Gestadvöl fyrir bókafólk í Mílanó

Mílanó, systurborg Reykjavíkur í Samstarfsneti skapandi borga UNESCO býður upp á gestadvöl fyrir útgefendur, bóksala og bókasafnafólk frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO í mars 2020. Skila þarf inn umsóknum í síðasta lagi 19. janúar næstkomandi.

Mílanó hefur verið Bókmenntaborg UNESCO frá árinu 2017. Þar er nú í fyrsta sinn boðið upp á gestadvöl fyrir fagfólk í bókabransanum og munu þrír gestir dvelja í borginni frá 9. - 19. mars 2020, einn útgefandi, einn bóksali og einn bókasafnsfræðingur. Mílanó er miðstöð útgáfu á Ítalíu en þar er rúmlega helmingur útgáfufyrirtækja landsins auk annarra fyrirtækja og félaga í bókaheiminum. Þess vegna var ákveðið að stefna þangað fagfólki úr bókaheiminum frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO til að styrkja fagleg tengsl milli borganna og stuðla að gagnkvæmum lærdómi milli þeirra. Bókmenntaborgin Mílanó vonar að verkefnið leiði af sér samstarf og samskipti til lengri tíma.

Á meðan dvölinni stendur verður efnt til funda við fagfólk á staðnum þar sem heimamenn og gestir deila reynslu og gestirnir taka þátt í ráðstefnu í Stelline ráðstefnuhöllinni. 

Umsækjendur þurfa að eiga lögheimili í einhverri af hinum 38 Bókmenntaborgum UNESCO og hafa gott vald á ensku. Kunnátta í ítölsku og/eða þekking á ítalskri menningu er kostur. 

Nánari upplýsingar og umsóknareyðublað er að finna á vef Mílanóborgar. Athugið að umsækjendur þurfa að láta Reykjavík bókmenntaborg UNESCO vita af sinni umsókn, sendið okkur póst á bokmenntaborgin(hjá)reykjavik.is.