Tilnefningar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar

Í dag fór fram athöfn í menningarhúsi Borgarbókasafnsins í Gerðubergi þar sem tilkynnt var hvaða fimmtán bækur eru tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2019, en verðlaunin verða afhent hefðinni samkvæmt síðasta vetrardag í Höfða.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt í þremur flokkum og voru fimm bækur tilnefndar í hverjum þeirra; fyrir bestu frumsömdu barna- og unglingabókina, best myndlýstu bókina og bestu þýðingu á barna- og unglingabók sem gefin var út á árinu 2018.

Í flokki frumsamdra barnabóka eru þessar bækur tilnefndar: Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur, Rotturnar eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur, Silfurlykillinn eftir Sigrúnu Eldjárn, Svarthol. Hvað gerist ef ég dett ofan í? eftir Sævar Helga Bragason og Sölvasaga Daníelssonar eftir Arnar Má Arngrímsson.

Í flokki myndlýstra bóka eru tilnefndar: Ljóðpundari með myndlýsingum Sigrúnar Eldjárn og ljóðum eftir Þórarin Eldjárn, Sagan um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins, myndlýst af Rán Flygenring við texta Hjörleifs Hjartarsonar, Milli svefns og vöku með myndum Laufeyjar Jónsdóttur við texta Önnu Margrétar Björnsson, Sjúklega súr saga, myndlýst af Halldóri Baldurssyni með texta eftir Sif Sigmarsdóttur og að lokum Snuðra og Tuðra eiga afmæli, myndlýst af Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur við texta Iðunnar Steinsdóttur.

Í flokki þýddra bóka eru þýðendur tilnefndir: Guðni Kolbeinsson fyrir þýðingu á Villimærin fagra eftir Philip Pullman, Þórdís Bachmann fyrir bók 2 í bókaflokknum Hvísl hrafnanna eftir Malene Sølvsten, Erla E. Völudóttir fyrir Ferðalagið eftir Timo Parvela og Björn Sortland, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson fyrir Meira af Rummungi ræningja eftir Otfried Preußler og að lokum er það þýðing Jóns St. Kristjánssonar á Seiðmenn hins forna eftir Cressida Cowell.

Ungt tónlistarfólk úr Tónlistarskóla Sigursveins steig á stokk og gestir skoðuðu sýninguna Þetta vilja börnin sjá og þáðu kaffiveitingar að athöfn lokinni.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eiga sér lengsta sögu barnabókaverðlauna á landinu og er helsta markmið þeirra að vekja athygli á því sem vel er gert í bókaútgáfu fyrir unga lesendur og hvetja þá til bóklesturs.

Valnefnd er skipuð Tinnu Ásgeirsdóttur formanni, Helgu Birgisdóttur, Magnúsi Guðmundssyni, Rakel McMahon og Valgerði Sigurðardóttur.

 

Hér fyrir neðan má lesa rökstuðning valnefndar:
 

Tilnefndar bækur í flokki bestu myndskreytinga

Ljóðpundari eftir Þórarinn Eldjárn, myndir Sigrún Eldjárn, Vaka-Helgafell gefur út

Heimspekilegar vangaveltur og útúrsnúningar Þórarins Eldjárns í Ljóðpundara um beina banana, fíla í postulínsbúðum og allt þar á milli öðlast dásamlegt líf í vönduðum myndum Sigrúnar Eldjárn. Í bókinni kallast textinn á við frjóar teikningar og þau mynda saman kraftmikla heild. Oftar en ekki bætir Sigrún hugvitssamlegum atriðum við skrýtnustu skrúfur Þórarins og lætur þær þannig koma ljóslifandi fyrir sjónir ungra lesenda.

Milli svefns og Vöku eftir Önnu Margréti Björnsdóttur, myndir Laufey Jónsdóttir, Salka gefur út

Í Milli svefns og Vöku er fjallað um undarlegar verur sem eiga það til að birtast þegar húmar að. Myndverk bókarinnar einkennist af svipsterkum, svarthvítum teikningum þar sem myndbygging, ólíkir tónar, mynstur og uppsetning kalla fram dulúðlegt andrúmsloft. Saman skapa myndirnar fallega heild sem gefur góða innsýn í hugarheim sögupersónunnar Vöku og ótta hennar við það sem felur sig í myrkrinu.

