DAGSKRÁ Í GRÖNDALSHÚSI Á MENNINGARNÓTT

Menningarnótt í Reykjavík er haldin laugardaginn 18. ágúst næstkomandi á afmælisdegi Reykjavíkur. Gröndalshús í Grjótaþorpinu verður opið frá kl. 13 - 23 og er aðgangur ókeypis. 

Allan daginn er hægt að kynnast skáldinu, myndlistamanninum og fræðimanninum Benedikt Gröndal, sem bjó í húsinu síðustu tuttugu ár ævinnar, og hlusta á upplestur úr skáldskap hans á margmiðlunarsýningu um ævi hans, verk og Reykjavík um aldamótin 1900. 

Frá kl. 15 verður dagskrá í húsinu þar sem gestir geta kynnst broti af fjölskrúðugri skáldaflóru Reykjavíkur dagsins í dag auk þess sem splunkunýrri útgáfu á verki Gröndals, Reykjavík um aldamótin 1900, í glæsilegri myndskreyttri útgáfu verður fagnað. 

Verið hjartanlega velkomin í stofur skáldsins!

Dagskrá:

15 – 17
VISIT ÓSÍA

Visit Ósía er hljóðainnsetning með upplestrum úr fyrstu tveimur tölublöðum bókmenntatímarits Ós pressunnar, Ós - The Journal. Gakktu inn í Ósíu og hlustaðu á upptökur á fjölbreyttum textum á ólíkum tungumálum. Sum skáldanna lesa á móðurmáli sínu en önnur spreyta sig á öðrum tungum. Innsetningin byggir á þessum upptökum og veitir hún innsýn í hið fjölmála íslenska samfélag auk þess sem hún ögrar skilningi okkar á því hvað fellur undir íslenskan skáldskap. 

Á Íslandi er hefð fyrir því að á heimilum sé gestabók og er hún staðsett í opnu rými Ósíu. Þar getur þú komið hugleiðingum og upplifun þinni eftir heimsóknina á framfæri og átt samtal við íbúa Ósíu.

17 – 18
REYKJAVÍK UM 1900 – MEÐ AUGUM BENEDIKTS GRÖNDAL

Sögur útgáfa býður til samfagnaðar í tilefni af útgáfu bókarinnar Reykjavík um 1900 – með augum Benedikts Gröndal. Illugi Jökulsson spjallar um skáldið og gestir geta skoðað þessa glæsilegu bók. Illugi ritaði formála bókarinnar en aðfararorð ritaði forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.

Um aldamótin 1900 skrifaði Gröndal langa og ítarlega lýsingu á höfuðstaðnum Reykjavík. Þar segir hann frá húsum og íbúum bæjarins og fjallar um mannlífið, félagslífið og samfélagið á bráðskemmtilegan hátt. Þessi Reykjavíkurlýsing hefur lengi verið í metum meðal aðdáenda skáldsins en kemur nú fyrst út í sérstakri bók. Mikill fjöldi ljósmynda af Reykjavík og mannlífi frá aldamótunum prýðir bókina og hafa fæstar þeirra sést á bók áður. Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar studdi útgáfu verksins með framlagi úr sjóði um myndríka miðlun. 

20 – 22
SVIKASKÁLD

Svikaskáldin Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Sunna Dís Másdóttir, Melkorka Ólafsdóttir, Þórdís Helgadóttir, Þóra Hjörleifsdóttir og Fríða Ísberg lesa upp úr verkum sínum. Hópurinn er nýbúinn að gefa út bókina Ég er fagnaðarsöngur en fyrsta verk þeirra var Ég er ekki að rétta upp hönd

22 – 22:50
BLEKBORGIN

Meistaranemar í ritlist telja inn í nóttina og bjóða gestum og gangandi í sex stuttar borgarferðir á 50 mínútum. Lagt verður upp í leiðangur um raunverulegar og ímyndaðar útgáfur af Reykjavík. 
Blekborgarferðinni lýkur rétt í þann mund sem fyrstu flugeldarnir lýsa upp næturhimininn úti fyrir og slá þannig botninn í Menningarnótt 2018.

Gröndalshús stendur á horni Fischersunds og Mjóstrætis í Grjótaþorpinu og er gengið inn frá Fischersundi.