Beint í efni

Sverrir Norland

Æviágrip

Sverrir Norland fæddist árið 1986 í Reykjavík. Hann útskrifaðist af eðlisfræðibraut Menntaskólans í Reykjavík og er með BA-próf í lögfræði og ritlist frá Háskóla Íslands, auk mastersgráðu í skapandi skrifum frá Middlesex University í London. Hann bjó um árabil erlendis, fyrst í London og síðar í París og New York, en býr nú í Reykjavík.

Sverrir gaf út sína fyrstu ljóðabók, Suss! Andagyðjan sefur! árið 2006 og hefur síðan sent frá sér fjölda bóka, þar á meðal skáldsögurnar Kvíðasnillingarnir (2014) og Fyrir allra augum (2016). Stríð og kliður (2021) vakti athygli fyrir persónulega nálgun á tækni, sköpun og loftslagsvána. Sverrir rekur útgáfuna AM forlag ásamt konu sinni, Cerise Fontaine, og hefur þýtt og gefið út barnabækur eftir höfunda á borð við Maurice Sendak, Pénélope Bagieu, Tomi Ungerer og Junko Nakamura. Árið 2019 hlaut Sverrir viðurkenningu þriggja bókmenntahátíða (Cuirt, Vilenica, Festival of World Literature), sem efnilegur og upprennandi höfundur af jaðarmálsvæðum Evrópu („Emerging Writer on Tour“).

Auk eigin ritstarfa hefur Sverrir sinnt margbreytilegum störfum á sviði fjölmiðla, bókmennta og lista. Frá hausti 2019 hefur Sverrir verið reglulegur gagnrýnandi í Kiljunni og haustið 2021 hélt hann úti úti „Bókahúsinu“, hlaðvarpi um bækur á vegum Forlagsins. Sverrir hefur setið í dómnefnd ljóðaverðlaunanna Maístjörnunnar og sinnt formennsku dómnefndar Íslensku hljóðbókaverðlaunanna. Sverrir situr í stjórn IBBY á Íslandi, er í félagsráði Máls og menningar og á sæti varamanns í stjórn Almannaróms, miðstöðvar um máltækni.

Síðast en ekki síst er rétt að taka fram að Sverrir var valinn „bjartasta von Hlíðaskóla“ árið 2001.