Möðruvallabók

1350

Möðruvallabók er talin rituð um miðbik fjórtándu aldar en hún er stærsta og mikilvægasta handrit Íslendingasagna. Þetta skinnhandrit samanstendur af 189 blöðum og auk þess hefur verið bætt við 11 blöðum frá 17. öld til uppfyllingar. Möðruvallabók inniheldur ellefu sögur, meðal annars Njáls sögu, Egils sögu, Laxdælu og Fóstbræðrasögu.

Talið er að flestar Íslendingasagnanna séu fyrst festar á skinn á 12. öld en litlar sem engar leifar eru til af þeim handritum. Íslendingasögur eru höfundalausar og hafa verið uppi deildar meiningar um uppruna þeirra og sagnfræðigildi svo og um túlkun þeirra, enda eru þessar sögur lifandi bókmenntir sem höfðað hafa til fólks á öllum tímum víðs vegar um heim.

Í útnefningu handritasafns Árna Magnússonar á varðveisluskrá UNESCO eru Íslendingasögurnar nefndar sem sérstakt dæmi um þau verk á heimsvísu sem handritin geyma. Í riti því sem lagt var til grundvallar umsókn Reykjavíkur um titilinn Bókmenntaborg UNESCO segir Ármann Jakobsson um sögurnar:

„Íslendingasögurnar eru ekki einkaeign Íslendinga heldur menningararfur alls heimsins.

Í Japan, Chile, Rúmeníu og Tanzaníu finnst fólk sem er í sérstöku sambandi við sögupersónur Íslendingasagnanna. Það fólk hefur aldrei komið til Íslands en það á sér annað Ísland sem það hefur kynnst úr Íslendingasögunum. Þannig má með sanni segja að Íslendingasögurnar séu mun frægari en Ísland sjálft. Íslendingasögurnar urðu til í ákveðnu menningarlegu samhengi. Þær voru ekki einu miðaldabókmenntirnar sem urðu til á Íslandi. Íslendingar settu líka saman sögur um norska konunga og íslenska biskupa. Þeir þýddu sögur um riddara Artúrs konungs, Karlamagnús, Trójustríðið og Alexander mikla. Þeir þýddu sögur um kirkjufeður og heilagar meyjar. Þeir sömdu líka eigin sögur um ímyndaða riddara í fjarlægum löndum og um germanska fornkappa eins og Sigurð Fáfnisbana. Íslendingasögurnar eru hluti af þessu mikla bókmenntastarfi miðalda en þær fjalla um nálægari viðburði, fyrstu kynslóðir landnema á Íslandi og þau átök sem þeir lentu í við nágranna sína og aðra höfðingja.

Íslendingasögurnar fjalla fyrst og fremst um íslensku höfðingjastéttina. Söguhetjur þeirra eru iðulega afburðamenn, miklar hetjur og skáld. Í bakgrunninum glyttir þó gjarnan í hversdagslegri persónur: griðkonur, þræla, gamalmenni, börn, fatlaða og geðfatlaða. Þó að ekki sé víst að allir atburðir þeirra hafi átt sér stað nákvæmlega eins og lýst er í sögunum eru þær trúverðugar og þess vegna eru þær vinsælar hjá afar ólíkum lesendum: í þeim er hægt að komast í samband við venjulegt fólk. Fyrir daga tölvu, sjónvarps og bíómynda gegndu Íslendingasögurnar sama hlutverki hjá íslenskum börnum og unglingum. Egill Skalla-Grímsson og Gunnlaugur ormstunga voru sömu hetjur fyrir þeim og dægurhetjur nútímans eru fyrir táningum dagsins í dag. Þannig gegndu sögurnar sérstöku hlutverki í íslenskri menningu sem þær hafa misst seinustu öld. Á hinn bóginn eru þær áfram lesnar um allan heim, á Íslandi sem annarstaðar, og ganga í endurnýjun lífdaga með nýjum lesanda á hverjum degi, alveg eins og Hamlet, Don Quijote og Birtingur Voltaires.“

Sjá nánar um Möðruvallabók á vef Stofnunnar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.