Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2019 afhent

Í dag var við hátíðlega í Höfða afhent Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2019 og í fyrsta sinn Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur fyrir óbirt handrit. Verðlaunahafar Bókmenntaverðlauna Reykjavíkurborgar 2019 og Barnabókaverðlauna Guðrúnar Helgadóttur eiga það sameiginlegt að skapa höfundarverk fyrir ungmenni þar sem aðalpersónur lenda í spennandi ævintýrum sem rekja má til atburða í fortíðinni.

Hildur Knútsdóttir fær verðlaunin fyrir Ljónið

Verðlaun fyrir bestu frumsömdu bókina á árinu 2018 koma í hlut Hildar Knútsdóttur fyrir bókina Ljónið sem er fyrsta bókin í nýjum þríleik. Hildur er margfaldur verðlaunahöfundur sem sló rækilega í gegnum með bókum sínum Vetrarfrí og Vetrarhörkur sem þýddar hafa verið á fjölmörg tungumál. Ljónið er hörkuspennandi ungmennasaga sem gerist í samtímanum en teygir anga sína aftur til ógnvekjandi atburða. Sagan fjallar um Kríu sem er að byrja í Menntaskólanum í Reykjavík. Þar þekkir hún engan og hún hefur litlar væntingar til skólans. Brátt kynnist hún Elísabetu, og þrátt fyrir strangt nám er menntaskólalífið frábært. Þegar Elísabet finnur gamalt skrín í földum skáp fara þær vinkonurnar að rannsaka undarlegt mál stúlku sem hvarf sporlaust fyrir 79 árum. Það kemur í ljós að hvarf stúlkunnar gæti haft óvænta tengingu við líf Kríu. Að mati dómnefndar er Ljónið lágstemmd unglingabók sem virkilega leynir á sér, bókin sjálf sé bæði undurfalleg og mikil, textinn einkar vel skrifaður og nostursamlega unninn.

Útgefandi Ljónsins er JPV forlagið.

Guðni Kolbeinsson fyrir vandaða þýðingu á Villimærinni fögru fyrstu bókinni í bókaflokknum Bækur duftsins

Guðni Kolbeinsson fær verðlaun fyrir þýðingu á Villimærinni fögru eftir Philip Pullman og er þetta í þriðja skipti sem hann hlýtur barnabókaverðlaunin fyrir þýðingar sínar.
Í rökstuðningi dómnefndar segir að hér sé á ferðinni í senn vönduð, falleg og hugvitssöm þýðing sem færir íslenskum lesendum ævintýrabókmenntir eins og þær gerast bestar á okkar ástkæra og ylhýra máli. Villimærin fagra er fyrsta bókin í þríleik Pullmans, Bækur duftsins um Malcolm Polstead. Guðni er margverðlaunaður þýðandi og hlaut Sögustein IBBY árið 2015 fyrir framlag sitt til barnabóka og barnamenningar. Útgefandi Villimærinnar fögru er JPV forlagið.

Rán Flygering fyrir myndlýsingar í bókinni Skarphéðinn Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins

Rán Flygering fær nú í annað sinn Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar sem myndhöfundur, að þessu sinni fyrir bókina Sagan um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins sem hún gerði með Hjörleifi Hjartarsyni. Í umsögn dómnefndar segir að myndir Ránar Flygenring í bókinni séu stílhreinar, grafískar og á tíðum abstrakt. Þær sýni heiminn út frá sjónarhorni flugunnar Skarphéðins og dragi vel fram áherslur sögunnar. Samspil lita og uppsetningar skapi fallega og kraftmikla heild sem einnig fangar ljóðræna frásögn bókarinnar. Rán starfar sjálfstætt að verkefnum víða um heim, myndskreytir og ritstýrir bókverkum. Útgefandi verðlaunabókarinnar er Angústúra.

Dómnefnd Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar er skipuð  þeimTinnu Ásgeirsdóttur formanni, Helgu Birgisdóttur, Magnúsi Guðmundssyni, Rakel McMahon og Valgerði Sigurðardóttur. 
Fimmtán bækur voru tilnefndar til verðlaunanna, fimm bækur í hverjum flokki og má lesa um tilnefndar bækur hér en þær voru kynnta í Gerðubergi þann 2. mars sl. 

Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur fyrir óbirt handrit hlýtur Bergrún Íris Sævarsdóttir

Bergrún Íris Sævarsdóttir er fyrsti handhafi nýrra barnabókaverðlauna sem kennd eru við Guðrúnu Helgadóttur og eru veitt fyrir frumsamið handrit að barna- eða ungmennabók. Hún fær þau fyrir handritið Kennarinn sem hvarf.

Fjölmörg handrit bárust í samkeppni um verðlaunin og var úr vöndu að ráða fyrir dómnefnd en Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu varð að lokum fyrir valinu. Sagan ber um margt einkenni úr höfundarverki Guðrúnar Helgadóttur með sér, hún er hlý og talar beint til barna, inn í þeirra heim og dæmir ekki. Að mati dómnefndar tekst höfundi áreynslulaust að skapa atburðarás sem er í senn beint úr raunveruleika barna en samt svo sérstök og ævintýraleg að það vekur athygli og spennu.
Bergrún-Íris-Sævarsdóttir-ásamt-Sabine-Leskopf-og-borgarstjóra-Degi -B-Eggertssyni-borgarstjóra

Dómnefnd skipuðu þær Sabine Leskopf, Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Dröfn Vilhjálmsdóttir. Einnig komu að dómnefndarstörfum fjórir nemendur af unglingastigi Seljaskóla þau Heiða Kristín Káradóttir, Þóra Laufey Þórarinsdóttir, Ísak Thomas Birgisson og Þóra Ákadóttir. Bókin kemur út í maí og gefur Bókabeitan hana út.

Bergrún Íris hefur alltaf haft áhuga á barnabókum en sá áhugi vaknaði fyrir alvöru þegar hún varð móðir haustið 2009. Hún hefur myndskreytt fjölmargar barnabækur og námsefni, haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Fyrsta rithöfundarverk Bergrúnar var barnabókin Vinur minn, vindurinn árið 2014 og var hún tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.