LitTransformer - þýðingasmiðja í Lviv

Bókmenntaborgin Lviv í Úkraínu stendur fyrir þýðingarsmiðjunni LitTransformer í annað sinn í samstarfi við Bókmenntaborgina Iowa City í Bandaríkjunum. Þýðendur frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO geta sótt um að taka þátt. Smiðjan fer fram í Lviv frá 30. maí - 8. júní 2020.

Umsóknarfrestur rennur út 20. mars næstkomandi.

Að þessu sinni verður þema smiðjunnar tengt borgum undir heitinu að þýða borgina (Translating the City) þar sem tekist verður á við spurninguna um hvernig þýðing geti virkað sem eins konar gagnvirkt rými eða millirými, þ.e. skapandi og endurlífgandi svæði sem fóstrar samræður milli tungumála og menningarheima sem búa hlið við hlið í borgunum.

Tekist verður á við ljóðaþýðingar og velja þátttakendur texta eftir skáld frá sínum borgum. Boðið verður upp á fyrirlestra og hópvinnu og fá þýðendur tækifæri til að vinna saman þvert á þrjú tungumál. Enska verður notuð sem brú milli annarra mála. 

Aron Aji, prófessor og stjórnandi þýðingarfræðideildar Háskólans í Iowa, University of Iowa, stýrir smiðjunni og einnig verða kennarar í þýðingarfræði við Ivan Franko háskóla í Lviv til leiðsagnar. 

Tekið verður við allt að tveimur þýðendum frá hverri Bókmenntaborganna, einum reynslumiklum og öðrum upprennandi.

Upplýsingar um umsóknargögn, netfang og umsóknareyðublað LitTransfomer er að finna hér

LitTransformer var haldin í fyrsta sinn sumarið 2019 og tóku þær Meg Matich og Gunnhildur Jónatansdóttir þátt í henni frá Reykjavík. 

Sjá viðtal við Aron Aji um LitTransformer 2019.

Hvað er innifalið?

Bókmenntaborgin Lviv leggur til húsnæði og fæði en ferðakostnaður er ekki innifalinn. Skipuleggjendur geta aðstoðað við að finna bestu ferðaleiðir til borgarinnar. Auk smiðjunnar er boðið upp á menningardagskrá þar sem þátttakendur fá innsýn í blómlegt menningarlíf borgarinnar.