Beint í efni

Vetrarborgin

Vetrarborgin
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Það er kaldranalegt um að litast í blokkarhverfi Vetrarborgarinnar, nýjustu bókar gullrýtingsvinningshafans; hér geisar reykvískur vetur eins og hann gerist hrollkaldastur. Vetur sem virðist óendanlegur og hvað eftir annað kviknuðu í huga þessa lesanda myndir af köldum vetrardögum, ísilögð plön kringum blokkir í asahláku, myrkri, roki og kulda og hvergi skjól að fá. Við þennan vetur kljást góðkunningjar lesenda Arnaldar, þau Erlendur, Sigurður Óli og Elínborg, þetta pottþétta glæpasagnateymi leiðir okkur örugglega gegnum fléttu bókarinnar. Kunnugleg þemu sækja á þessa félaga okkar; mannshvörf og söknuður svo dæmi séu nefnd, og Erlendur er að vanda í forgrunni.

Arnaldur kynnir hér nýtt efni til sögunnar, en það eru mál innflytjenda í Reykjavík, og tekst að draga upp sannfærandi mynd af högum innflytjendafjölskyldu, án þess að hún verði of erkitýpísk, eða sé beinlínis ætlað að standa fyrir reynslu allra innflytjenda í landinu, sem er nokkur kúnst. Yngsti sonurinn í fjölskyldunni er myrtur sem neyðir samfélagið til að skoða hug sinn gagnvart innflytjendum og fordómar og kynþáttahatur er dregið uppá yfirborðið. Inn í söguna fléttast fleiri glæpir – eða mögulegir glæpir – þ. á m. mannshvarf og dularfullur eldri maður reikar um sögusviðið. Höfundur nýtir sér alla þessa þætti til hins ýtrasta og þá einkum til að beina sjónum að innra lífi Erlendar og að sjálfögðu að hinum samfélagslegu víddum og tekst ágætlega til að flétta þetta saman. Fléttan er þétt og vandlega unnin og heldur lesandanum vel við efnið. Einn af kostum hennar er ekki síst sá að hún er í einstaklega góðu samræmi við andrúmsloftið sem skapað er í sögunni, þ.e.a.s. engu er troðið inn í fléttuna sem virkar aukreitis eða truflandi, öll hefur hún innri samsvörun sem gengur upp. Arnaldur sýnir hér mikla hæfni í sköpun andrúmslofts og stemmningar og minnir Vetrarborgin að því leyti á Mýrina og Grafarþögn. Þetta tekst honum í sparlegum en hnitmiðuðum umhverfis- og veðurlýsingum – svo sannfærandi að stundum virtust vistarverur þessa lesenda kólna all skyndilega. Og ekki eru taktarnir síðri í mótun lifandi aukapersóna – svo að minnir á kvikmynd þar sem allt morar í frægum leikurum í ‘cameo’-hlutverkum.

Vetrarborgin sýnir enn og aftur fram á örugg tök Arnaldar Indriðasonar á þessari gerð glæpasagna og það var einstaklega skemmtilegt að hann skyldi taka á móti Gullrýtingnum í London í vikunni, því það mun vekja athygli á verkum hans og íslensku glæpasögunni yfirleitt sem er, af þessu verki að dæma, á glæstri siglingu um þessar mundir og mætti að ósekju fá stærri lesendahóp.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2005.