Beint í efni

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson (1864-1940) skáld og athafnamaður bjó hér í Höfða á árunum 1914 til 1917. Einar var heimsborgari og hugsjónamaður, hann ferðaðist víða um lönd og hér heima lagði hann fram margar nýstárlegar hugmyndir sem hafa haldið nafni hans á lofti þótt ekki yrðu þær allar að veruleika. Það er þó fyrst og fremst ljóðlist Einars sem lifir, hann sendi frá sér fimm ljóðabækur og er talinn meðal helstu ljóðskálda íslensku þjóðarinnar.

Einar Benediktsson, 1864-1940, var eitt dáðasta skáld þjóðarinnar á fyrriparti 20. aldar. Auk þess að yrkja var hann lögfræðingur, sýslumaður Rangæinga, ritstjóri og útgefandi Dagskrár, einn af stofnendum Landvarnarflokksins og fjármálamaður með evrópsk sambönd og hugmyndir um stórvirkjanir á Íslandi.

Brim

Volduga hjartaslag hafdjúpsins kalda,
af hljóm þínum drekk ég mér kraft og frið.
Ég heyri í þér, skammlífa, skjálfandi alda,
skóhljóð tímans, sem fram skal halda,
og blóð mitt þýtur með brimsins nið.

Ég beini sál minni að helsins hafi,
sem handan við sól drekkur lífs míns straum.
Ég sé minn himin með sólbjarmatrafi
við sjóndeild blandast skugganna kafi
og sekk mér í hugar míns dýpsta draum.

Ég sekk mér í brimhljóðsins sogandi öldu
og sál mína að óminnisdjúpinu kný.
Ég tel mig í ætt við unnina köldu,
sem einn af dropunum mældu og töldu,
sem hljómbrot í eilífðarhafsins gný.

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur ritaði ævisögu Einars Benediktssonar sem gefin var út árið 1997 og hlaut höfundurinn Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir verkið.