Æviágrip
Jóhann Hjálmarsson er fæddur 2. júlí 1939 í Reykjavík. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar 1956 og var við prentnám í Iðnskóla Reykjavíkur til 1959. Sama ár fór hann í spænskunám við Háskólann í Barcelona og svo aftur árið 1965.
Jóhann starfaði hjá Póst- og símamálastofnun frá 1954-1985 og gegndi m.a. stöðu póstfulltrúa og útibússtjóra og síðan blaðafulltrúa frá 1985 til 1990. Hann var bókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins frá 1966 og leiklistargagnrýnandi sama dagblaðs 1967 til 1988. Jóhann hafði umsjón með bókmenntaþáttum í Ríkisútvarpinu en frá 1990 var Jóhann bókmenntagagnrýnandi að aðalstarfi þar til hann lét af störfum hjá Morgunblaðinu sumarið 2006.
Jóhann var í stjórn Félags íslenskra rithöfunda og Rithöfundasambands Íslands 1968 til 1972. Hann sat í frímerkjaútgáfunefnd frá 1982 til 1988. Jóhann var í dómnefnd bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1981 til 1990 og formaður nefndarinnar frá 1987 til 1989. Hann var formaður Samtaka gagnrýnenda 1986 til 1988 og íslenskur ritstjóri Nordisk Posttidskrift, tímarits norrænu póststjórnanna árin 1986 til 1990. Jóhann var einn af ritstjórum Forspils 1958 til 1959 og í ritstjórn Birtings 1958 til 1961. Auk þess gegndi hann ýmsum nefndarstörfum hjá Pósti og síma og Samgönguráðuneytinu 1985-1990.
Jóhann hefur gefið út fjölda ljóðabóka og kom fyrsta bókin, Aungull í tímann, út árið 1956. Ljóð Jóhanns hafa verið þýdd á mörg tungumál og birst í safnritum víðs vegar um heiminn. Ljóðabókin Hljóðleikar (2000) var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2003. Jóhann hefur einnig þýtt ljóð fjölmargra erlendra höfunda.
Frá höfundi
Ljóðið er söngur
LJÓÐIÐ er söngur sálarinnar, rödd hins innra, þess sem ekki er unnt að segja nema í ljóði. Sé ljóðið málsvari einhvers eða einhverra er það innri heimur, þess sem svo torvelt er að tjá.
Segja má að ljóðið sé söngur þess sem ekki kann að syngja!
Gerist ljóðið vísvitandi boðberi einhverra ákveðinna "sanninda", telji erindi sitt afar brýnt í daglegri umræðu eða baráttu er hætt við að tómahljóð heyrist í þeim flestum. Á það skal samt ekki fallist að til sé óumdeilanleg uppskrift að ljóði. Heppnað ljóð afsannar slíkar kenningar.
Biðin er mikilvæg fyrir skáldið. Skáldið þarf að hafa þolinmæði til þess að bíða, jafnvel þótt sú bið taki ár eða áratugi.
Til hvers yrkir þú? Þessari spurningu er oft beint til skálda. Ekkert svar er í rauninni gilt. Bestu ljóðin verða oft til líkt og ósjálfrátt. Skáldið heyrir líkt og hvísl, eitt orð eða setningu. Það verður að halda áfram, engin undankomuleið er sýnileg.
Ekki gefst tími til að íhuga til hvers, hvert sé ætlunarverkið með ljóðinu. Finni ljóðið aftur á móti samhljóm hjá lesanda er líkt og einhverjum tilgangi sé náð.
Ég hef að minnsta kosti tvisvar sinnum gert tilraun til að ögra ljóðinu og í síðara skiptið beinlínis í því skyni að hætta að yrkja. Fyrst orti ég andljóð, ljóð sem áttu alls ekki að vera ljóð heldur líkja sem mest eftir raunveruleikanum, hinu daglega lífi og daglega tali. Það tókst ekki. Ljóðið braust inn þrátt fyrir viðleitni mína til að halda því í skefjum. Ég varð að beygja mig undir hina gamalkunnu staðeynd að andljóð er líka ljóð.
Fyrrnefnd ljóð eða andljóð er einkum að finna í eftirtöldum bókum: Myndinni af langafa (1975), Dagbók borgaralegs skálds (1976) og Frá Umsvölum (1977).
