Gestahöfundur frá Durban í Reykjavík

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO býður gestahöfundi frá annarri Bókmenntaborg UNESCO til dvalar í Reykjavík í annað sinn í ár, 2020. Að þessu sinni var barnabókahöfundum boðið að sækja um gestadvöl í samvinnu við alþjóðlegu barnabókmenntahátíðina Mýrina og hefur Fiona Khan frá Bókmenntaborginni Durban í Suður Afríku verið valin úr hópi fjörutíu umsækjenda víðs vegar að úr heiminum.

Fiona mun dvelja í Reykjavík í októbermánuði að öllu óbreyttu og tekur hún þátt í dagskrá Mýrarinnar sem fer fram í Norræna húsinu 8. – 11. október undir heitinu „Saman úti í Mýri“. Á hátíðinni í ár verður lögð sérstök áhersla á hnattræn málefni sem snerta okkur öll, svo sem umhverfismál og fólksflutninga.

Fiona Khan

Fiona Khan hefur skrifað barnabækur um langt árabil auk þess að vera ljóðskáld. Hún er stofnandi útgáfunnar Global Forum 4 Literacy sem gefur út á netinu og forlagsins Washesha Publishing. Hún hefur unnið ötullega að læsi og lestrarhvatningu í Suður Afríku síðustu 25 árin og er þar í fararbroddi í Kwa Zulu Natal héraði og víðar í landinu. Þetta starf hennar nær allt aftur til ársins 1995 þegar hún tók þátt í lestrarátaki Nelsons Mandela Lesandi þjóð er þjóð sigurvegara (A Reading Nation is a Winning Nation) með því að dreifa bókum í skóla og á bókasöfn og standa fyrir smiðjum til að styðja við bókmenntir, tungumál og læsi. Eitt af verkefnum Fionu snýr að því að koma bókum til sem flestra barna í heimahéraði hennar og þar leggur hún áherslu á endurnýtingu og endurdreifingu en hún hefur líka tekið þátt í viðlíka verkefnum í Jóhannesarborg og Höfðaborg en hún vinnur nú að kvikmyndaverkefni sem snýr að börnum í síðarnefndu borginni.

Fiona hefur einnig unnið við þáttagerð í útvarpi þar sem læsi, ljóðlist og fjölbreytt tungumál heimalands hennar hafa verið í fyrirrúmi. Þá lætur hún sig umhverfismál varða og hefur  m.a. unnið að og tekið þátt í ræktunarverkefnum í skólum og verkefnum sem stuðla að sjálfbærni í samfélaginu. Fiona hefur einnig unnið sjálfboðaliðastörf í samfélagsþjónustu, m.a. með þolendum kynbundins ofbeldis og fólki sem greinst hefur með HIV. Meðal bóka hennar er barnabók um HIV sjúkdóminn með áherslu á tilfinningagreind og er bókin á námskrá grunnskóla í S-Afríku.

Forlögin Global Forum 4 Literacy og Washesha hafa tekið virkan þátt í bókamessunni Articulate Africa sem Bókmenntaborgin Durban stendur fyrir.

Í Reykjavík ráðleggur Fiona að vinna að myndasögubók og hefur hún sérstakan áhuga á að kynnast íslenskum myndhöfundum og myndasöguhöfundum og kynna sér verk þeirra. Auk þess mun hún kynna sér lestrarhvetjandi verkefni, starfsemi bókasafna og bókmenntalífið í höfuðborginni. Íslenskir lesendur og áhugafólk um bókmenntir, læsi og Suður Afríku geta svo kynnst Fionu Khan á bókmenntahátíðinni Mýrinni og verður dagskrá hennar þar auglýst þegar nær dregur.

Við hjá Reykjavík bókmenntaborg UNESCO hlökkum til að taka á móti þessum áhugaverða rithöfundi og hugsjónakonu frá systurborg okkar í samstarfsneti skapandi borga UNESCO. Durban er eina Bókmenntaborg UNESCO í Afríku og var hún útnefnd sem slík 2017. 

Gestadvöl Bókmenntaborga

Bókmenntaborgir UNESCO eru nú 39 talsins. Margar þeirra bjóða upp á gestadvöl fyrir rithöfunda frá öðrum Bókmenntaborgum og slóst Reykjavík í þann hóp árið 2019 eins og áður sagði. Chantal Ringuet frá Québec fylki í Kanada var fyrsti höfundurinn sem boðið var til Reykjavíkur frá annarri Bókmenntaborg en Québec City hefur verið ein af Bókmenntaborgum UNESCO frá 2017. Nokkrum íslenskum rithöfundum hefur verið boðið að dvelja í systurborgum Reykjavíkur í samstarfsnetinu, svo sem í Kraká, Prag og Ljubljana.