Alþjóðadagur ljóðsins í Bókmenntaborgum UNESCO

Laugardagurinn 21. mars er alþjóðlegur dagur ljóðsins. Margar af Bókmenntaborgum UNESCO hafa haldið daginn hátíðlegan síðustu ár og í ár höfðu fjölmargar þeirra skipulagt viðburði. Þeim hefur nú öllum verið aflýst en nokkrar borganna standa þess í stað fyrir viðburðum á netinu á ljóðadaginn eða dagana þar um kring.

Síðustu vikurnar hefur kórónaveiran og covid-19 sjúkdómurinn breiðst út um heimsbyggðina, þar á meðal í mörgum Bókmenntaborgum UNESCO. Starfsfólk Bókmenntaborganna dáist að og hugsar til allra þeirra sem vinna hörðum höndum að því að tryggja sem best velfarnað meðborgara sinna um víða veröld.

Bókmenntaborgir UNESCO hafa gripið til þess ráðs að endurskipuleggja viðburði á alþjóðlegum degi ljóðsins eins og hægt er á hverjum stað fyrir sig. Margar borganna efna því til viðburða á netinu og aðrar borgir í samstarfsnetinu munu líka taka þátt með því að deila viðburðum hinna borganna með sínu heimafólki. Þannig verður alþjóðadegi ljóðsins fagnað um víða veröld þrátt fyrir þær hremmingar sem við göngum öll í gegnum. Bókmenntaborgirnar vona að þannig færi þær fólki gleði og hvetji til sköpunar, seiglu og samkenndar á þessum erfiðu tímum.

Ljóðadagurinn hjá Reykjavík bókmenntaborg UNESCO


Vefstiklur með Svikaskáldum

Hér í Reykjavík hefur Bókmenntaborgin gert sex vefstiklur með Svikaskáldum, hópi skáldkvenna sem eru um þessar mundir ábúendur í Gröndalshúsi. Í hópnum eru þær Fríða Ísberg, Melkorka Ólafsdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Sunna Dís Másdóttir, Þóra Hjörleifsdóttir og Þórdís Helgadóttir. Í þessum stuttu stiklum lesa þær ljóð eftir önnur skáld, íslensk eða erlend, og segja okkur frá sínu vali. Fyrsta stiklan verður birt á Facebook og Twitter síðum Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO á hádegi laugardaginn 21. mars og síðan hver á fætur annarri á sama tíma næstu fimm daga.

Ljóðagleðisprengja á netinu

Að auki stendur Bókmenntaborgin svo fyrir fyrir eins konar rafrænum ljóða „flash-mop“ viðburði á Facebook sem hefst laugardaginn 21. mars kl. 12:30. Við hvetjum alla til að taka þátt í leiknum með því að pósta eigin upplestri á uppáhaldsljóði eða söngtexta, eða mynd af texta, á Facebook vegginn sinn frá og með kl. 12:30 þann 21. mars með eftirfarandi færslu:

„Gleðjum hvert annað með ljóðum! 21. mars er alþjóðadagur ljóðsins. Hvað ljóð eða söngtexta heldur þú upp á eða finnst skemmtilegur? Lestu hann upp fyrir okkur hin eða taktu mynd af honum, póstaðu á vegginn þinn og taggaðu @Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Má auðvitað líka vera eftir þig sjálfa/n. Best er að hafa færsluna á opinni (public) stillingu. / Lets lift each other up with poetry! March 21 is World Poetry Day. Which poem or song lyric do you cherish or find interesting, amusing, uplifting? Or are you a poet yourself and want to share your own text? Read it for us in any language or take a photo of it, post it on your wall and tag Reykjavík City of Literature – @Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Preferably post with public setting.
#WorldPoetryDay #alþjóðadagurljóðsins“

Hópur fólks ríður á vaðið kl. 12:30 á laugardaginn, m.a. Eliza Reid forsetafrú og annar aðstandenda Iceland Writers Retreat, verkefnastjórar Bókmenntaborgarinnar, rithöfundarnir og bókmenntafræðingarnir Björn Halldórsson og Guðmundur Andri Thorsson, Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur og þýðandi, starfsfólk á menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkur og fleiri. Vonandi fylgja svo sem flestir í kjölfarið, á ljóðadeginum sjálfum og áfram, okkur öllum til upplyftingar á þessum sérstæðu tímum.

Aðrir ljóðaviðburðir á Íslandi

Á tímum samkomubanns hafa listamenn og menningarstofnanir víða um heim tekið upp rafræna miðlun á list og menningu. Þannig bjóða Þjóðleikhúsið og RÚV landsmönnum núna upp á að velja ljóð til flutnings á stóra sviði Þjóðleikhússins undir heitinu „Ljóð fyrir þjóð“. Fólk sendir inn ósk um tiltekið ljóð og leikari flytur það á sviðinu fyrir einn áhorfanda en flutningnum er jafnframt streymt á RÚV.

Þá standa Bókabæirnir austan fjalls og Gullkistan fyrir rafrænu margmálaljóðakvöldi á Facebook á alþjóðadegi ljóðsins 21. mars. Tilefnið, auk ljóðadagsins sjálfs, er norræni margmálamánuðurinn sem stendur frá 21. febrúar til 21. mars. Dagurinn er líka baráttudagur gegn rasisma. Vegna samkomubannsins verður viðburðurinn sem sagt á alnetinu og þar verða ljóðfákar leiddir saman. Fólk les ljóð heima hjá sér á hvaða heimsins tungumáli sem er og deilir því á Facebook síðu viðburðarins.

