Æviágrip
Stefán Hörður Grímsson fæddist í Hafnarfirði 31. mars 1919. Hann nam við Laugarvatnsskóla og hjá Námsflokkum Reykjavíkur. Hann vann við landbúnaðarstörf og sjómennsku, var sundkennari og næturvörður.
Fyrsta ljóðabók Stefáns Harðar, Glugginn snýr í norður (1946), þykir dæmigert byrjendaverk þar sem höfundur fer troðnar slóðir í formi og tjáningarmáta og fetar í fótspor eldri skálda. Við annan tón kveður í annarri ljóðabók hans, Svartálfadansi (1951). Bókin vakti mikla athygli og aðdáun og þar þótti Stefán Hörður stíga fram sem fullmótaður módernisti og atómskáld. Nítján ár líða fram að næstu ljóðabók hans, Hliðin á sléttunni (1970). Aftur líða ellefu ár þar til Farvegir (1981) kemur út. Árið 1987 sendi hann síðan frá sér ljóðabókina Tengsl og var hún tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1989. Önnur ljóðabók kom út tveimur árum síðar, Yfir heiðan morgun. Fyrir hana fékk hann íslensku bókmenntaverðlaunin fyrstur manna. Ljóð Stefáns Harðar hafa verið þýdd á önnur tungumál og komið út í ljóðasöfnum.
Stefán Hörður lést í Reykjavík 18. september 2002, 83 ára að aldri.
Forlag: Mál og menning.
Frá höfundi
Játning
Ég strika yfir þetta ljóð sem ég hef skrifað á
þessa hvítu örk. Ég strika yfir þetta ljóð sem
er af orðum gert, orðum sem áttu að vera um
þig eins og þetta ljóð. En hefði svo verið mundi
þessi hvíta örk hafa breytzt í gullinn söng.
Úr Hliðin á Sléttunni
Um höfund
Hin friðlausa ró – Um skáldskap Stefáns Harðar Grímssonar
Stefán Hörður Grímsson var ellefu ára gamall þegar hann sá fyrst bók með kvæðatextum. Það var Íslensk söngbók sem kom út nokkrum sinnum á öndverðri 20. öld. Þá var hann sjálfur farinn að setja saman kvæði eins og hann greinir frá í viðtali í Birtingi 1959. Þar segir hann líka að hann hafi eignast fyrstu ljóðabókina þegar hann var 14 ára; það var Fagra veröld Tómasar Guðmundssonar. „Fagra veröld kveikti svo rækilega í mér að ég brann í logum hennar mörg ár á eftir.“ Snemma mun Stefán einnig hafa komist í tæri við ljóð Steins Steinars og farið að gera tilraunir með óbundin ljóð. Á unga aldri skrifaði hann einnig smásögur og blaðafrásagnir og slíkar ritsmíðar eftir hann birtust í tímaritum áður en fyrsta ljóðabók hans kom út.
Stefán Hörður óx upp við kröpp kjör; barnungur varð hann munaðarlaus. Stritvinna í sveitastörfum og sjómennsku er ekki líkleg til að örva skáldskaparþörfina en hún virðist ekki heldur geta hindrað hana. Svo mikið er víst að sjómaðurinn Stefán Hörður Grímsson varð einn af brautryðjendum í íslenskri nútímaljóðlist 20. aldar; hann var eitt af atómskáldunum og elstur í hópi þeirra ungu manna sem leiddu formbyltinguna svonefndu til lykta um miðja 20. öld.
Þegar Stefán Hörður var rúmlega tvítugur á vetrarvertíð í Vestmannaeyjum 1943 sendi hann tímaritinu Helgafelli eitt kvæði: „Gamall fiskimaður“, og þar birtist það í sumarheftinu 1943. Þetta var fyrsta kvæði hans á prenti, hefðbundið frásagnarkvæði um ævikjör og sjóndeildarhring fiskimanns; stíllinn er mælskur og ólíkur þeim sem síðar einkenndi ljóð skáldsins.
