Gestadvöl í Bókmenntaborgum UNESCO

Ljubljana

Nokkrar Bókmenntaborga UNESCO bjóða upp á fría gestadvöl fyrir rithöfunda frá öðrum Bókmenntaborgum. Nú er búið að opna fyrir umsóknir um dvöl í Tartu í Eistlandi, Bucheon í S-Kóreu, Ljubljana í Slóveníu, Kraká í Póllandi og Ulyanovsk í Rússlandi.

Tartu, Eistlandi

Bókmenntaborgin Tartu í Eistlandi auglýsir eftir rithöfundum og þýðendum úr eistnesku á önnur mál sem hafa áhuga á að dvelja í borginni um tveggja mánaða skeið, annars vegar í apríl og maí og hins vegar í október og nóvember 2020. 

Tartu er næststæsta borg Eistlands og er miðstöð mennta og menningar. Gestirnir dvelja í fyrrum heimili rithöfundarins Karls Ristikivi og gefst kostur á að tengjast bókmenntalífi borgarinnar og kynna verk sín auk þess að vinna að skrifum. 

Umsóknarfrestur er til 21. febrúar næstkomandi.

Nánari upplýsingar um gestadvöl í Tartu og umsóknareyðublað.

Bucheon, Suður Kórea

Bucheon býður nú í fyrsta sinn höfundum, þýðendum, myndasöguhöfundum og öðru orðlistarfólki frá borgum í Samstarfsneti skapandi borga UNESCO að dvelja við skapandi vinnu í borginni. Tveir umsækjendur verða valdir til 4 – 6 vikna dvalar í júlí og ágúst 2020.

Sækja þarf um í síðasta lagi föstudaginn 28. febrúar.

Nánari upplýsingar er að finna hér á Facebook síðu Bókmenntaborgarinnar Bucheon.

Ljubljana, Slóveníu

Útgefnum höfundum í öllum greinum bókmennta frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO býðst að dvelja í borginni í einn mánuð. Tveir höfundar verða valdir úr hópi umsækjenda og dvelur hvor um sig í mánuð í borginni, annar í maí og hinn í nóvember. Gesturinn býr í Švicarija (Swisshouse Creative Centre), sem er ný menningarmiðstöð í hjarta almenningsgarðs borgarinnar í miðbænum. Gestadvölin, sem ber nafnið Rithöfundurinn í garðinum, býður upp á næði til að skrifa og um leið kynningu á blómstrandi bókmennta- og menningarlífi borgarinnar.

Umsóknarfrestur er til 29. febrúar 2020.

PDF icon Nánari upplýsingar um gestadvöl í Ljubljana.

Kraká, Póllandi

Bókmenntaborgin Kraká býður rithöfundum og þýðendum frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO að sækja um tveggja mánaða gestadvöl í borginni, annars vegar frá 1. maí - 30. júní og hins vegar frá 1. september - 31. október 2020. 

Gestadvölin er ætluð upprennandi höfundum með verk í vinnslu. Tveimur höfundum verður boðið til dvalar í hvort sinn og þurfa þeir ekki að vera frá sömu borginni. Þeir dvelja í Villa Decius og gefst kostur á að kynnast bókmenntalífi borgarinnar á meðan dvölinni stendur. 

Umsóknarfrestur er til 29. febrúar næstkomandi. 

Nánari upplýsingar og umsóknareyðublað.

Ulyanovsk, Rússlandi

Ulyanovsk í Rússlandi býður rithöfundum og öðrum listamönnum sem tengjast orðlist að sækja um gestadvöl í borginni í septembermánuði. Ulyanovsk stendur við ána Volgu og er bókmenning mikilvæg í sögu borgarinnar.

Umsóknarfrestur er til 30. apríl 2020.

Nánari upplýsingar er að finna hér á vef Bókmenntaborgarinnar Ulyanovsk.

Skapandi borgir UNESCO

Samstarfsnet skapandi borga UNESCO, UNESCO Creative Cities Network, miðar að því að styrkja alþjóðlega samvinnu borga á sviði menningar, meðal annars með því að deila reynslu og stuðla að samvinnu listamanna þvert á landamæri. Bókmenntaborgir UNESCO bjóða í vaxandi mæli rithöfundum frá systurborgunum til vinnudvalar en auk þeirra borga sem nú auglýsa eftir höfundum hafa Barcelona, Granada, Heidelberg, Kraká, Mílanó, Prag, Reykjavík og Tartu boðið upp á gestadvöl fyrir höfunda frá öðrum Bókmenntaborgum. 

Samstarfsnet skapandi borga UNESCO var stofnað árið 2004 og hefur stækkað jafnt og þétt síðan þá. Bókmenntaborgir UNESCO nú 39 talsins. Lista yfir Bókmenntaborgir UNESCO er að finna hér á vefnum okkar.