Beint í efni

Vigdís Grímsdóttir

Æviágrip

Vigdís Grímsdóttir fæddist í Reykjavík þann 15. ágúst 1953. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1973, BA prófi í íslensku og bókasafnsfræði frá Háskóla Íslands 1978 og prófi í uppeldis- og kennslufræði frá Kennaraháskóla Íslands 1982. Hún stundaði kandidatsnám í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands 1984 – 1985. Vigdís starfaði sem grunnskóla- og framhaldsskólakennari í Reykjavík og Hafnarfirði til 1990 en hefur síðan nær eingöngu fengist við ritstörf.

Fyrsta bók hennar, smásagnasafnið Tíu myndir úr lífi þínu kom út árið 1983 og síðan hefur hún sent frá sér ljóðabækur, annað smásagnasafn og skáldsögur, þar af eina barnabók. Vigdís hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og bækur hennar hafa verið þýddar á önnur mál. Hún hefur þrívegis fengið menningarverðlaun DV og árið 2017 hlaut hún verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Leikgerðir við tvær skáldsagna hennar hafa verið settar upp á Íslandi og í Svíþjóð. Á nýársdag 2004 var kvikmynd Hilmars Oddssonar Kaldaljós frumsýnd, en hún er byggð á samnefndri skáldsögu Vigdísar frá 1987.

Vigdís Grímsdóttir á tvö uppkomin börn. Hún býr í Reykjavík.

Forlag: JPV útgáfa.

Ritþing um Vigdísi Grímsdóttur í Gerðubergi 5. nóvember 2011