Það mun ekki algengt að ort séu ljóðræn kvæði til sjós, en þetta var m.a. vertíðariðja Stefáns Harðar mitt í kappsemi fiskveiðanna. Nokkur ljóðanna í hinum fyrri bókum hans eru beinlínis af þessum vettvangi, m.a. „Síldarminning“ en það orti hann 18 ára gamall um borð í togara á leið frá síldveiðum. Í ljóðum Stefáns er sjórinn ekki sléttur og blár eins og í augum landkrabbans; hann er ófriðlegur og ógnandi í skynjun sjómannsins sem fjallar um hann í hringiðu starfsins. Sérkennilegt í formi og efnistökum er „Lóðabátur“ með stórbrotnum myndum af þilfari, stafni, spili, sjávarlöðri og hafdjúpunum en í þessu ólgandi umhverfi eru skipverjarnir fremur óásjálegir og vanmáttugir:
Þilfar: roðgul lík á dökkum fjölum
Stafn: sem heggur í sundur báruhrygg
Spil: sem tekur undir við norðanvindinn
Háseti: sá sem togar í spotta af snæri
Formaður: bátsins ljótasti maður í glugga.
Löðrið yfir og rifinn skýjaflóki.
Undir er djúpið og þess bleiku skógar.
(Svartálfadans)
En Stefán Hörður orti ekki eingöngu um sjómennsku meðan hann var við fiskveiðar, t.d. er eitt þekktasta náttúruljóð hans, „Vetrardagur“, ort á vertíðarbáti frá Grindavík meðan verið var að draga línuna.
Fyrsta ljóðabók Stefáns Harðar, Glugginn snýr í norður, kom út árið 1946. Þessi æskuljóð skáldsins eru flest háttbundin. Í sumum þeirra bregður fyrir nýrómantískum einkennum en önnur minna á hugarþel og tjáningu í kvæðum Steins Steinars. Í bókinni eru einnig nokkur óbundin ljóð, og mörg þessara ljóða orti Stefán tæplega tvítugur að aldri. Ljóðin bera þess merki að þau eru ort á tímamótum af ungu skáldi sem er að leita fyrir sér á gresjum skáldskaparins.
Önnur ljóðabók Stefáns Harðar, Svartálfadans, kom úr 1951, og á þessum fimm árum frá því fyrsta bókin birtist hefur ljóðagerð hans tekið stakkaskiptum. Hér eru ljóðin án ljóðstafa og ríms en mörg þeirra hafa fasta hrynjandi. „Kvöldvísur um sumarmál“ er eitt þeirra en það birtist í tímariti þegar árið 1948 og lýkur með þessu erindi:
Rökkur fellur á augu
kvöldsins og önnur blárri
handan við glötuð vor
verður að einu og rennur
saman kvöldið og mynd þín
hljóð og fögur sem minning
hrein og hvít eins og bæn.
Í Svartálfadansi hefur Stefán Hörður tileinkað sér móderníska tjáningu með ríkri myndvísi og persónulegum, hógværum stíl sem er gjarnan fremur svalur og kyrrlátur á yfirborðinu en reynist heitur og ólgandi undir niðri. Þennan ljóðstíl hefur skáldið þróað og fágað í þeim fjórum bókum sem frá honum hafa komið síðan. Titilljóð bókarinnar hefst á þessu erindi:
Lifrauð sólkringlan viðrar dreglana
út um syngjandi hafflötinn
og nóttin kemur í sínum gamla vagni
yfir blátt fjall.
Við blöndum kvöldskininu í fölgult vínið
og bíðum eftir nóttinni sem er að koma.
Eitt ljóðanna í Svartálfadansi, „Bifreiðin sem hemlar hjá rjóðrinu“, hafði áður birst í Tímariti Máls og menningar 1949, einungis þremur árum eftir að fyrsta bók skáldsins kom út. Þetta er eitt af þeim ljóðum sem sýna hversu skjótt Stefán Hörður tileinkar sér módernískan, miðleitinn stíl og auðuga myndvísi. Jafnframt birtist í ljóðinu sýn til samtímans og fortíðar í senn en slíkt tímaskyn átti eftir að einkenna fleiri ljóð hans.
