Beint í efni

Ármann Jakobsson

Æviágrip

Ármann Jakobsson er fæddur 18. júlí 1970 í Reykjavík. Hann lauk B.A.-prófi í íslensku árið 1993 frá Háskóla Íslands og dr.phil. prófi í íslenskum bókmenntum frá sama skóla árið 2003. Ármann var stundakennari við Háskóla Íslands 1999-2004, íslenskukennari við Menntaskólann í Reykjavík 2002-2008 og prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands frá 2011.

Ármann var formaður Félags íslenskra fræða 1999-2002 og var formaður Bókmenntafræðistofnunar Háskóla Íslands 2010-2014. Hann hefur átt sæti í stjórn Leikfélags Reykjavíkur frá 2013 og Hins íslenska þjóðvinafélags frá 2014. Hann hefur setið í fulltrúaráði Hins íslenska bókmenntafélags frá 2015 og verið varaforseti frá 2017. Jafnframt hefur hann verið í stjórn Hins íslenska fornritafélags frá 2015 og varaformaður Íslenskrar málnefndar frá 2015.

Ármann hefur skrifað nokkur fræðirit, en fyrsta skáldsaga hans var Vonarstræti og kom út árið 2008. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri skáldsögur, glæpasögur, barnabækur og örsögur.