Beint í efni

Bjarni Harðarson

Æviágrip

Bjarni Harðarson er fæddur í Hveragerði árið 1961 og ólst upp í Laugarási í Biskupstungum. Hann er stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni og hefur lítillega lagt stund á sagnfræði og þjóðfræði við Háskóla, án þess þó að ljúka prófum.

Bjarni var ritstjóri Stúdentablaðsins 1982-1983 og starfaði við blaðamennsku á Tímanum, Helgarpóstinum, Bóndanum og fleiri blöðum, hann stofnaði Bændablaðið árið 1987 og var einn stofnenda Sunnlenska fréttablaðsins árið 1991.

Hjónin Elín Gunnlaugsdóttir og Bjarni stofnuðu til bókaútgáfunnar Sæmundar árið 2001 og reka hana enn ásamt Bókakaffinu á Selfossi.

Bjarni var alþingismaður á árunum 2007 og 2008. Starfaði í landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu árin 2011-2012. Hefur auk þess starfað í félagsmálum innan Þroskahjálpar, Sögufélags Árnesinga og víðar. Hann kom að uppbyggingu Draugasetursins á Stokkseyri og er einn stofnfélaga í Drauga- og tröllaskoðunarfélagi Evrópu.

Fyrsta bók Bjarna Landið, fólkið og þjóðtrúin kom út 2001 og var rit um staðfræði þjóðsagna í Árnessýslu, unnið með vettvangskönnunum og heimildaviðtölum við fjölda manns.  Eiginlegur rithöfundaferill Bjarna hófst árið 2009 með útgáfu fyrstu skáldsögunnar, Svo skal dansa.

Jafnhliða ritstörfum og atvinnurekstri hefur Bjarni lagt stund á ferðalög um fjarlægar álfur og samið flest ritverk sín í sjálfskipaðri útlegð. Þannig var önnur skáldaga höfundar, Sigurðar saga fóts, skrifuð í vesturfjöllum Abbisiníu í Eþíópíu. Bókin Mensalder er skrifuð í hinni fornu borg Rawalapindi í Pakistan. Nóvellan Mörður í suðurhéruðum Senegal. Skálholtsbækurnar Í skugga drottins og Í Gullhreppum og Síðustu dagar Skálholts hafa orðið til á flandri um tugi landa í Afríku, Asíu og Evrópu.