Beint í efni

Hannes Pétursson

Æviágrip

Hannes Pétursson fæddist á Sauðárkróki 14. desember 1931. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1952 og kandídatsprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1959. Hann stundaði einnig nám í germönskum fræðum við háskólana í Köln og Heidelberg 1952 til 1954. Hannes vann að útgáfustörfum hjá Bókaútgáfu Menningarsjóðs á árunum 1964-1976, var útgáfustjóri Smábóka Menningarsjóðs (1-25) á tímabilinu 1959-1969 og Alfræði Menningarsjóðs 1972-1976. Hann átti jafnframt sæti í ritstjórn Skagfirðingabókar, ársriti Sögufélags Skagfirðinga, á árunum 1966-1973.

Fyrsta bók Hannesar, Kvæðabók, birtist fyrst á prenti 1955. Hann hefur sent frá sér fjölda kvæða- og ljóðabóka síðan sem og smásagnasafn, fræðirit, greinar og ævisögur. Hann hefur einnig fengist við þýðingar, meðal annars þýddi hann Hamskiptin eftir Franz Kafka úr þýsku 1960. Hannes hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín á löngum ritferli. Hann var kjörinn heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands 1991 og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 1993 fyrir ljóðabókina Eldhylur. Árið 2018 var Hannes tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir ljóðabókina Haustaugu.

Hannes var gerður að heiðursdoktor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, 23. maí 2022.