Konungsbók Eddukvæða

1270

Konungsbók Eddukvæða talin rituð. Handritið er ritað af óþekktum skrifara en Konungsbók er elsta safn eddukvæða sem varðveist hefur. Eddukvæði segja frá heiðnum goðum og hetjum, en hefð er fyrir að skipta þeim í goða- og hetjukvæði. Meðal goðakvæðanna eru Völuspá og Hávamál, Þrymskviða, Vafþrúðnismál, Skírnismál, Hymiskviða og Lokasenna. Meðal hetjukvæðanna eru Völundarkviða, Fáfnismál, Helreið Brynhildar, Guðrúnarkviður, Atlakviða, Oddrúnargrátur og Sigurðarkviður.

Konungsbók er án efa merkasta handrit í eigu Íslendinga og frægust allra íslenskra bóka á heimsvísu, enda hafa sumir viljað kalla hana Monu Lisu okkar Íslendinga.

Fjölmargir seinni tíma höfundar hafa sótt í smiðju kvæðanna í öllum tegundum skáldskapar. Eitt nýjasta dæmið er ljóðabók Gerðar Kristnýjar frá 2010, Blóðhófnir, en hana byggir Gerður á Skírnismálum og túlkar hún kvæðið á annan hátt en hin hefðbundna túlkun segir til um. Konungsbók er í aðalhlutverki í samnefndri skáldsögu Arnaldar Indriðasonar, svo aðeins tvö og gerólík dæmi af fjölmörgum séu nefnd.

Konungsbók var lengi varðveitt í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn en kom aftur heim til Íslands í apríl 1971.

Sjá nánar um Konungsbók á vef Stofnunnar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.