Svo hætti ég að yrkja í mörg ár, forðaðist ljóðið. Það mistókst líka. Ljóðið kom til mín, heimtufrekt og grimmt. Ekki aðeins sem áleitið hvísl, orð og orð, heldur eins og dýr sem hlakkar yfir því að hafa fundið bráð. Þetta dýr hafði aðeins fengið sér blund í fylgsni sálarinnar.
Síðasta ljóðið í Lífið er skáldlegt (1978) hefur undirtitilinn Lokastef. Það merkir ekki aðeins að það sé aftast í þeirri bók heldur er það eins konar stefnuyfirlýsing. Næsta bók kom svo ekki fyrr en 1985, Ákvörðunarstaður myrkrið.
Jóhann Hjálmarsson, 2001
Um höfund
Um Jóhann Hjálmarsson
Ólíkt flestum íslenskum ljóðskáldum sem komu fram fyrir og um miðja síðustu öld er Jóhann Hjálmarsson fæddur í Reykjavík. Hann ólst hins vegar að hluta til upp á Snæfellsnesi. Þessir staðir skipta máli í skáldskap Jóhanns. Hann er borgarskáld, hann er jafnvel borgaralegt skáld. Árið 1976 sendi hann frá sér ljóðabók með, að margra mati, afar vafasömum titli: Dagbók borgaralegs skálds. Á þessum tíma þótti ekki par fínt í vissum kreðsum skálda og menntamanna að vera „borgaralegur“ og að gangast við svo aumu hlutskipti þótti óþarfa hugrekki. En hvað sem líður þeirri pólitísku ögrun sem fólst í orðinu þá skírskotar það til tilraunar Jóhanns um þessar mundir með opna ljóðið svokallaða. Bókin er það sem hún segist vera og inniheldur „dagbókarfærslur“ um hversdagslíf fjölskyldumanns í Reykjavík. Jóhann gaf út að minnsta kosti fjórar bækur þar sem ort var í anda opna ljóðsins um skáldskapinn í hinu hversdagslega og smáa. Þessir textar eru blátt áfram og á köflum alls ekki ljóðrænir. Það er engu líkara en ljóðið leysis upp fyrir augum lesandans þegar andi daglegs lífs leikur um það. Jóhann fjallaði einnig um æsku sína á Hellissandi í opna ljóðinu.
Bókin Myndin af langafa kom út árið áður en Jóhann gaf út fyrrnefnda pólitíska yfirlýsingu. Fyrstu línurnar í bókinni hljóða svo: „Á stofuveggnum hangir mynd./Mér er sagt að hún sé af langafa,/sem ég veit að fór aldrei til ljósmyndara.“ Þetta er langpólitískasta bók Jóhanns. Hún er tilraun til þess að fanga læviblandið loft kaldastríðstímans. Kannski er hún útrás fyrir skoðanir sem skáld máttu að margra mati ekki hafa á þessum tíma. En bókin er líka uppgjör skáldsins við uppruna sinn. Myndin á stofuveggnum er vitanlega af Stalín og það er faðir Jóhanns sem hengdi hana upp. Bókin er nokkurs konar „ljóðsaga“, eins og Jóhann hefur kallað hana sjálfur, og segir frá skoðanauppeldi hans sem markast að mestu af vinstriróttækni föður hans og aðstæðum fjölskyldunnar í sjávarplássi úti á landi um miðja öldina þegar „það var atvinnuleysi og skortur“, eins og segir í bókinni. Drengurinn gleypir við boðskapnum og þegar hann vaknar einn morgun í mars 1953 eftir erfiða drauma og fréttir lát Jósefs Stalín hrekkur hann við og finnur að heimurinn hefur breyst, þennan dag fannst honum Stalín vera langafi sinn, eins og segir í ljóðinu. En smámsaman sér drengurinn hlutina í öðru ljósi, eftir ferðalög á staði sem faðirinn sá aldrei og lestur bóka sem faðirinn las aldrei snýst hann gegn uppeldi sínu.
Þessir tveir heimar borgar og sjávarpláss hafa ætíð verið mikilvægir í skáldskap Jóhanns, eins konar grundvöllur að sjálfsmynd skáldsins. En heimarnir eru þrír.
