Beint í efni

Ása Marin

Æviágrip

Ása Marin fæddist 26. júní 1977 og ólst upp í Hafnarfirði, þar er hún enn að alast upp. Eftir tíu ár í Öldutúnsskóla fór hún í Verzlunarskóla Íslands. Þá lá leiðin í Kennaraháskóla Íslands, þaðan sem hún útskrifaðist með B.ed. gráðu.

Fyrstu skrifin voru ljóð og tíu ára fannst henni góð hugmynd að böðla saman leirburði um systur sína og senda í barnablað Morgunblaðsins. Þannig varð fyrsti útgefni kveðskapurinn opinberun á því hverjum systirin var skotin í. Það fór misjafnlega í fjölskyldumeðlimi.

Sextán ára gerðist hún Ljóðdreki í Verzlunarskólanum, ljóðahóps sem naut leiðsagnar Þórðar Helgasonar. Þar breyttist leirburðurinn í ljóð og hún fékk trú á því að hún réði við myndmál, ljóðrænu og orðaleiki. Samhliða stúdentsprófunum gaf hún út fyrstu ljóðabókina, Búmerang (1997), og næstu ár átti hún ljóð í fjölmörgum safnritum.

Eftir námskeið hjá Þorvaldi Þorsteinssyni og Hlín Agnarsdóttur daðraði hún við lengri texta, fyrst smásögur og svo skáldsögur. Síðan 2013 hefur hún einnig sameinað menntun og rithæfni og skrifað námsefni í íslensku fyrir Menntamálastofnun.

Heimasíða höfundar: https://www.asamarin.is/