Beint í efni

Við tilheyrum sama myrkrinu. Af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo

Við tilheyrum sama myrkrinu. Af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo
Höfundur
Kristín Ómarsdóttir
Útgefandi
Stella
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Á síðasta ári kom út skáldverk sem fjallar um þekktar persónur, nafngreinir þær og lætur þær gera eitt og annað sem ekki samræmist heimildum um líf þeirra. Sumt af því þætti mögulega vafasamt, allavega ef fólk er ekki alveg laust við fordóma og tepruskap. Bókin sem ég er að tala um er auðvitað smásagnasafn Kristínar Ómarsdóttur, Við tilheyrum sama myrkrinu. Af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo, en auk sagnanna inniheldur safnið eitt ljóð og fjölmargar teikningar. Sögurnar lýsa allar samskiptum þessara tveggja íkonísku leikkvenna og kvikmyndastjarna, en í þessum söguheimi eru þær miklar vinkonur og bralla hitt og annað saman.

Kristín Ómarsdóttir er einn sérstæðasti rithöfundur Íslendinga og verk hennar hafa aldrei hlotið þá viðurkenningu sem þau verðskulda. Eftir því sem ég kemst næst hafa tvær skáldsagna hennar verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, þó ekki það verk sem er líklegast ein besta íslenska skáldsaga síðari ára, Hjá brúnni (2009). Verk Kristínar eru vissulega ekki alltaf árennileg, en hún vinnur markvisst með form og tungumál og gengur oft afar langt í því að reyna á þolrif lesandans með furðulegum fléttum og margslungnum fantasíum sem leysa upp allar veruleikatengingar og kippa grundvellinum undan hugmyndum og heimsmynd hans. Ekkert af þessu er þó góð ástæða til að gefast upp, því þetta eru einmitt helstu einkenni góðra bókmennta, bókmennta sem bjóða lesanda upp á þann möguleika að uppgötva heiminn upp á nýtt og krefja hann í raun um að endurskoða viðtekin gildi og gluggatjöld.

Þó sögurnar af Marilyn og Gretu gætu virst dálítið skrítnar við fyrstu sýn, eða réttara sagt, þó hugmyndin um sögur sem lýsa vináttu þessara tveggja frægu kvenna gæti virst undarleg, þá er Við tilheyrum sama myrkrinu líklega ein aðgengilegasta bók Kristínar í lengri tíma. Sögurnar eru sex talsins, afar mislangar og ákaflega fallegar, en þrátt fyrir myrka undirtóna einmanaleika og sjálfsmorðs einkennast þær af hlýju og næmni, auk gleðinnar sem býr í góðri vináttu.

Í fyrstu sögunni, „Síðdegi við Kyrrahafið“ er tónninn sleginn, en eitt af því sem sameinar þessar konur er ást þeirra á bókmenntum og sögum. Þær lesa saman og hvor fyrir aðra, eða segja hvor annarri sögur. Og Marilyn bakar fyrir Gretu: „Bókmenntir og brauðsnúðar sameinuðu þær“ (5). Með þessu drekka þær „champagne“: „Fátt var laugardagslegra en kampavín eftir alla laugardagsbrönsana á millistríðsárunum. Og nú ríkti heimsfriður þó hún hefði engu gleymt og margir fallið í valinn. Aldrei myndi hún hætta að syrgja en freyðandi vökvi styrkir lamandi geð“ (5). Á þennan hátt teiknar Kristín upp hið sögulega samhengi, en í sögunum eru ýmsar tilvísanir til atburða veraldarsögunnar, frægar persónur hafa sent Gretu Garbo bréf og þær velta fyrir sér lúxuslífi Maós í menningarbyltingunni. Þó er ekki hægt að vita neitt um nákvæmar tímasetningar, en í heimi skáldskaparins skiptir slíkt ekki máli. Eða eins og segir fremst í bókinni: „Við tilheyrum sama myrkrinu fjallar ekki um raunverulega atburði; sögurnar og ljóðið sem hér birtast eru skáldskapur þar sem leikkonurnar Marilyn Monroe (1926-1962) og Greta Garbo (1905-1990) leika aðalhlutverkin. Allar persónur sem við sögu koma, jafnvel þær Marilyn og Greta, eru skáldaðar.“

Það er nú svosem ekki um margar aðrar persónur að ræða, því sögurnar takmarkast að mestu leyti við konurnar tvær. Í einni sögunni koma þó tveir karlar við sögu, en af þeim stafar ógn og þeir telja sig eiga erindi við konurnar, telja sig greinilega eiga rétt á því að taka þær konur sem þeir vilja. Tvímenningarnir eru einskonar táknmynd fyrir alla þá karlmenn sem troða sér inn í líf og tilveru þessara kvenna, vilja eigna sér þær, taka myndir af þeim, krefja þær um nekt og fegurð, kossa, kynlíf, aðdáun og bros. Líkt og með hinar handahófskenndu tilvísanir til heimsatburða er vísað til þessara karla hér og þar. Áherslan er þó ekki á að fjalla um áhrif þeirra á konurnar, heldur þvert á móti ganga sögurnar út á að þær skapa sér sitt eigið rými í krafti vináttu sinnar, sem sameinar þær og verndar gegn ágangi. Einmanaleikanum sem fylgir frægðinni er haldið utandyra þau augnablik sem þær eiga saman, eða eins og Marilyn segir: „Ég vil síður drepa mig í kompaníi með þér“ (29).

Lesendum Kristínar kemur varla á óvart að textarnir eru hreinlega ilmandi af hinsegin erótík, og reyndar bara allskonar erótík, en leikkonurnar ræða kynlíf og líkama hvorrar annarar – og sína eigin; Marilyn lýsir brjóstum sínum sem tveimur hvolpum, en Greta lýsir þeim svona: „Brjóst hennar gætu verið full af víni, þau eru full af heitu víni. Geirvörturnar bera svipmót barns sem vaknar upp við hávaða; svona syfjaður augnsvipur“ (61). Þetta er í sögunni „Hótelherbergi“ en þar liggja vinkonurnar saman uppi í rúmi og lýsa hvorri annarri á þann einstaka hátt sem Kristínu einni er lagið – skyndilega er lýsingin komin eitthvað allt annað, í stríð þar sem særður herforingi er kysstur af liðsforingja sínum: „Þegar vangar hermannanna mætast hugsa þeir báðir um pönnukökur í heitu eldhúsi. Bráðum deyja þeir.“ Í lok sögunnar ráðast tveir menn inn í hótelherbergi og segjast leita tveggja kvenna, en þeir koma svo aftur við sögu í næstu smásögu, „Morgunsjónvarpið“.

Teikningar Kristínar mynda fullkomna samfellu við textana, en Kristín hefur áður unnið með samþáttun mynda og orða í ljóðabókum sínum. Reyndar eru verk hennar öll sérlega myndræn, en ítarlegar lýsingar á smáatriðum fleyga reglulega framrás frásagnarinnar og skapa sérstæð augnablik innan hennar, rjúfa flæðið og afvegaleiða hugann.

Staða nafnkunnra persóna í skáldskap og meðferð rithöfunda á sögulegu efni hefur lengi verið afar umdeilt fyrirbæri og sér ekki fyrir endann á því. Í þessu tilfelli held ég þó að þær leikkonurnar geti vel við unað, og jafnvel óskað sér þess að hafa átt þessar sameiginlegu stundir sem Kristín Ómarsdóttir lýsir: allvega gætu þær tekið undir það að tilheyra sama myrkrinu.

úlfhildur dagsdóttir, maí 2012