Beint í efni

Hallgrímur Helgason

Æviágrip

Hallgrímur Helgason fæddist þann 18. febrúar 1959 í Reykjavík. Hann nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands veturinn 1979-80 og Listaakademíuna í München 1981-82. Frá árinu 1982 hefur hann starfað sjálfstætt sem myndlistarmaður og rithöfundur.

Fyrsta skáldsaga hans, Hella, kom út árið 1990 og síðan hefur hann sent frá sér fjölda skáldsagna auk leikrita, ljóðabóka og þýðinga. Skáldsaga hans 101 Reykjavík vakti verulega athygli þegar hún kom út árið 1996 og var hún tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999. Hallgrímur hefur nokkrum sinnum verið tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlotið þau tvívegis, fyrst árið 2001 fyrir skáldsöguna Höfund Íslands og svo 2018 fyrir skáldsöguna Sextíu kíló af sólskini.

Samnefnd kvikmynd Baltasar Kormáks byggð á 101 Reykjavík var frumsýnd árið 2000 og hefur hún vakið athygli víða um lönd. Hallgrímur hefur einnig skrifað verk fyrir leikhús, auk fjölda blaðagreina um samfélags- og menningarmál, flutt pistla í útvarpi og komið fram sem grínstæðingur. Bækur hans hafa komið út í þýðingum á Norðurlöndum og víðar. Hallgrímur hefur haldið fjölda einkasýninga sem myndlistarmaður, hér heima  og erlendis, svo sem í Boston, New York, París og Malmö og verk hans hafa verið sýnd á fjölmörgum samsýningum í ýmsum löndum.

Ritþing um Hallgrím Helgason í Gerðubergi 21. apríl 2012