Þegar Jóhann gaf út sína fyrstu ljóðabók sautján ára gamall árið 1956 ríkti satt að segja svolítið undarlegt ástand í íslenskum bókmenntaheimi. Það var mikil íhaldssemi og ótti. Kannski vegna þess að borgin blés út og sveitirnar skruppu saman. Gömul menning, þjóðleg menning þurfti að víkja fyrir nýrri, innfluttri borgarmenningu. Það næddi um menn í þessu umhverfi og af gömlum vana stóðu þeir hoknir í herðum með bakið upp í vindinn.
Átta árum áður en Jóhann gaf út fyrstu bókina hélt Steinn Steinar því fram í ritdómi að bækur væru fyrst og fremst skrifaðar fyrir skáld og rithöfunda: „að þær væru nokkurs konar sendibréf frá einu skáldi til annars, trúnaðarmál, sem er í eðli sínu öðrum óskiljanlegt og óviðkomandi“. Þessi orð lýstu ágætlega almennu viðhorfi til skáldskapar á þessum tíma; skáldin voru að ganga af hinu hefðbundna ljóði dauðu með því að yrkja óbundið og órímað og að margra mati illskiljanlega. Það segir sína sögu um þetta ástand að þegar Jóhann sendi frá sér þriðju ljóðabókina árið 1961, Malbikuð hjörtu, báðu útgefendurnir hann um að skrifa skýringar við hana sem birtar voru í eftirmála. Raunar var Jóhann með höfuðið fullt af súrrealisma um þessar mundir sem Íslendingar höfðu haft litlar spurnir af. Uppátækið lýsir samt hversu fráleita iðju menn töldu nútímaljóðlist vera á þessum tíma. Í eftirmálanum segir Jóhann að rök útgefendanna hafi verið þau: „að þeir óttuðust, að djúp væri að myndast milli yngri skálda og almennings, gagnrýnendurnir gerðu lítið til að brúa það djúp, skáldin væru þegar allt kæmi til alls einu mennirnir sem gætu rétt hjálparhönd“. Hann segist hafa færst undan því í fyrstu að skýra ljóð sín en fallist á það að lokum, greinilega hikandi því hann biður lesendur að afsaka ef honum hefur tekist verr en skyldi. Kveðst hann vona að viðleitni sín „hafi fært einhverjum sönnun þess, að bókin er ekki skrifuð út í hött eða svindl eins og sumir virðast halda að nútímaljóðagerð sé.“
Sennilega hefur verið eitthvað til í því hjá útgefendunum að þessi nýi skáldskapur væri tormeltari en það sem eldri skáld höfðu ort. Nútímaljóðið var afsprengi módernismans og honum fylgdi krafa um nýtt tungumál. Módernisminn krafðist róttækrar endurnýjunar á gamla skáldamálinu sem helst mátti nota „til að blekkja þá sem lítið sjá“ eins og Jóhann bendir á í ljóði sínu Orð. Það þurfti að orða nýjar hugsanir um nýja tíma og gamlar hugsanir upp á nýtt. Þessi krafa hefur sýnilega haft áhrif á Jóhann í fyrstu bókinni, Aungull í tímann, en hún er tilraun kornungs skálds til þess að krækja í fáeina undarlega fiska sem ferskir straumarnir bera með sér. Önnur bókin, sem heitir einmitt Undarlegir fiskar, er öllu framsæknari en það er þó ekki fyrr en í Malbikuðum hjörtum sem Jóhann rær á djúpið og fangar sinn fyrsta furðufisk enda gripu þá útgefendurnir til sinna ráða, sjálfsagt frávita yfir því að hefðin skyldi geta látið undan orðagjálfri unglinganna. Jóhann var þá enn kornungt skáld, aðeins 22 ára. Þrjú ár voru liðin frá síðustu bók og þann tíma hafði Jóhann meðal annars notað til ferðalaga suður Evrópu. Hann dvaldist um tíma í Berselónu og drakk í sig suðræn áhrif sem síðan hafa búið í skáldskap hans allt til þessa dags og kallast á við nesið og borgina.