Þriðja ljóðabók Stefáns Harðar kom ekki fyrr en 19 árum síðar: Hliðin á sléttunni (1970). Í henni eru einungis 16 ljóð; sex þeirra eru prósaljóð. Í mörgum þessara ljóða er myndmálið torræðara en fyrr en eigi að síður eru heimspólitísk viðfangsefni og ádeila tíðari hér en í fyrri bókum. Málfarið er hófstillt en hnitmiðað og ljóðmyndir sterkar og stundum óvæntar. Árið 1970 kom einnig út endurskoðuð útgáfa af Svartálfadansi. Og 1979 komu þessar þrjár fyrstu bækur Stefáns Harðar út á einni bók undir heitinu Ljóð. Þar hefur skáldið endurskoðað fyrstu ljóðabók sína og fellt úr henni nokkur ljóð.
Enn leið rúmur áratugur uns ný ljóðabók eftir Stefán Hörð birtist; á níunda tug aldarinnar rann upp frjósamasta skeið skáldskapar hans og þá komu þrjár bækur frá hans hendi sem juku mjög hróður hans og hlutu allar mjög góðar viðtökur: Farvegir (1981), Tengsl (1987) og Yfir heiðan morgun (1989).
Ljóðstíll
Ljóðform Stefáns Harðar er margbreytilegt, flest eru ljóðin knöpp, hið stysta einungis fjögur orð („Þróun“ í Farvegum), og miðleitni eða hnitmiðun er eitt af stíleinkennum hans. Hann hefur einnig lagt rækt við prósaljóð og er þau að finna í fjórum seinni bókum hans. Í þeim bókum hefur hann jafnframt að mestu lagt niður þá hrynjandi sem einkenndi mjög ljóðin í fyrstu bókunum tveimur en þó bregður henni fyrir áfram ásamt hefðbundnum brag.
Stefán Hörður mótaði sér snemma sérstæðan ljóðstíl. Orðfærið er með vönduðu og hnitmiðuðu en yfirlætislausu sniði. Við náinn lestur kemur gjarnan í ljós að látleysi málfarsins og hógvært viðmót ljóðanna magna skaphitann og tilfinningaólguna sem undir niðri búa. Hugkvæmni í sköpun nýrra orða er líka stíleinkenni og samsett nýyrði Stefáns falla vel að tungumálinu ásamt víðtækri og lýsandi merkingu, t.d.: Þögnuðuholt, hvirfilvængur, hugðarsegl, fjallasólbrá, meinguðir, kvöldroðastúlka, ungskógur. Þessi frumlega orðasmíð er vitanlega nátengd myndvísi Stefáns Harðar en ljóð hans byggjast á sérkennilegum myndhverfingum. Myndirnar eru gjarnan dregnar fáum og skýrum línum og þær eru fágaðar og hófsamar að orðum og lit. Eigi að síður eru þær stundum torræðar og torræðni þeirra kann við fyrstu kynni að virðast í andstöðu við skýrleika þeirra. En þeim mun áleitnari geta þær orðið og þær linna ekki ásókninni fyrr en lesandinn hefur sæst á skilning eða grun – sem kann að vera án röklegrar skilgreiningar en getur eigi að síður verið viðunandi niðurstaða. Þegar nánar er lesið undir æðrulaust yfirborðið, býr þar gjarnan sterkur skaphiti, tilfinningar og stundum róttæk ádeila. En hér er ekki þrumað með stóryrðum; allt sem segja þarf er tjáð með tærum myndum og hófstilltu máli sem aldrei lætur mikið yfir sér. Ekkert er hinsvegar einfalt, hrátt eða sjálfgefið.
Náttúran
Náttúran í allri sinni dýrð og allri sinni niðurlægingu er Stefáni Herði hugstætt viðfangsefni. Hann getur talist fyrsta og eina náttúruverndarskáldið á Íslandi sem verulega kveður að. Í ljóðunum leggur hann áherslu á virðingu fyrir lífríki náttúrunnar og berst ótrauður fyrir varðveislu hinna upprunalegu náttúruverðmæta en jafnframt er óhjákvæmilegt að deila á þann sem er helsti skemmdarvargurinn, nefnilega maðurinn sjálfur. Hann er dýr þóttans, dýr vopnsins, svo sem stendur í ljóðinu „Mögn“ (Yfir heiðan morgun). Hann er „skæðasta meindýr jarðar“ vegna tilhneigingar sinnar til að „eyða öllu lifandi og dauðu“, segir í ljóðinu „Eindagar“ (Hliðin á sléttunni). Meðal eftirminnilegustu ljóða af þessu sviði eru líka ljóðin „Þögnuðuholt“ (Tengsl) og „Árablöð“ (Yfir heiðan morgun). Þögnuðuholt er nöturlegur staður, örfoka land, skógurinn eyddur með ilmi sínum og lit, fuglasöngurinn þagnaður. Þar er gengið um berar klappir, urðir og blásna mela; við erum minnt á að maðurinn er „[…] á góðri leið / með að brenna allt sem fram undan er / og allar brýr að baki“. Í „Árablöðum„ er samskonar áminning. Meðan skógurinn lifði:
Þá sungu merkur;
sungu -
sagt er
í skjölum.
