Unnur Jökulsdóttir, Kristín Eiríksdóttir og þau Áslaug Jónsdóttir, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal hlutu Íslensku bókmenntverðlaunin 2017 fyrir bækur sínar Undur Mývatns, Elín, ýmislegt og Skrímsli í vanda.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær, þriðjudaginn 29. janúar.
Íslensku bókmenntaverðlaunin eru veitt í þremur flokkum, flokki barna- og ungmennabóka, flokki fræðibóka og bóka almenns efnis og loks flokki fagurbókmennta. Að þeim stendur Félag íslenskra bókaútgefenda og er verðlaunaféð ein milljón króna fyrir hvert verk.
Barna- og ungmennabækur
Áslaug Jónsdóttir, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler: Skrímsli í vanda
Í umsögn dómnefndar um bókina segir að hún sé litríkt og fallegt verk sem taki á viðfangsefni sem snertir okkur inn að kviku. „Skrímsli í vanda er marglaga saga fyrir alla aldurshópa, sem sómir sér vel í hinum glæsilega skrímslabókaflokki.“
Fagurbókmenntir
Kristín Eiríksdóttir: Elín, ýmislegt
Í umsögn dómnefndar um bók Kristínar segir að hún sé vandlega úthugsuð og margslungin skáldsaga, „sem teflir fínlega saman ólíkri veruleikaskynjun persónanna í áhrifaríkri frásögn af hverfulu eðli minninga.“
Fræðirit og bækur almenns efnis
Unnur Jökulsdóttir: Undur Mývatns: um fugla, flugur, fiska og fólk
Í umsögn dómnefndar um bók Unnar segir að hún sé einstætt listaverk sem „miðlar fræðilegri þekkingu með ástríðu fyrir lífskraftinum og persónulegri sýn á það sem fyrir augu ber, jafnt óvægna grimmd sem blíðustu fegurð.“
Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári. Hana skipuðu Helga Ferdinandsdóttir, Hulda Proppé, Sigurjón Kjartansson og Gísli Sigurðsson, sem jafnframt var formaður nefndarinnar.