Beint í efni

Þorgrímur Þráinsson

Æviágrip

Þorgrímur Þráinsson er fæddur í Reykjavík 8. janúar 1959. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1980 og stundaði nám í frönsku við Sorbonne háskóla í París 1983-1984. Hann var blaðamaður hjá Fróða frá 1985 og ritstjóri Íþróttablaðsins og ritstjórnarfulltrúi barnablaðsins ABC frá 1989. Í lok árs 1996 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Tóbaksvarnanefndar. Þorgrímur lék með meistaraflokki Vals í knattspyrnu frá 1979 til 1990 og gegndi fyrirliðastöðunni síðustu fimm tímabilin. Áður lék hann með Víkingi frá Ólafsvík. Hann varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari á knattspyrnuferlinum með Val og tvisvar sinnum bikarmeistari. Þorgrímur lék alls um 180 leiki í efstu deild og 17 landsleiki fyrir Íslands hönd. Þá varð hann bikarmeistari í frjálsíþróttum með FH árið 1988 en hann keppti í spjótkasti.

Þorgrímur hefur skrifað fjölda bóka fyrir börn og unglinga og var fyrsta bók hans, Með fiðring í tánum (1989), metsölubók á sínum tíma. Hann hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 1997 fyrir bókina Margt býr í myrkrinu og aftur árið 2010 fyrir bókina Ertu Guð, afi?. Fyrsta skáldsaga hans fyrir fullorðna, Allt hold er hey, kom út 2004.

Þorgrímur Þráinsson býr í Reykjavík.

Forlag: Andi .