En nú er svo komið að „það skrjáfar / í skjölum. // Skrjáfar / sem í skorpnum blómum / þegar lindir þorna.“ Þannig hafa „skógaböðlarnir“ leikið náttúruverðmætin.
Náttúrukveðskapur skáldsins er þó alls ekki verndunarljóðin ein. Ekki eru síður eftirminnileg þau ljóð sem miðla skynjun þeirrar fegurðar og töfra sem náttúran býr yfir og birta óvenjulega sýn á lífið í ríki hennar. T.d. þegar „við blöndum kvöldskininu í fölgult vínið“. Eða „Stúlka á bláum hesti / veifar við einstigið“. Þau sem óku „bjartan Hringbrautarbogann […] fagran janúardag […] þegar frostin gengu með ævintýrum“. Og mennirnir sem koma „eftir hjarninu / með fjöll á herðum sér“,
Maðurinn á jafnan sinn stað í þessari náttúrulýrik, enda eru það tengsl manns og náttúru sem skipta sköpum fyrir velferð beggja. Náttúrukenndin getur fengið ávæning af rómantískum andblæ í sumum ljóðum þó að áhrif hennar á ljóðmælandann séu ólgandi tilfinningar en ekki friðsæld, t.d. í „Næturgriðum“:
Jarðneska kyrrð vertu mér náðug um stund.
Og vektu blóð minni leyndaræð
og láttu dropa hníga sem vesæla þakkarfórn
í mjúkan svörð.
Skógarhvíld veittu mér friðlausa ró
er ég vakna
og fylltu brjóst mitt útþrá sem löngum:
Minni gjöfulu heimþrá!
(Yfir heiðan morgun)
Stefán Hörður teflir oft fram hinu friðsæla og litríka í jarðneskri fegurð gegn eyðingu náttúrunnar. Í ljóðum hans búa blóm, fuglar, fiðrildi – hið smágerða, iðandi líf: spörinn langfleygi, en undir farnaði hans og gleði eigum við allt; honum er borin kveðja:
Steindepill steindepill
á þessari stundu
þolir bringa mín engan söng
nema þinn.
(Tengsl)
Ástin
Mannleg tengsl, en þó einkum ástin, hafa jafnan verið ríkur þáttur í ljóðum Stefáns Harðar. Ástarljóðin eru með þeim hætti ort að þau eru í senn hljóðlát og tilfinningarík. Í þeim ríkir ekki hin eilífa, staðfasta ást né hrópandi játningar, heldur ástin ofurseld hverfulleika en dýrmæt og eftirsóknarverð:
Ó, nornamáttur haltu fram á haust
hverflyndum börnum tveim á þessum stað
segir í háttbundnu erindi í ljóðinu „Sumar enn“ (Yfir heiðan morgun). Ekkert er staðfast, ástareldurinn verður fyrr en varir að ösku, því að „Ævintýri / eru eldfim / bæði lífs og liðin“ eins og segir í ljóðinu „Að farga minningu“ (Tengsl); meira að segja minningin getur orðið að öskufalli við endurfundi. Maðurinn og ástin í teikni náttúrunnar, þau tvö sem haldast í hendur yfir heiðan morgun eru hugstæð minni í ljóðum Stefáns Harðar: „Þau gengu tvö eftir gangstéttinni / og héldust í hendur mót rísandi sól“ stendur í ljóðinu „Þau“ (Yfir heiðan morgun).
