Kristín Ómarsdóttir hlýtur Maístjörnuna 2017 fyrir bókina Kóngulær í sýningargluggum

Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2017 hlaut Kristín Ómarsdóttir fyrir bókina Kóngulær í sýningargluggum. Maístjarnan er veitt á vegum Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns og voru þau veitt í annað sinn við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni 29. maí. 

Í umsögn dómnefndar um bók Kristínar segir m. a. að í þróttmikilli bók sé stiginn dans þar sem líf og dauði tvinnast saman í köngulóarvef. „Myndmálið er afar sterkt, stundum allt að því yfirþyrmandi, og ljóðavefur Kristínar heldur okkur föngnum, því hann er samtími okkar sjálfra. Kóngulær í sýningargluggum er afar óvenjuleg, einstaklega sterk og ögrandi ljóðabók og allar líkingar og lýsingar opna nýjar víddir og nýja sýn á heiminn,“ segir jafnframt í umsögninni.

Kristín Ómarsdóttir fæst jöfnum höndum við ljóða- og skáldsagnagerð, smásögur og leikritun og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Skáldsagan Elskan mín ég dey var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999 og fékk Menningarverðlaun DV sama ár. Leikrit hennar, Ástarsaga 3, var tilnefnt til Norrænu leikskáldaverðlaunanna. Árið 2005 fékk hún Grímuverðlaunin, sem leikskáld ársins, fyrir leikritið Segðu mér allt. Fyrir ljóðabókina Sjáðu fegurð þína hlaut hún Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2008. Skáldsagan Flækingurinn var tilnefnd til Menningarverðlauna DV 2015. Kóngulær í sýningargluggum var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017 en Kristín var líka tilnefnd 2012 fyrir Millu, 1997 fyrir Elskan mín ég dey og 1995 fyrir Dyrnar þröngu.

Maístjörnunni var komið á fót til að hefja ljóðið til vegs og virðingar og hvetja skáld til að yrkja og koma ljóðum sínum í útgáfu. Í dómnefnd sátu Magnea J. Matthíasdóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Rannver H. Hannesson fyrir hönd Landsbókasafnsins. Verðlaunin eru verðlaunafé að upphæð 350 þúsund krónur en gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2017 sem skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Tilnefndar bækur árið 2017:

  • Án tillits eftir Eydísi Blöndal í útgáfu höfundar.
  • Dauðinn í veiðarfæraskúrnum eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur sem Viti menn gaf út.
  • Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem Benedikt bókaútgáfa gaf út.
  • Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur sem JPV útgáfa gaf út.
  • Stór olíuskip eftir Jónas Reyni Gunnarsson í útgáfu Partus.