Beint í efni

Oddný Eir Ævarsdóttir

Æviágrip

Oddný Eir Ævarsdóttir er fædd árið 1972 í Reykjavík. Hún nam heimspeki við Háskóla Íslands og lauk þaðan meistaraprófi í stjórnmálaheimspeki árið 2000. Þá stundaði hún doktorsnám í París í fimm ár og lauk DEA prófi frá Sorbonne-háskóla með ritgerð sinni um pólitíska þýðingu skjalasafnsins.

Oddný Eir hefur stundað rannsóknir á íslenskum safna- og minjavettvangi og barist fyrir náttúruvernd og nýsköpun í samvinnu við söngkonuna Björk. Þá vann hún einnig með Björk í tengslum við verkefni hennar Biophilia, meðal annars að textagerð. Oddný hefur unnið í samstarfi við myndlistarmenn við sýningarstjórn og skrif, þar á meðal bróður sínum Ugga Ævarssyni, en saman ráku þau sýningarrýmið Dandruff Space í New York og saman gefa þau út skáldskap hjá bókverkaútgáfunni Apaflösu. Oddný Eir hefur verið virk á íslenskum menningarvettvangi síðustu ár, hún hefur ritstýrt þremur myndlistabókum og starfað sem ritstjóri vefsins Náttúra.info, haldið fyrirlestra og kennt reglulega í Listaháskólanum.

Oddný sendi frá sér ljóðabókina snjór piss hár árið 2000, en sú kom út ásamt fjórum öðrum smábókum í öskju frá Apaflösu. Fyrsta skáldsaga Oddnýjar, Opnun kryppunnar, kom út árið 2004. Í kjölfarið hefur hún sent frá sér ýmiskonar prósaverk og fjórar skáldsögur, síðast Undirferli: yfirheyrsla árið 2017.

Jarðnæði var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2011 og hlaut Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, árið 2012. Heim til míns hjarta var tilnefnd til menningarverðlauna DV árið 2009.

Oddný Eir býr í Reykjavík.

Útgefandi: Bjartur.