Beint í efni

Margrét Örnólfsdóttir

Æviágrip

Margrét Örnólfsdóttir er fædd í Reykjavík 21. nóvember 1967. Hún útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 1988 og lauk 8. stigi í píanóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1994.

Margrét var hljómborðsleikari Sykurmolanna frá 1988 til 1992. Síðan þá hefur hún starfað sjálfstætt sem tónlistarmaður, samið tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir og sent frá sér hljómplötur fyrir börn. Þá hefur hún unnið við þýðingar, texta- og hugmyndavinnslu í auglýsingageiranum, verið leiðbeinandi á listnámskeiðum fyrir börn og fullorðna, og haft umsjá með útvarps- og sjónvarpsþáttum, þar helst barnatíma Stöðvar tvö sem nefndist Himinn og jörð og allt þar á milli.

Margrét skrifaði handritið að dans- og söngvamyndinni Regína (2001), auk þess að semja tónlist við myndina, og hefur síðan starfað við handritagerð. Þar hefur hún skrifað handrit meðal annars fyrir þættina Stelpurnar, Svarta engla, Rétt og Pressu, auk Áramótaskaupsins 2006. Margrét sat í stjórn Félags leikskálda og handritshöfunda á árunum 2005 til 2007.

Aþena (ekki höfuðborgin í Grikklandi ;), fyrsta skáldsaga Margrétar fyrir börn, kom út árið 2009. Ári síðar fylgdi framhaldið, Aþena – hvað er málið með Haítí, og árið 2011 sendi hún frá sér bókina Með heiminn í vasanum. Fyrir bækur sínar hefur Margrét hlotið Fjöruverðlaunin og Vorvindaviðurkenningu IBBY á Íslandi; fyrir Með heiminn í vasanum hlaut hún barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur, en bókin er einnig tilnefnd til Vestnorrænu barna- og unglingabókaverðlaunanna.

Margrét er gift og á fimm börn. Hún býr í Kópavogi.

Forlag: Bjartur.