Beint í efni

Vargurinn

Vargurinn
Höfundur
Jón Hallur Stefánsson
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Skáldsagan Vargurinn gerist mestan part á Seyðisfirði. Rannsóknarlögreglumaðurinn Valdimar Eggertsson er þangað sendur til að rannsaka grunsamlegan eldsvoða. Þykir honum bruninn minna nokkuð á annan sem varð í húsi prestsins á staðnum nokkru fyrr. Í þetta sinn eru eigendur hússins Þorsteinn skipstjóri og Hugrún eiginkona hans, en þau eru stödd á Kanaríeyjum er málið kemur upp. Janúar er rétt nýbyrjaður og snjór og kuldi á ísa landi og Fjarðarheiðin ekki alltaf fær. Þannig vindur sögunni fram í fremur luktum heimi þótt Valdimar eigi ekki erfitt með að hafa samband við kollega sína fyrir sunnan auk vinkonu sem liggur á sjúkrahúsi. Sá vinskapur eða ástarsamband virðist þó vera að syngja sitt síðasta, allavega hvað Valdimar varðar. Þetta er önnur bókin um hann. Sú fyrri, Krosstré, vakti þó nokkra athygli og víst er að sumir hafa beðið eftirvæntingarfullir eftir meiru.

Valdimar ber ekki eins sterk karaktereinkenni og til dæmis Erlendur í bókum Arnaldar Indriðasonar. En rétt er að geta þess að sérstaða Erlendar hefur orðið til í gegnum margar bækur. Það er allt í lagi að hafa aðalpersónuna í glæpasögu dálítið óljósa eins og hér er tilfellið. Lesandinn setur sig gjarnan í spor hennar og lesandinn er ekkert endilega klár á því hvers konar manneskja hann eða hún er sjálf eða hver hann/hún vill vera. Í fjölbreyttu persónugalleríi Vargsins verður Valdimar bara einn af mörgum í hópnum. Er hann svalur eða bara að reyna að vera það? Hann sker sig ekki mikið úr nema sem aðkomumaður og rannsakandi málsins, eða málanna, sem reynast fleiri en eitt og fleiri en tvö.

Þrátt fyrir þetta er góð persónusköpun styrkur Jóns Halls. Sá þáttur vill stundum fara forgörðum í glæpasögum en hér tekst höfundi vel til hvað þetta varðar. Auðvitað eru þær nokkrar staðaltýpurnar, ef svo má segja; vergjarna húsfreyjan og ferkantaði presturinn, en það eru ástæður fyrir öllu þeirra athæfi og persónurnar fráleitt einslitar. Unga fólkið sem við sögu kemur er allt dregið skýrum dráttum og virkar mjög trúverðugt.

Maður er orðinn svo vanur því að glæpasögur séu fyrst og fremst frásagnir af morðum að það kemur á óvart þegar svo reynist ekki vera. Liggur við að manni finnist bókin ekki vera nein glæpasaga. En auðvitað eru til fleiri glæpir en morð og svo sem nóg af þeim hér. Það kvikna ekki bara eldar í húsum og eigum fólks heldur eru logandi bál út um allt í hjörtum manna og kvenna. Bálið hjá Valdimar að vísu mikið til kulnað en fjármálastjórinn Kolbrún hefur ef til vill möguleika á að kveikja í honum á ný.

Vargurinn er fyrirtaks afþreying. Vel skrifuð saga um venjulegt fólk sem glímir við hin ýmsu mál eins og gengur, mörg eru þau tilfinningalegs eðlis en önnur hafa með lífsafkomuna að gera eða eitthvað annað. Á frásögninni eru engir tilfinnanlegir hnökrar og Jóni Halli tókst ágætlega að húkka þennan lesanda til lags við sig, fá hann til að gleyma sér í sögunni og finnast hann þekkja parkettframleiðandann, Sveinbjörn, Smára löggu, Urði og öll þau hin. Á einum stað beinir höfundur fimlega athyglinni frá einni persónu til annarrar til að koma í veg fyrir að lesendur beini grun sínum of mikið að henni. Eitthvað sem maður fattar eftir á.

Í bók sinni Braindroppings minnist uppistandarinn George Carlin á ýmislegt sem hann þolir ekki, þar á meðal rithöfunda sem fara alltaf að rövla eitthvað um skýin þegar maður bíður eftir einhverju spennandi. Vargurinn er blessunarlega laus við svona útúrdúra sem koma ekki sögunni við svo að það er ekkert í þá veru sem beðið er um hér, en á blaðsíðu 21 er skemmtileg mynd: “líkt og á rápi um kjörbúð orðanna”, sem getur gefið fyrirheit um fleira af því taginu. Það kemur hins vegar eiginlega ekkert meira og saknaði ég þess svolítið. Norræna glæpasagnahefðin er vissulega sú að hafa allt klippt og skorið, losa sig við óþarfa flúr og láta textann standa beinskeyttan fyrir sínu. Allt gott um það að segja en mætti ekki Jón Hallur að ósekju leyfa ljóðskáldinu í sér að koma meira fram í sviðsljósið? Hann hefur alveg efni á því. Kannski næst?

Ingvi Þór Kormáksson, október 2008