Áður var minnst á ljóðið „Eindaga“ sem flytur beitta ádeilu á eyðandi drottnun mannskepnunnar, en lokaorð þess eru ákall og áskorun þar sem teflt er fram þeim gildum sem andstæðust eru eyðingunni:
Lofið varir ljóðið og ástina
fram á yztu nöf.
Viðhorf
Stefán Hörður er efahyggjumaður með vítt sjónarsvið. Í lífsviðhorfa-ljóðum sínum og ádrepum horfir hann um heim allan og greinir nútímamanninn og atferli hans. Stundum eru ljóðin nærmynd af veruleikanum og ævinlega eru þau miðleitin, hverfast um eina meginmynd sem geymir margvísandi inntak. Í ljóðunum er spurt, ígrundað og fullyrt um skilning á tilverunni, um lífsrök mannsins, tilfinningar hans og örlög. Og alltaf má finna að hugur fylgir máli, ljóðin bera með sér að skáldinu liggur mikið á hjarta; þau flytja skilaboð til okkar allra. Það er brýning um að sýna öllu lífríkinu virðingu. Örstutt ljóð, sem heitir „Fyrirbæn„ er dæmi þess:
Regn ungskógi
sólskin ungskógi
sól og regn ungviði
(Farvegir)
Sá sem er gagnrýninn öðlast óhjákvæmilega fullvissu um að margar ógnir steðja að, nær og fjær, og hann treystir ekki á einfaldar lausnir. Gjarnan er reynt að koma bölsýnisorði á slíka menn, oftast að ástæðulausu. Það er trúblindingurinn sem í þröngsýni sinni lætur allan ósóma yfir sig ganga og flýtur sofandi að feigðarósi. En gagnrýninn maður leitar leiða og finnur þær. Dæmi um efahyggjuna og lífshyggjuna er ljóðið „Á tímum vor bjölludýra„:
Smæðir og stærðir . . .
allt nær harla skammt.
Vísast að hið sanna
reynist hvergi satt
og sönnun engin sönn
né nokkur merking,
en forsendur liðist
hægt í andstæð tákn.
Njótum þess morgunglöð
að villast rétta leið!
Næsta fótmál skín í undrafirð.
(Yfir heiðan morgun)
Einungis sex ljóðakver eftir Stefán Hörð Grímsson hafa komið út á meira en hálfrar aldar skáldferli og voru þau endurútgefin í vandaðri heildarútgáfu árið 2000. Stefán Hörður er einstaklega vandvirkur og kröfuharður gagnvart sjálfum sér og eigin skáldskap og hefur einungis birt strangt úrval ljóða sinna. Sjálfur er hann hlédrægur maður og hefur forðast sviðsljós fjölmiðla, en ljóð hans hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda. Hann hefur ekki blandað sér í opinberar umræður; ljóðin tala máli hans og segja hug hans. Einn ritdóm hefur Stefán Hörður birt og má þar jafnframt fræðast nokkuð um skáldskaparviðhorf hans; ritdómurinn er um Kvæðabók Hannesar Péturssonar (Birtingur, 4. h. 1955).
Stefán Hörður Grímsson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í fyrsta sinn sem þau voru veitt árið 1990 fyrir ljóðabókina Yfir heiðan morgun. Með þeirri viðurkenningu var brotið blað í íslenskri ljóðlistarsögu: staðfest var menningargildi þeirrar endurnýjunar sem skáld módernismans höfðu fært íslenskri ljóðlist. Alþjóðlega viðurkenningu hlaut Stefán Hörður þegar sjö ljóð eftir hann voru valin í veglegt rit um nútímaljóðlist heimsins, Atlas der neuen Poesie (1995), en í þessu vandaða úrvali þýsku Rowohlt-útgáfunnar, eru ljóð eftir 65 skáld sem yrkja á 21 tungumáli.
Ljóð Stefáns Harðar hafa verið þýdd á mörg tungumál og komið út á bókum, m.a. á frönsku – Choix de Poémes – valið og þýtt af Régis Boyer, á þýsku – Geahnter Flügelschlag - valið og þýtt af Wolfgang Schiffer og Franz Gíslasyni og á dönsku – Når det bliver morgen - af Erik Skyum-Nielsen. Í frönsku og þýsku bókunum eru ljóðin einnig birt á frummálinu.
