Beint í efni

Árni Þórarinsson

Æviágrip

Árni Þórarinsson fæddist í Reykjavík þann fyrsta ágúst 1950. Hann varð stúdent frá M.H. 1970 og lauk B.A.-prófi í samanburðarbókmenntum frá University of East Anglia í Norwich á Englandi 1973.

Árni hefur starfað sem blaða- og fjölmiðlamaður um langt árabil. Hann var blaðaðmaður á Morgunblaðinu sumrin 1971 og 1972 og í fullu starfi við sama blað 1973-1976. Hann var umsjónarmaður helgarblaðs Vísis og kvikmyndagargrýnandi þar frá 1976-1979 og ritstjóri Helgarpóstsins og kvikmyndagagnrýnandi frá 1979-1984. Frá 1984-1986 gagnrýndi Árni kvikmyndir fyrir Morgunblaðið og var jafnframt lausamaður í dagskrárgerð fyrir útvarp og sjónvarp. Hann var ritstjóri tímaritsins Mannlífs 1986-1988 og hélt einnig áfram að vinna að dagskrárgerð fyrir ljósvakamiðla allt til 1999. Árni var blaðamaður á Morgunblaðinu um árabil, með áherslu á skrif um kvikmyndir, ýmis viðtöl og greinar.

Árni var í undirbúningsnefnd Kvikmyndahátíðar í Reykjavík 1989 og 1991 og hann hefur einnig átt sæti í ýmsum dómnefndum á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Hann var í úthlutunarnefnd Kvikmyndasjóðs Íslands 1992 og 1993.

Fyrsta skáldsaga Árna, spennusagan Nóttin hefur þúsund augu, kom út árið 1998 og síðan hefur hann sent frá sér fleiri bækur um blaðamanninn Einar, auk annarra sagna. Hann á einn kafla í bókinni Leyndardómar Reykjavíkur 2000, sem nokkrir glæpasagnahöfundar skrifuðu í sameiningu og árið 2002 kom út bókin Í upphafi var morðið sem Árni skrifaði ásamt Páli Kristni Pálssyni. Þeir hafa einnig unnið saman tvö sjónvarpshandrit, Dagurinn í gær, sem sýnt var í RÚV 1999 í leikstjórn Hilmars Oddssonar og 20/20, sem Óskar Jónasson leikstýrði fyrir RÚV 2002. Síðarnefnda myndin var tilnefnd til fjögurra Edduverðlauna, meðal annars fyrir besta handrit. Þá hefur Árni sent frá sér viðtalsbók og þýðingu á barnabók eftir Evert Hartman, en fyrir þá þýðingu hlaut hann Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 1984. Spennusögur Árna hafa komið út í þýðingum, meðal annars á Norðurlöndunum, í Þýskalandi og Frakklandi.

Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.