Beint í efni

Sigurður A. Magnússon

Æviágrip

Sigurður A. Magnússon fæddist 31. mars 1928 að Móum á Kjalarnesi. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1948 og stundaði nám í guðfræði, grísku og trúarbragðasögu við Háskóla Íslands frá 1948 til 1950. Sama ár fór Sigurður til Kaupmannahafnar og nam guðfræði og bókmenntir við Kaupmannahafnarháskóla til 1951 og síðan sögu og bókmenntir við háskólann í Aþenu til 1952. Að því loknu lá leiðin til Svíþjóðar þar sem Sigurður lagði stund á bókmenntir við Stokkhólmsháskóla. Hann lauk BA-prófi í samanburðarbókmenntum frá The New School for Social Research í New York árið 1955. Sigurður kenndi við Stýrimannaskóla Íslands og Gagnfræðaskóla Austurbæjar á árunum 1948 til 1950.

Hann var útvarpsfyrirlesari hjá Sameinuðu þjóðunum og kenndi íslensku við The City College of New York frá 1954 til 1956. Hann var fyrirlesari í íslenskum fornbókmenntum í The New School for Social Research 1955 til 1956. Síðan lá leiðin til Íslands aftur og var Sigurður blaðamaður á Morgunblaðinu 1956 til 1967 og ritstjóri Lesbókarinnar frá 1962 til 1967. Hann var ritstjóri Samvinnunnar 1967 til 1974 og skólastjóri Bréfaskólans 1974 til 1977.

Sigurður vann ötullega að félagsmálum og gegndi formannsstöðu í fjölmörgum samtökum og félögum. Hann var t.a.m. formaður Félags íslenskra leikdómenda 1963 til 1971, Rithöfundafélags Íslands 1971 til 1972 og Rithöfundasambands Íslands hins fyrra 1972 til 1974. Sigurður var fyrsti formaður Rithöfundasambands Íslands og gegndi því embætti frá 1974 til 1978. Hann var formaður Norræna rithöfundaráðsins 1976 til 1977 og Íslandsdeildar Amnesty International 1988 til 1990 og 1993 til 1995. Sigurður var í alþjóðlegri dómnefnd um The Neustadt International Prize for Literature 1986 og í dómnefnd um Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs frá 1990 til 1998. Sigurður ritaði fjölda pistla um þjóðfélags- og menningarmál í dagblöð og tímarit. Hann var að auki leiðsögumaður í Austurlöndum nær, Grikklandi, Indlandi, Nepal, Japan og Brasilíu.

Sigurður skrifaði fjölda bóka á íslensku og ensku, þar á meðal skáldsögur, ljóð, leikrit, ferðasögur, endurminningabækur, greinasöfn og bækur um íslenska hestinn. Fyrsta bók hans var ferðasagan Grískir reisudagar sem kom út 1953. Sigurður vann að kynningu íslenskra bókmennta erlendis og ritstýrði meðal annars sýnisbókum og þýddi ljóð íslenskra skálda. Hann þýddi einnig mikið úr dönsku, ensku, grísku og þýsku, þar á meðal verk eftir H.C. Andersen, Bertolt Brecht, Gíorgos Seferis, Pandelis Prevalakis, Walt Whitman, James Joyce, Nagíb Mahfúz, Kazuo Ishiguro, John Fowles og Ernest Hemingway.

Sigurður lést þann 2. apríl árið 2017.