Það er því tilvalið að þeir sem taka þátt í ljóðagleðisprengju Bókmenntaborgarinnar deili sínum stiklum líka á margmálaviðburðinn og öfugt.

Viðburðir í nokkrum öðrum Bókmenntaborgum UNESCO


Baghdad

Bókmenntaborgin Baghdad mun deila ljóðlist á Facebook, Twitter, Instagram og YouTube.

Edinborg

Scottish Poetry Library í Edinborg verður með ljóðahlaðvarp þar sem byggir á safneign hússins. Nýr hlaðvarpsþáttur fer í loftið á hverri klukkustund. Fylgjast má með á vef Scottish Poetry Library.

Heidelberg

Hópur skálda í Heidelberg mun lesa upp uppáhaldsljóð eftir skáldið Friedrich Hölderlin, en hann fæddist 20. mars fyrir 250 árum. Halda átti mikla hátíð til heiðurs skáldinu, en hún hefur verið blásin af og kemur lesturinn í stað hennar á afmælisdegi skáldsins og má fylgjast með á YouTube frá kl. 20 – 21:30.

Í Heidelberg verður ljóðadeginum því fagnað degi fyrr en lesturinn verður einnig aðgengilegur þann 21. mars á Facebook síðu Bókmenntaborgarinnar Heidelberg og á Twitter.

Kraká

Bókmenntaborgin Kraká í Póllandi hefur fengið nokkur skáld til að lesa uppáhaldsljóðið sitt eftir Czesław Miłosz en venjulega er dagskrá Miłosz bókmenntahátíðarinnar kynnt á þessum degi auk þess sem bjóða átti upp á bókmenntagöngu um borgina. Af hvorugu verður í ár en fólk getur þess í stað notið þess að horfa og hlusta á skáldin lesa upp.

Stiklurnar, sem eru á pólsku en með enskum texta, munu birtast á Facebook og má fylgjast með þeim á Facebooksíðu hátíðarinnar.

Kuhmo

Bókmenntaborgin Kuhmo í Finnlandi leggur áherslu á Kalevala ljóðabálkinn, en söguljóðið er merkasti bókmenntaarfur svæðisins. Kuhmo mun deila honum á ýmsum tungumálum auk finnsku á vefnum á ljóðadeginum, m.a. ítölsku, rússnesku, veps og víetnömsku.

Ljubljana

Ljóðskáldið og viðburðahaldarinn Dejan Koban les upp eigin ljóð og ljóð eftir aðra á Facebook allan ljóðadaginn. Allir sem vilja geta tekið þátt með eigin upplestri. Fylgjast má með og taka þátt hér á Facebook.

Leeuwarden

Lárviðarskáld Leeuwarden í Hollandi, Nyk de Vries, sem skrifar á frísnesku, hefur skrifað ljóðið "Down With a Cold" (ensk þýðing eftir David Colmer) sem lesa má á frummálinu og í hollenskri og enskri þýðingu á ljóðavef helgað frísneskri ljóðlist. Það fjallar um covid-19 faraldurinn.

Manchester

Bókmenntaborgin Manchester á Englandi verður með dagskrá sem tengir saman ljóðlist, trjárækt og náttúru en 21. mars er einnig alþjóðlegur dagur skóga. Meðal skáldanna sem koma fram eru Aisha Mirza, Nasima Begum, John McAuliffe og Michael Symmons Roberts. Skáldin lesa upp í vefstiklum sem verða birtar á Facebook og Twitter undir myllumerkinu #WorldPoetryDay. Markmiðið er að deila ljóðum um náttúru og seiglu.

Einnig hvetur Bókmenntaborgin Manchester fólk til að deila með öðrum hvert sé þeirra uppáhaldsljóð um tré eða náttúru.

Melbourne

Í Melbourne kemur fjölbreyttur hópur listamanna saman til að rekja í sundur ljóð og endurskapa það fyrir fjölbreytilega skynjun. Hópurinn mun taka saman á spurningum um fjölbreytileika, útilokun og reynslu mismunandi hópa. Fylgjast má með verkinu hér.

Nottingham

Bókmenntaborgin Nottingham fagnar alþjóðadegi ljóðsins og alþjóðadegi skóga í samstarfi við Skírisskóg – Sherwood Forest. Fylgjast má með þessum ljóðaviðburði sem tengir saman ljóðlist og náttúru hér.

Obidos

Bókmenntaborgin Obidos í Portúgal mun birta ljóð frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO á vefmiðlum.

Odessa

Bókmenntaborgin Odessa í Úkraínu stendur fyrir ljóðaviðburði á YouTube.

Tartu

Bókmenntaborgin Tartu í Eistlandi hvetur borgarbúa til að taka upp heimavídeó með ljóðalestri og deila þeim á samfélagsmiðlum og á Facebook viðburði Tartu bókmenntaborgar.  

Ulyanovsk

Bókmenntaborgin Ulyanovsk í Rússlandi hvetur íbúa borgarinnar og alla sem vilja taka þátt til að deila ljóðum á samfélagsmiðlum, hvort sem er eftir rússnesk skáld eða erlend.