Beint í efni

Vísnafýsn

Vísnafýsn
Höfundur
Þórarinn Eldjárn
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Að mörgu leyti virkar ljóðabók Þórarins Eldjárns, Vísnafýsn, eins og barnabók fyrir fullorðna. Þetta segi ég ekki ljóðunum til minnkunnar, enda hafa barnaljóð Þórarins notið fádæma vinsælda auk þess sem verk hann fyrir fullorðna njóta mikillar virðingar. Það sem ég á við er að þeir sem hafa alist upp við barnakvæði Þórarins ættu að finna ákveðin samhljóm í vísum Vísnafýsnar, en þar ríkir sami léttleikinn og einkennir barnakvæðin, þrátt fyrir að viðfangsefnin séu nokkuð önnur. Vísnafýsn inniheldur ferskeytlur og aðrar stuttar vísur ortar undir hefðbundnum háttum, í þeim afslappaða tón sem einkennir slíkan skáldskap Þórarins allt frá því að hann sló í gegn með Disneyrímum (1978).

Þórarinn nýtir sér ekki aðeins form ferskeytlunnar heldur einnig þann menningarsögulega farangur sem fylgir henni, en ferskeytlan hefur löngum verið form augnabliksins, notuð af skáldum til að fanga fólk, hugmyndir, vangaveltur eða andblæ, oft með gagnrýnum undirtónum. Sem slík hefur ferskeytlan þjónað því hlutverki að vera viðbragð við aðstæðum eða uppákomum og færa kjarna þeirra í meitlað mál, oft með írónískum eða kómískum undirtónum. Og það er þessi hraði og þessi snerpa sem Þórarinn fangar svo vel. Því í léttleikanum og húmornum sem einkenna vísur hans býr ákveðinn slagkraftur og beitt gagnrýni, hvort sem fjallað er um kreppu eða listnema.

Vísnafýsn byrjar á nokkrum vísum um skáldskap, en slíkt er einmitt annað einkenni ferskeytlunnar, skáld hafa nýtt hana til sjálfsskoðunar og vangaveltna um samsetningar sínar. Ein vísan hljóðar svo:

Hnoða hnoðs

Úr mörgu er hægt að moða
mikil eru býsnin.
Leirhnoðs leiðarhnoða
er ljóðafýsnin.

Hér virðist ljóðmælandi vera að segja að ljóðafýsnin geti leitt skáld út í ógöngur og í næstu vísu fær ljóðmælandi hroll við tilhugsunina um fagurfræði. Hér má finna mjög einbeittan brotavilja, ef svo má segja, sem fylgt er eftir í næstu tveimur vísum sem fjalla um ást á lágkúru og ákúrur og hásali andans, en þar hefur ljóðmælandi hlotið aðdáun, en finnst hann þó hafa strandað. Þessar vísur má vel skoða í samhengi þess forms sem Þórarinn velur sér, en þó ferskeytlan eigi sér langa og fjölbreytta sögu þá þykir hún kannski ekki endilega fínasta ljóðformið og er í dag fyrst og fremst álitin einskonar tækifæriskveðskapur, oft nokkuð blautlegur, aðallega þó andlaust skemmtiefni eins og birtist í því þegar menn keppast um að kasta vísum á milli sín. Hér má því sjá þörf fyrir að endurvekja samfélagslegt og skáldskaparlegt hlutverk ferskeytlunnar.

Eftir þennan ‘inngang’ heldur skáldið áfram leið sinni og smíðar haganlegar vísur um hitt og annað sem á vegi þess verður. „Sumardagurinn fyrsti” (sem skáldið hefur einu sinni kallað sumardaginn frysta) hljóðar svo:

Að fagna sumri í fjúki og hríð
fyrr en lýkur vetrartíð
það er íslensk óskhyggja
og ekkert nema þrjóskhyggja

Hér koma fram þessi einkenni sem ég nefndi fremst, um að vísurnar væru framhald af barnaljóðunum, nema bara fyrir fullorðna, því nýyrðasmíðin brýst fram hvað eftir annað, með tilheyrandi afneitun á upphafningu og fögnuði yfir spuna tungumálsins.

Aðrar vísur leika sér með hið háfleyga hlutverk ferskeytlunnar, en allmargir Íslendingar geta farið með ýmsar fleygar línur úr slíkum:

Lykilatriði

Spaklega að mæla mjög er ég fús
margt hef ég skapað í þeim stíl:
- Með bíllyklum opna menn helst ekki hús
- Með húslyklum starta fáir bíl.

Það mætti halda lengi áfram að skoða og skemmta sér yfir öruggum, fimlegum og umfram allt skemmtilegum tökum Þórarins á hinu einfalda formi ferskeytlunnar. Ég ætla þó að láta staðar numið hér, enda mér líklega best að stíga varlega til jarðar, því í miðri bók rakst ég á þessa vísu:

Höfundaréttur

Ritdómarinn harði úr hörku er að springa
höfunda telur sakborninga.
Jafnvel eftirlætishöfundur hans
hefur réttarstöðu grunaðs manns.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2010.