Passíusálmar

1659

Séra Hallgrímur Pétursson (1614 – 1674) skrifar Passíusálma sína. Hallgrímur er vafalaust þekktasta trúarskáld Íslendinga en við hann er kirkjan sem gnæfir yfir Reykjavík kennd.

Passíusálmarnir eru fimmtíu talsins og skulu þeir fluttir á föstunni líkt og hefur verið gert til þessa dags, bæði í Ríkisútvarpinu og í mörgum kirkjum landsins.

Heiti sálmanna, sem segja frá pínu krists er: „Historia pínunnar og dauðans Drottins vors Jesú Kristí, með hennar sérlegustu lærdóms-, áminningar- og huggunargreinum, ásamt bænum og þakkargjörðum, í sálmum og söngvísum með ýmsum tónum samsett og skrifuð anno 1659.“

Í grein um sálmana segir Margrét Eggertsdóttir: „Í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar má greina heimspeki og almenn sannindi hins lífsreynda manns sem kynnst hefur heiminum og hefur einnig öðlast djúpan skilning á mannlegu eðli enda eru sumar hendingar í sálmunum orðnar eins og málshættir meðal Íslendinga, setningar sem oft er vitnað til, t.d. þessi: „Oft má af máli þekkja / manninn hver helst hann er“ (11,15) og einnig: „hvað höfðingjarnir hafast að / hinir meina sér leyfist það“ (22,10). Í sálmunum höfðar Hallgrímur á sérstakan hátt til samvisku hvers manns, hvort sem hann er af háum stigum eða lágum. Sjálfur hafði Hallgrímur átt misjafna ævi, hafði bæði kynnst því að vera undir verndarvæng háttsettra en hafði einnig deilt kjörum með bláfátækum erfiðismönnum.”