Sagan um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins eftir Hjörleif Hjartarson, myndir Rán Flygenring, Angústúra gefur út

Skarphéðinn er lítil og heimspekilega þenkjandi fluga og í sögunni finnst lesandanum hann sjálfur vera orðinn lítil fluga. Myndir Ránar Flygenring sýna heiminn út frá sjónarhorni forvitnu og íhugulu flugunnar Skarphéðins. Þær eru stílhreinar, grafískar og á tíðum abstrakt. Samspil lita og uppsetningar skapa fallega heild sem einnig fangar ljóðræna frásögn bókarinnar og hrífur lesandann með í ævintýralegt ferðalag hins stórhuga Skarphéðins.

Sjúklega súr saga eftir Sif Sigmarsdóttur, myndir Halldór Baldursson, Mál og menning gefur út

Napur nútíminn og myglaðar miðaldir eru ekki bara sjúklega súrar heldur líka sjúklega skemmtilegar, aflestrar. Í Sjúklega súrri sögu teiknar Halldór Baldursson sögu Íslands frá landnámi við fyndinn og kaldhæðinn texta Sifjar Sigmarsdóttur. Myndefnið er fjölbreytt og ótal persónur skjóta upp kollinum; Lína Langsokkur, Jóhanna Sigurðardóttir, guð og forsetinn. Talblöðrur og ótal smáatriði gæða myndirnar auknu lífi. Saman mynda texti og myndir hnyttna frásögn í teiknimyndastíl sem fangar lesendur á öllum aldri.

Snuðra og Tuðra eiga afmæli eftir Iðunni Steinsdóttur, myndir Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, Salka gefur út

Myndirnar í Snuðra og Tuðra eiga afmæli eru ekki síður fyndnar en frásögnin. Myndhöfundi tekst vel að draga fram skemmtilegar áherslur sögunnar en Lóa Hlín hugar að hverju smáatriði, hvort sem það er Haribo-nammi, mynstur í borðdúk eða legókubbur á afmælistertu, og teiknar ýktar og svolítið ófrýnilega sögupersónur í fallegum fötum og heimilislegu umhverfi. Skondnar andstæður sem höfða til jafnt barna sem foreldra.

Tilnefndar bækur í flokkNUM besta þýdda barna- og unglingabókin

Bækur duftsins, Fyrsta bók, Villimærin fagra, eftir Philip Pullman í þýðingu Guðna Kolbeinssonar, Mál og menning gefur út

Í verkum sínum skapar Philip Pullman einstaka veröld þar sem fortíð og fantasía renna saman í eitt, ekki síst fyrir tilstilli tungumálsins sem er í senn sígilt og skapandi. Guðna Kolbeinssyni tekst listilega vel upp við að færa þetta snjalla tungutak yfir á íslensku. Þýðing Guðna er í senn vönduð, falleg og hugvitssöm og færir íslenskum lesendum ævintýrabókmenntir eins og þær gerast bestar í dag á okkar ástkæra og ylhýra.

Hvísl hrafnanna, 2. bók eftir Malene Sölvsten í þýðingu Þórdísar Bachmann, Ugla gefur út

Ævintýraveröldin Hrafnheimar birtist ungum, íslenskum lesendum á auðugu og skýru máli sem hæfir bæði sögusviði og aldurshópnum. Þórdís Bachmann snýr Hvísli hrafnanna eftir Malene Sölvsten á blæbrigðaríka og hljómfagra íslensku og gætir þess jafnframt að málfarið sé nútímalegt og áreynslulaust.

Kepler 62, Þriðja bók: Ferðalagið eftir Timo Parvela og Björn Sortland í þýðingu Erlu E. Völudóttur, Bókabeitan gefur út

Í þýðingu sinni á þriðju bókinni í bókaröðinni Kepler 62 fangar Erla E. Völudóttir langt og flókið ferðalagið sem söguhetjurnar þurfa að taka sér fyrir hendur, heil 1200 ljósár frá jörðinni, á skýrt og auðskiljanlegt mál. Einfaldur og látlaus stíll höfunda flæðir á tærri og lipurri íslensku svo úr verður hið æsilegasta ævintýri.

