Svartfugl og Maístjarna

Í gær, þann 25. apríl 2018 var tilkynnt hvaða bækur eru tilnefndar til Maístjörnunnar 2017, ljóðaverðlauna sem voru veitt í fyrsta sinn í fyrra. Sama dag voru glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn afhent í fyrsta sinn en þau eru veitt höfundi sem er að senda frá sér sína fyrstu bók. Verðlaunabókin, Marrið í stiganum, er komin út hjá Veröld.

Tilnefningar til Maístjörnunnar

Ljóðabókaverðlaunin Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru eingöngu fyrir útgefna íslenska ljóðabók. Þeim er ætlað að hvetja skáld til að yrkja og koma ljóðum sínum í útgáfu. Að verðlaununum standa Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafnið. 

Eftirtaldar bækur eru tilnefndar til Maístjörnunnar fyrir árið 2017:

Án tillits eftir Eydísi Blöndal (Eydís Blöndal)

Dauðinn í veiðarfæraskúrnum eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur (Viti menn)

Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur (Benedikt bókaútgáfa)

Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur (JPV útgáfa)

Stór olíuskip eftir Jónas Reyni Gunnarsson (Partus)

Tilnefndu bækurnar eru allar til sýnis í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar.

Allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2017 voru gjaldgengar, þ.e. þær sem skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Hana skipa Magnea J. Matthíasdóttir  fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Rannver H. Hannesson fyrir hönd Landsbókasafnsins.

Verðlaunin verða veitt við athöfn í Þjóðarbókhlöðunni þann 18. maí, á degi ljóðsins. Verðlaunafé er 350 þúsund krónur.

Svartfuglinn

Svartfuglinn eru ný glæpasagnaverðlaun sem höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson standa að í samvinnu við forlagið Veröld. Þetta eru handritaverðlaun og er tilgangur þeirra að hvetja höfunda til að spreyta sig á glæpasagnaforminu en verðlaunasagan kemur út hjá Veröld í Viku bókarinnar um leið og tilkynnt er um verðlaunahafann. Fyrst til að vinna verðlaunin er Eva Björg Ægisdóttir og hlaut hún þau fyrir bókina Marrið í stiganum. Höfundar sem senda inn verk mega ekki hafa gefið út glæpasögu áður og eru verðlaunin þannig hvati að nýliðun í hópi glæpasagnahöfunda. 

Eliza Reid forsetafrú afhenti Evu Björg verðlaunin. Dómnefndina skipuðu þau Ragnar og Yrsa ásamt Bjarna Þorsteinssyni, útgáfustjóra Veraldar. 

Í áliti dómnefndar um bókina segir meðal annars: „Sagan er grípandi og spennandi samhliða því að veita innsýn í myrkan og sáran veruleika. Fléttan er fagmannlega unnin, söguþráðurinn sterkur og sögulokin koma lesandanum á óvart.“

Verðlaunin nema 500.000 krónum auk hefðbundinna höfundarlauna. Sigurvegaranum býðst einnig samningur við umboðsmanninn David H. Headley en tímaritið Bookseller útnefndi hann sem einn af 100 áhrifamestu mönnum breskrar bókaútgáfu árið 2015.