Langt hlé verður á skáldskap Jóhanns eftir tilraunirnar með opna ljóðið á áttunda áratugnum og mætti tala um rof á ferlinum. Formið verður ekki aðeins knappara og tálgaðra heldur er tónninn þyngri og dimmari en áður í næstu ljóðabók sem kemur út árið 1985 og nefnist Ákvörðunarstaður myrkrið. Róðurinn milli næstu bóka er lengri en áður: Gluggar hafsins kom út 1989, Rödd í speglunum 1994, Marlíðendur 1998, Hljóðleikar 2000 og Vetrarmegn árið 2003. Sömuleiðis hefur teygst á sambandinu milli orðs og veruleika, miðlunin er orðin torræðari, innhverfari. Ljóðin í þessum bókum lýsa leit, tilvistarlegri en þó fyrst og fremst merkingarlegri – leit að staðfestu í tungumálinu. Hér er ekki að finna vissu skáldsins um stöðu sína gagnvart orðunum og hlutunum sem einkenndi bækur opna ljóðsins og sumar eldri bækur. Íverustaðurinn er ekki lengur kunnuglegur heimur hvunndagsins þar sem ákveðinn samhljómur var ávallt á milli ljóðs og heims. Hér er íverustaðurinn framandlegri og óþekkilegri. Og tilveran er „órólegt, staðfestulaust, óendanlegt og úfið haf“ eins og segir í titilljóði Marlíðenda, einni albestu bók Jóhanns. Ljóðið er lýsandi um viðfangsefni Jóhanns allt frá því á níunda áratugnum. Orðið marlíðendur er fengið úr Eyrbyggja sögu og merkir „þeir sem líða yfir mar“, sjóinn. Er þar átt við kynjaverur af einhverju tagi. Í orðinu sjálfu felst ákveðin kynngi og dul sem íað er að í byrjun ljóðsins: „Ég átta mig á merkingunni, / en óttast að ég gerist / of fornlegur og orðin / taki af mér ráðin.“ Forn orð og fornar sögur sækja á skáldið og opna nýja sýn á tímann sem hann lifir sjálfur, á hlutskipti mannsins. Síðustu línur ljóðsins hljóða þannig:
Við marlíðendur sjáum þetta allt,
hugum að ástinni, finnum girndina vaxa.
Hún vekur okkur svo að við líðum
um veröld hinna þróttlausu, heim þeirra
daga sem ekki er okkar heimur, sem er
athvarf þar sem við morknum að lokum sælir
undir mold að kirkju sem við höfum sjálfir látið gera.Horfin ástríða okkar og blóð,
órólegt, staðfestulaust, óendanlegt og úfið haf.
Það ríkir dauðans óvissa í þessu ljóði, eins og forneskjan hafi náð tökum á skáldinu. Mörk aldanna tveggja mást út. Sömuleiðis mörk lífs og dauða, eða lifenda og dauðra öllu heldur. Marlíðendur eru einhvers konar kynjaverur sem ráfa á milli þessara heima. Marlíðendur gætu verið Ódysseifar nútímans, hrakningsmenn, þeir sem ekki hafa fundið sinn stað, sinn frið. Þessar bækur lýsa með öðrum orðum leit að stað í tilverunni en jafnframt nýjum stað í tungumálinu, eirð í orðunum. Eftir uppreisn gegn uppeldi sínu, hættulegar pólitískar yfirlýsingar og súrrealísk hliðarspor í fljúgandi næturlest eru orðin öruggur staður til að vera á.
© Þröstur Helgason, 2004.
Flutt í Þjóðmenningarhúsi 5. nóvember 2004.
Greinar
Almenn umfjöllun
Hannes Hólmsteinn Gissurarson: „Þegar vöknaði í púðrinu : íslensk skáld kveða sig frá sósíalisma“
Þjóðmál 2009, 5. árg., 4. tbl. bls. 72-80.
