Safnanótt í Gröndalshúsi

Það verður opið hús í Gröndalshúsi á Safnanótt, föstudaginn 2. febrúar. Þetta fyrrum heimili skáldsins og myndlistarmannsins Benedikts Gröndals er nú starfrækt sem skáldahús með viðburðarými, sýningu um Gröndal, vinnustofum í risi og gestaíbúð í kjallara. 

Opið verður á aðalhæðinni og í risi frá kl. 18 – 23 og gestir geta því skoðað þetta fallega hús og kynnst starfseminni hvenær sem er kvöldsins.

Fyrri hluta kvölds geta börn og fjölskyldur þeirra spreytt sig á að teikna fugla og dýr að fyrirmynd Gröndals eða draga til stafs samkvæmt forskrift hans og frá kl. 21 verður dagskrá helguð Benedikt í stofunum á aðalhæð hússins með þremur reykvískum skáldum af erlendum uppruna.

Verið hjartanlega velkomin í hús Gröndals á Safnanótt!

Dagskrá:

18 – 23
Opið hús í stofum og risi. Teiknaðu og litaðu fugla eða reyndu þig við að draga til stafs eftir forskrift Gröndals. 
Kynnstu skáldinu og manninum Benedikt Gröndal og Reykjavík um aldamótin 1900 og skoðaðu húsið sem hann bjó í. 

21:00 – 23:00
Orðaá / River of Words

Hittið skáldin Angelu Rawlings, Elías Knörr og Ewu Marcinek á skapandi dagskrá þar sem áherslan er á að lesa verk Gröndals og húsið sjálft í gegnum skrif.

Elías Knörr, Ewa Marcinek og Angela Rawlings

21:00
Elías flytur verk eftir sjálfan sig og Benedikt Gröndal.

21:30
Reyndu þig við að þýða Gröndal undir handleiðslu Ewu.

22:15
Angela leiðir ritlistaræfingu / leiðslu sem hún kallar Orðaá / River of Words. Láttu hljóð og umhverfisáhrif hreyfa við skrifum þínum og leyfðu þér að fljóta með þeim.

Þátttakendur í þýðingar- og ritlistarstundunum geta skrifað á hvaða tungumáli sem er. Leiðsögnin verður á ensku og íslensku. Hver og einn þarf að koma með sinn eigin penna, pappír, glósubók eða hvað sem fólk vill nota við skrifin.

Verið hjartanlega velkomin í Gröndalshús á Safnanótt!

Gröndalshús er á horni Fischersunds og Mjóstrætis. 

Sjá heildardagskrá Safnanætur og Vetrarhátíðar í Reykjavík