Bækur og heimsmarkmiðin

Bókmenntaborgir UNESCO vekja athygli á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með því að benda á bækur sem tengjast þeim á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #17Booksfor17SDGs. Tilefnið er loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna sem hefst í Madrid í dag, 2. desember.

Síðustu ár hafa Bókmenntaborgir UNESCO bent lesendum á áhugaverðar bækur í lok árs eða í aðdraganda jóla. Að þessu sinni ætla borgirnar að vekja athygli á bókum sem geta minnt okkur á sautján heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og það munu þær gera dagana 2. – 18. desember í tilefni þess að loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer fram 2. – 13. desember í ár. 

Hvern þessara daga munu Bókmenntaborgir flagga einu heimsmarkmiðanna, þannig að 2. desember verður það fyrsta á dagskrá og síðan hvert af öðru. Bent verður á bækur af öllum toga sem á einhvern hátt tengjast þessum markmiðum, bæði skáldverk og fræðibækur. Hér í Reykjavík munum við aðallega beina athyglinni að nýjum bókum á íslensku úr útgáfuflóru ársins og pósta einni eða fleiri tillögum að lesefni sem tengist heimsmarkmiði dagsins á Facebook síðu Bókmenntaborgarinnar. Jafnframt eru lesendum hvattir til að bæta við fleiri tillögum, hvort sem er nýjum bókum eða eldri. Við látum því ekki staðar numið við 17 bækur heldur viljum við benda á sem flestar. 

Bókmenntaborgir UNESCO eru nú 39 talsins en í haust bættust 11 nýjar borgir í hópinn. Margar borganna munu vekja athygli á heimsmarkmiðunum og bókum þessa daga, flestar á Twitter en sumar á Facebook eða öðrum samfélagsmiðlum. Fylgjast má með undir myllumerkinu #17Booksfor17SDGs.