Jólasagan í ár - Nornin í eldhúsinu

Jólasagan Nornin í eldhúsinu var valin í samkeppni um jólasöguna árið 2020 hjá Borgarbókasafni og Bókmenntaborg. Í ár bárust 18 umsóknir í samkeppnina og var saga þeirra Tómas Zoëga og Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur, Nornin í eldhúsinu, fyrir valinu og óskum við þeim til hamingju. Sagna fjallar um ævintýri þeirra Péturs og Stefaníu og nornarinnar í eldhúsinu og bíðum við spennt eftir að lesa meira um þríeykið.

Sagan verður birt á vef Borgarbókasafnsins og Bókmenntaborgar frá 1. desember og fram að jólum, einn kafli á dag og hverjum kafla fylgir myndlýsing. Sagan er frumraun þeirra Tómasar og Sólrúnar saman en sitt í hvoru lagi hafa þau unnið að sögum, kvikmyndum og myndlýsingum með góðum árangri.

En fáum kynningu á höfundunum í ár frá þeim sjálfum.
Sólrún: Ég er 23ja ára myndhöfundur, en hef fengist við myndlist og tónlist alla tíð. Nú bý ég í Kaupmannahöfn þar sem ég stunda fiðlunám við Konunglega danska tónlistarháskólann. Ég bý líka til stilluhreyfimyndir og kenni stundum námskeið í því.
Tómas: Ég er 27 ára námsmaður og hef undanfarin ár lagt stund á jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands og svo loftslagsfræði við Háskólann í Kiel í Þýskalandi. Svo finnst mér líka mjög gaman að skrifa sögur og geri það eins oft og ég get.
Við bíðum spennt eftir að hefja jóladagatalið sem verður líflegt og spennandi fyrir krakka á öllum aldri og fjölskyldur þeirra.