Beint í efni

Mikael Torfason

Æviágrip

Mikael Torfason er fæddur 8. ágúst 1974 í Reykjavík. Hann ólst upp á ýmsum stöðum í Reykjavík en dvaldi oftast í sveit á sumrin, lauk grunnskólaprófi frá Vogaskóla 1989 og stundaði nám við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð og fjarnám við Verkmenntaskóla Akureyrar 1995-1997. Auk þess hefur hann sótt ýmis námskeið í handritsgerð á vegum Kvikmyndasjóðs Íslands, Nordisk Film og TV Fond og European Script Fund. Hann hefur unnið að þáttagerð í útvarpi og sjónvarpi og lengi unnið við ritstjórn. Hann var ritstjóri Fókuss, fylgirits DV, árin 1998-2000; ritstjóri DV árin 2003-6; aðalritstjóri tímaritaútgáfu Birtings árin 2006-7; ritstjóri Fréttatímans árið 2012; og aðalritstjóri fréttasviðs 365 árin 2013-14.

Fyrsta skáldsaga Mikaels, Falskur fugl, kom út 1997 og vakti töluverða athygli. Fjórar skáldsögur hafa fylgt í kjölfarið, síðast Vormenn Íslands (2009). Árið 2015 sendi Mikael frá sér endurminningabókina Týnd í paradís. Hann hefur einnig skrifað kvikmyndahandrit og auk þess leikstýrt einu þeirra, kvikmyndinni Gemsar (2002). Skáldsaga hans Heimsins heimskasti pabbi (2000) hefur komið út í Finnlandi, Danmörku og Þýskalandi, og var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2002. Þá var hann tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir skáldsöguna Samúel (2002). Einþáttungur Mikaels, Hinn fullkomni maður, var settur upp í Borgarleikhúsinu árið 2002; hann hefur síðan skrifað meira fyrir svið, síðast sviðsuppfærslu Borgarleikhússins á Njálu árið 2016.

Mikael Torfason býr í Reykjavík. 

Heimasíða Mikaels, mikaeltorfason.com.

Forlag: JPV útgáfa.