Beint í efni

Páll Kristinn Pálsson

Æviágrip

Páll Kristinn Pálsson fæddist 22. apríl 1956 í Reykjavík, en ólst upp í Hafnarfirði. Að loknu verlsunarprófi frá Verslunarskóla Íslands 1975 tók við nám í Flensborgarskóla í Hafnarfirði sem lauk með stúdentsprófi 1978. Hann lagði stund á þjóðfélagsfræði og bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1978-1986 og að því loknu kvikmyndafræði við Háskólann í Kaupmannahöfn til ársins 1993. Páll hefur starfað við blaðamennsku frá 1977 og birt fjölda greina í blöðum og tímaritum. Hann hefur jafnframt ritstýrt blöðum fyrir félagasamtök og unnið að gerð auglýsinga. Hann hefur einnig fengist við gerð fræðslu- og heimildamynda á myndböndum fyrir ýmsa aðila, þar á meðal í samstarfi við Hilmar Oddsson leikstjóra en þrjár myndir þeirra voru tilnefndar til verðlauna á alþjóðlegri hátíð fræðslu- og kynningarmynda í Búdapest 1996.

Ásamt Árna Þórarinssyni hefur Páll skrifað handrit að tveimur leiknum sjónvarpsmyndum og þeir hafa líka skrifað tvær glæpasögur saman, Í upphafi var morðið (2002) og Farþegann (2006). Fyrsta skáldsaga Páls Kristins, Hallærisplanið, kom út 1982. Síðan þá hefur hann sent frá sér fleiri skáldsögur, smásögur og samtalsbækur.

Páll Kristinn Pálsson er búsettur í Reykjavík, kvæntur og fjögurra barna faðir.

Forlag: JPV útgáfa.