© Eysteinn Þorvaldsson, 2002
Greinar
Almenn umfjöllun
Einar Bragi: „Spjallað við Stefán Hörð“
Birtingur, 5. árg., 1-2 tbl. 1959, s. 1-9
Eysteinn Þorvaldsson: „Ómur af horfinni tónlist : úr ljóðafylgsnum Stefáns Harðar Grímssonar“
Skírnir 2003, 177 (vor), s. 7-15.
Eysteinn Þorvaldsson: „Skuggar okkar : tími og fallvelti í ljóðum Stefáns Harðar Grímssonar“
Tímarit Máls og menningar 2000, 61. árg., 4. tbl. s. 90-96.
Eysteinn Þorvaldsson: „Framhjá Þögnuðuholtum : náttúruvernd í ljóðum Stefáns Harðar Grímssonar“
Tímarit Máls og menningar 1997, 58. árg., 4. tbl. s. 3-16.
Gunnlaugur Ástgeirsson: „„Á mjóum fótleggjum sínum koma mennirnir eftir hjarninu...“ : um ljóð Stefáns Harðar Grímssonar“
Tímarit Máls og menningar 1980, 41. árg. 3.-4. tbl. s. 354-65.
Jóhann Hjálmarsson: „Harpa í djúpum sjó : Stefán Hörður Grímsson“
Íslensk nútímaljóðlist, s. 161-7.
Sigurður A. Magnússon: „Stefán Hörður Grímsson. Geahnter Flügelschlag; Ich hörte die Farbe blau. Poesi aus Island“
Skírnir 1993, 167. árg (vor), s. 285-6.
Þór Jakobsson: „Tynglingur og tannvegur : orð í ljóð og kennsluskrá“
Skjöldur 2003, 12. árg., 4. tbl. s. 10-11.
Um einstök verk
Glugginn snýr í norður
„Glugginn snýr í norður“ (ritdómur)
Helgafell 1953, 5. árg., s. 62-3.
Farvegir
Þorleifur Hauksson: „Á þessum dægrum töfra“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 1982, 43. árg., 4. tbl. s. 478-80.
Hliðin á sléttunni
Sigfús Daðason: „Að skoða hliðin á sléttunni“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 1970, 31. árg., 2. tbl. s. 187.
Sveinn Skorri Höskuldsson: „Stefán Hörður Grímsson. Hliðin á sléttunni“ (ritdómur)
Skírnir 1970, 144. árg. s. 225-9.
Mörleysur
Einar Jónsson: „- en eygir hvergi fjallið sjálft“
Són 2006, 4. árg. s. 115-20.
Svartálfadans
Crassus: „Nokkur orð um ljóðskáld og ljóð“ (ritdómur)
Helgafell 1953, 5. árg. (maí), s. 120-1.
Tengsl
Þorleifur Hauksson: „Undur blindgötunnar : Líf“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 1987, 48. árg., 4. tbl. s. 501-4.
Þórir Óskarsson: „Stefán Hörður Grímsson. Tengsl; Þorsteinn frá Hamri. Urðargaldur“ (ritdómur)
Skírnir 1987, 161. árg. (haust), s. 403-11.
Yfir heiðan morgun
Kristján Árnason: „Horft upp í heiðið : um ljóð Stefáns Harðar Grímssonar“ (ritdómur)
Skírnir 1990, 164. árg (vor), s. 179-184.
Þorleifur Hauksson: „Sumar enn“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 1991, 51. árg, 4. tbl. s. 108-10.
Verðlaun
1989 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Yfir heiðan morgun
1966 - Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
Tilnefningar
1989 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Tengsl
Ljóð í ICE-FLOE, International Poetry of the Far North
Lesa meiraLjóð í Poésie islandaise contemporaine
Lesa meiraLjóð í Poésie islandaise contemporaine
Lesa meiraLjóðasafn
Lesa meiraLjóð í Wortlaut Island
Lesa meiraLirica scandinava del dopoguerra
Lesa meiraLjóð í Treasures of Icelandic Verse
Lesa meiraChoix de poemes
Lesa meiraNår det bliver morgen: digte i udvalg
Lesa meira