Meira af Rummungi ræningja eftir Otfried Priebler í þýðingu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar, Dimma gefur út

Rummungur ræningi er aldeilis karakter. Og ömmuræningi í þokkabót. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson snýr gáskafullri sögunni af Kasperi, Jobba, Fimbulfúsa varðstjóra, ömmu og ófétinu Rummungi af miklu öryggi yfir á leikandi og lipra íslensku. Blæbrigðaríkt orðfærið flæðir vel í takt við framvindu sögunnar og gefur henni, líkt og aðalskúrknum, sterkan karakter.

Seiðmenn hins forna eftir Cressida Cowell í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar, Angústura gefur út

Í þýðingu sinni á Seiðmenn hins forna eftir Cressidu Cowell hrífur Jón. St. Kristjánsson unga lesendur með sér inn í galdraveröld seiðmanna og vígbúinna stríðsmanna en ekki síður fjörlegan ævintýraheim íslenskunnar. Þýðandinn tekst á við áskoranir á hverri blaðsíðu og leysir af hugvitsemi og lipurð, með nýyrðum og óvæntum samsetningum, eins og hann sé sjálfur, líkt og sögupersónurnar, vopnaður galdrastaf.

Tilnefndar bækur í flokki frumsaminna barna- og unglingabóka:

Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur, JPV gefur út

Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur er lágstemmd unglingabók sem virkilega leynir á sér. Hægt og rólega sogast lesandinn inn í tilveru menntaskólastelpna og það sem heillar er ekki aðeins kunnuglegt sögusviðið heldur einnig næmni Hildar til að miðla tilfinningum unga fólksins og hæfileiki hennar til að halda á mörgum boltum í einu, án þess að glutra nokkrum niður né missa athygli lesanda.

Rotturnar eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur, Vaka-Helgafell gefur út

Í sinni þriðju ungmennabók, Rottunum, tekst Ragnheiður Eyjólfsdóttir á við áleitin samfélagsmál á borð við sjúkdóma, tækni, samskipti, ofbeldi og umhverfismál. Öllu þessu – og meira til – pakkar hún í inn í spennandi þroskasögu sem krydduð er með dálítilli ást og fantagóðri persónusköpun

Silfurlykillinn eftir Sigrúnu Eldjárn, Mál og menning gefur út

Við lifum á tímum neyslu, tækni og þæginda sem raunhæft séð eru á leið með að tortíma veröldinni eins og við þekkjum hana. Silfurlykill Sigrúnar Eldjárn færir okkur heim þar sem sú tortíming er þegar orðin að veruleika og mannkynið þarf að endurhugsa allt sitt líf. En þrátt fyrir alvarleg umhugsunarefni er Silfurlykillinn bráðskemmtileg lesning á fallegu tungumáli, uppfull af spennandi ævintýrum, kærleik og vináttu en þó umfram allt von. Von sem býr í börnunum okkar og góðum bókum.

Svarthol. Hvað gerist ef ég dett ofan í? eftir Sævar Helga Bragason, JPV gefur út

Frásögnin af því hvað gerist ef Sævar Helgi Bragason dettur ofan í svarthol er hin besta skemmtun aflestrar en hún er líka miklu meira en það. Hér tekst Sævari Helga að segja frá og útskýra veröld eðlisfræðinnar og alheimsins á einstaklega lifandi og skemmtilegan hátt og soga þannig með sér unga sem aldna lesendur. Svarthol Sævars Helga er í senn fræðandi og aðgengileg en þó umfram allt hvetjandi fyrir lesandann til þess halda áfram skoða undur heimsins með augum vísindanna.

Sölvasaga Daníelssonar eftir Arnar Már Arngrímsson, Sögur gefa út

Már Arngrímsson segir söguna af Sölva, einmana orðasmið sem finnst hann hvergi eiga heima, tollir ekki með öðru fólki en getur samt ekki verið einn. Í þessari angurværu þroskasögu er að finna mikinn leik að orðum og vísað er til dægurmenningar nútímans, hámenningar og lágmenningar og útkoman er saga sem erfitt er að leggja frá sér fyrr en komið er að lokapunktinum.

Meira um barnabókaverðlaunin