en vandamál sem þær glíma við heimafyrir fara að taka upp alla athygli Rakelar og Lilju. Milla gefst hins vegar ekki upp. Hún er sannfærð um að vampíra eigi sökina á veikindunum og hún þurfi bara að finna sannanir fyrir því til að systir hennar geti fengið heilsuna á ný.

Aðalsögusviðið er skólinn og svo heimili stelpnanna, en samskipti við fjölskyldur þeirra, eða öllu heldur samskiptaerfiðleikar, eru stór þáttur af lífi þeirra allra. Sögumaður skiptist á að fylgja vinkonunum þremur og fæst þannig nánari innsýn í líf þeirra hverrar um sig og vandamálin sem þær glíma við. Milla gengst upp í röð og reglu, er fyrirmyndar námsmaður og vill að allir fari undantekningarlaust að fyrirmælum fullorðinna, sem hún telur mjög mikilvægt að bera virðingu fyrir. Áhugi Millu á því að hafa allt í föstum skorðum tengist því að heimafyrir er allt í upplausn vegna veikinda systur hennar og foreldrarnir hafa lítinn tíma fyrir annað en áhyggjur.

Rakel kann að virðast hörkutól þegar hún ver Lilju fyrir eineltisseggjum í skólanum og er send til námsráðgjafans fyrir vikið, og vissulega fer hún sínar eigin leiðir í flestu en líkt og Milla glímir hún við fjarverandi foreldra; mamma hennar býr erlendis og pabbi hennar er tekinn saman við konu sem Rakel finnur allt til foráttu. Hluti af reiði Rakelar tengist þó innri baráttu og nýjum tilfinningum gagnvart Lilju, sem hún veit ekki hvernig hún á að koma orðum að eða hvort hún vilji yfirleitt segja neinum frá.

Líkt og Rakel, og reyndar Milla líka, upplifir Lilja sig vanmáttuga gagnvart aðstæðum sínum. Hún er samviskan uppmáluð en ólíkt foreldrum Millu hugsa mæður Lilju aðeins of mikið um hana. Líf hennar er skipulagt í þaula af mæðrunum sem leggja mikið á hana og krefjast mikils af henni. Lilja upplifir mikla pressu að passa inn í ímynd hins fullkomna afkvæmis og er að drukkna í öllu skipulaginu, heimalærdómi, frístundum og matarboðum með vinafólki mæðranna, þar sem börnin eru borin saman til að athuga hvert þeirra stendur sig best. Frammistöðukvíðinn eykst sífellt og leiðir til þess að hún tekur stjórnina yfir því eina sem henni finnst hún geta ráðið yfir sjálf og hættir nánast alveg að borða.

Milla, Rakel og Lilja eru afar sannfærandi áttundubekkingar og samskipti þeirra mjög trúverðug, þó að stundum hefði mátt gefa rifrildum þeirra aðeins minna rými í sögunni. Vandamálunum sem þær glíma við er lýst af miklu innsæi og næmi, og þó að það sé kannski frekar mikið sem þær eru að takast á við verður það ekki yfirþyrmandi eða tilgerðarlegt. Leitin að vampírunni og uppruna veikindanna í skólanum knýr söguna áfram og fléttast saman við líf stelpnanna utan skólans. Þær hittast til að ræða vampíruleitina, brjótast inn í hús til að leita að sönnunargögnum og læðast um á nóttunni en umræðurnar á meðan á öllu þessu stendur snúast oftar en ekki upp í átök um vandamálin sem þær glíma við sjálfar. Rakel og Lilja eru þannig áhyggjufullar yfir því að Milla sé með vampíruna á heilanum, Lilja og Milla benda Rakel á að hún þurfi ekki alltaf að vera á móti öllu og það geti jafnvel skaðað hana sjálfa og Rakel reynir að fá Lilju til að sjá að hún þurfi að gera eitthvað í öllu álaginu heimafyrir og taka til í sambandi sínu við mat.

Alvarleikinn í þeim málum sem stelpurnar eru að glíma við heima er brotinn upp með hasar og húmor í vampíruleitinni. Í því samhengi verður að minnast á reglufasta og ferkantaða vampírubanann Millu. Hún er að öðrum persónum ólöstuðum stjarna sögunnar og sér oft fyrir húmornum með athugasemdum við framkvæmd allra hluta, leiðréttingum á málfari, vísunum í heimildir um vampírur þegar leikar standa sem hæst og ekki síst aðdáun hennar á klæðaburði kennaranna, sérstaklega Kjartans stærðfræðikennara:

Kjartan er til dæmis í afar smekklegri köflóttri skyrtu, með fjólubláa þverslaufu, aðsniðnum brúnum buxum og hnepptri peysu í stíl – enda er september og nokkuð kalt úti. Milla brosir. Já, hún gæfi Kjartani líklega 10 í einkunn fyrir klæðnað í dag. Skyndilega verður henni litið niður og sér þá að hún fagnaði of fljótt. Hann er í sandölum og skærgulum sokkum. 8,5 þá. Það er svo sem ekkert að sandölum en gulur er ekki litur fyrir fullorðna karlmenn, heldur ókyngreind ungbörn. (10)

Þessi skoðun Millu er fullkomlega einlæg því kaldhæðni er ekki til hjá henni. Áhugi Millu á málfari og stafsetningu verður líka oft kómískur þegar aðrir verða fyrir barðinu á honum:

Milla dregur djúpt andann og Lilja undirbýr sig fyrir komandi ræðuhöld um sagnfræðilegt mikilvægi uppruna orða sem varpa ljósi á málþróun íslenskunnar frá örófi alda. Lilja veit að það verður miðpunktur þess sem Milla ætlar að segja, því þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Lilja hefur þurft að hlýða á þessa tilteknu ræðu. Það er eins og hver einasti bókstafur í íslenska stafrófinu sé barnabarn Millu. Og eins og góðri ömmu sæmir finnst henni þeir allir fullkomnir og dásamlegir á sinn hátt. (72)

Sagan endar í allsherjar uppgjöri, ekki bara við vampíruna sem er svo sannarlega ekki öll þar sem hún er séð, heldur líka við vandamálin sem aðalpersónurnar hafa verið að glíma við. Lokauppgjörið við vampíruna þjappar þeim saman og í kjölfarið eiga þær auðveldara með að tala saman á einlægan og heiðarlegan hátt. Þær hafa auk þess lært að vera sannar sjálfum sér og í framhaldinu að feta sig inn á betri braut í lífinu. Niðurlögum vampírunnar er ráðið á einstaklega frumlegan og frekar fyndinn hátt, sem innifelur meðal annars sparihnífaparasett úr silfri, glás af hvítlauk og krossum og rándýra egypska hvítlauksolíu. Eftir á standa þær uppi sterkari bæði sem einstaklingar og vinkonur og þó að vissulega eigi þær ennþá eftir að leysa úr ýmsu glittir í bjartari framtíð hjá þeim öllum.

María Bjarkadóttir, nóvember 2020