Beint í efni

Kristín Steinsdóttir

Æviágrip

Kristín Steinsdóttir fæddist á Seyðisfirði 11. mars 1946. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri hóf hún nám við Kennaraskóla Íslands og útskrifaðist sem kennari 1968. Hún kenndi við gagnfræðadeild Réttarholtsskóla í Reykjavík í þrjú ár en hélt síðan til Kaupmannahafnar þar sem hún dvaldist veturinn 1971-72 við nám í dönsku og dönskum bókmenntum við Kennaraháskólann þar í borg. Þaðan fór hún til Göttingen í Þýskalandi þar sem hún var búsett næstu sex árin, frá 1972-1978 og lagði þar stund á nám í þýsku og dönsku meðfram heimilisstörfum og barnauppeldi. Árið 1978 fluttist hún ásamt fjölskyldu sinni til Noregs en ári síðar til Íslands og bjó lengst af á Akranesi fyrir utan ársdvöl í Þrándheimi í Noregi 1998 - 1999. Á Akranesi kenndi Kristín fyrst við Brekkubæjarskóla en eftir að hún lauk B.A. prófi í dönsku og þýsku frá HÍ kenndi hún við Fjölbrautaskóla Vesturlands þar til hún sneri sér alfarið að ritstörfum árið 1988.

Kristín sat í stjórn Rithöfundasambands Íslands frá 1993 - 2001 og varð síðan formaður samtakanna 2010. Hún var formaður stjórnar Samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda (SÍUNG) 1999 - 2003. Kristín hefur skrifað fjöld bóka fyrir börn og unglinga og einnig hefur hún þýtt barnabækur úr þýsku. Hún hefur samið leikrit, bæði fyrir svið og útvarp, í samstarfi við systur sína, Iðunni Steinsdóttur rithöfund og sent frá sér skáldsögur fyrir fullorðna. Kristín hefur einnig skrifað kvikmyndahandrit með styrk úr Kvikmyndasjóði.

Kristín hefur hlotið margskonar verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín. Fyrsta bók hennar, Franskbrauð með sultu, sem út kom 1987, hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin sama ár. Engill í vesturbænum (2002) er margverðlaunuð, hún hlaut meðal annars Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur 2003 og Norrænu barnabókaverðlaunin sama ár. Kristín hlaut viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins 2007.

Bækur eftir Kristínu hafa verið þýddar á önnur mál.

Kristín Steinsdóttir er gift og á þrjú uppkomin börn. Hún er búsett í Reykjavík.

Forlag: Vaka-Helgafell.

Ritþing um Kristínu Steinsdóttur í Gerðubergi 12. október 2013