Siðaskipti

1550

Íslendingar taka upp lútherskan sið í stað kaþólsku. Klaustur leggjast þar með af á Íslandi en þau höfðu verið einar af helstu miðstöðvum sagnaritunar. Margar helstu gersemar íslenskra handrita voru skrifaðar í klaustrum. Áfram er haldið að þýða kirkjulegt efni, en einnig eru varðveitt handrit með riddara- og fornaldarsögum frá þessum tíma auk rímnahandrita. Kirkjan er ríkjandi á Íslandi uppfrá þessu, en alþýðubókmenntir lifa þrátt fyrir það góðu lífi undir yfirborðinu.