Jenna Jensdóttir: „Ljóð sem gera okkur læs“
Skíma 1997;20(1), s. 24-33
John Swedenmark: „Kraftmätning mellan nu och då / Showdown Between Past and Present.“
Nordisk litteratur 2003, s. 64-65
Kjartan Árnason: „Landið opnar hug og hjarta : af ljóðum Jóhanns Hjálmarssonar“
Tímarit Máls og menningar 1998;59(4), s. 95-103
Kjartan Árnason: „Staður X í tilverunni : drepið á fáein atriði í skáldskap Jóhanns Hjálmarssonar“
Skírnir, 1997;171 (haust): s. 500-517
Þröstur Helgason: „Með sverð gegnum varir: Um skáldskap Jóhanns Hjálmarssonar“
Formáli í Með sverð gegnum varir: Úrval ljóða 1956-2000. Reykjavík: JPV útgáfa 2001, s. 7-20
Um einstök verk
Athvarf í himingeimnum
Ólafur Jónson: „Enginn veit hvert stefnir: 1. Athvarf í himingeimnum“
Ólafur Jónsson : Líka líf. Iðunn, Reykjavík 1979
Aungull í tímann
Bjarni Benediktsson: „Aungull í tímann: ljóð“
Birtingur, 3. árg., 1957 (1-2), s. 100-1
Guðmundur G. Hagalín: „Ritsjá“
Eimreiðin, 63. árg., 2. tbl. 1957, s. 155-158
Jón úr Vör: „Gott hjá strák“
Nýtt Helgafell, 2. árg., 1. tbl. 1957, s. 41-42
Áfangastaður myrkrið
Heimir Pálsson: „Leiðsöguminni: Myrkrið“
Ljóðormur, 1986, 3. tbl. s. 48-49
Jón Örn Marinósson: „Jóhann Hjálmarsson. Áfangastaður myrkrið“
Skírnir, 1986;160 s. 349-56
Dagbók borgarlegs skálds
Ólafur Jónsson: Enginn veit hvert stefnir : 3. Dagbók borgarlegs skálds
Ólafur Jónsson: Líka líf. Iðunn, Reykjavík 1979
Gluggar hafsins
Gunnar Stefánsson: „Ljóðið vill ekki skýra“: Í tilefni nýrrar bókar eftir Jóhann Hjálmarsson
Andvari, 114. árg., nýr flokkur XXXI., 1989, s. 119-126
Hugsjór
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall: Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómur)
Stína 2013, 8. árg., 1. tbl. bls. 164-72.
Íslenzk nútímaljóðlist
Eysteinn Þorvaldsson: Jóhann Hjálmarsson. Íslenzk nútímaljóðlist“
Mímir, 10. árg., 2. tbl. nóv., 1971, s.52-54
Helga Kress : „Íslensk nútímaljóðlist“
Skírnir, 1972;146, s. 233-7
Myndin af langafa
Ólafur Jónsson: Enginn veit hvert stefnir : 2. Myndin af langafa
Ólafur Jónsson: Líka líf. Iðunn, Reykjavík 1979
Undarlegir fiskar
Eiríkur Hreinn Finnbogason: Jóhann Hjálmarsson. Undarlegir fiskar“
Almenna bókafélagið: félagsbréf 1958;4(10), s. 62-4
Eyjólfur Konráð Jónsson: „Undarlegir fiskar“
Félagsbréf Almenna bókafélagsins, 4. árg., 10. tbl. 1958, s. 62-64
Jón úr Vör: „Undarlegir fiskar“
Birtingur, 4. árg., 3.-4. hefti 1958, s. 67-68
Sigurður Þórarinsson: „Skilur eftir óm“
Dagskrá (kom út 1957-1959), 2. árg., 3. tbl. 1958, s. 55-56
Þórarinn Guðnason: „Jóhann Hjálmarsson. Undarlegir fiskar“
Tímarit Máls og menningar, 1959;20(1), s.84-5
Vetrarmegn
Geirlaugur Magnússon: „Ljósið sundrar rökkrinu“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 4. tbl. 2005, s. 96-98
Verðlaun
1963 - Viðurkenning úr þýðingarsjóði sænska skáldsins Arturs Lundkvists.
1998 - Styrkur úr Bókasafnssjóði höfunda
Tilnefningar
2003 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Hljóðleikar
Hugsjór
Lesa meiraAllt sem var gleymt er munað á ný
Lesa meiraOf the Same Mind
Lesa meiraOrðræða um skuggann
Lesa meiraLjóð í 25 poètes islandais d´aujourd´hui
Lesa meiraVetrarmegn
Lesa meiraLjóð í Cold was that Beauty...
Lesa meiraMeð sverð gegnum varir : úrval ljóða 1956-2000
Lesa meiraLifað fyrir ljóðið
Lesa meira