Jump to content
íslenska

Ofsi (Rage)

Ofsi (Rage)
Author
Einar Kárason
Publisher
Mál og menning
Place
Reykjavík
Year
2008
Category
Novels

Um bókina

Sögusviðið er Ísland á þrettándu öld. Gissur Þorvaldsson snýr breyttur maður heim úr Noregsför, fús til sátta við erkióvini sína, Sturlungana, eftir áralangan ófrið. Þeir efast um heilindi hans en sannfærast þegar Gissur leggur til að sonur hans kvænist stúlku af ætt Sturlunga. Fjölmenni er boðið til brúðkaupsveislu að Flugumýri þar sem innsigla á friðinn. Ekki mæta þó allir sem boðið var. Eyjólfur ofsi glímir bæði við stórlynda eiginkonu og stríða lund. Í vígahug, með svarta hunda á hælunum, ríður hann með flokk manna að Flugumýri í veislulok; nýsaminn friður er ekki allra ...

Úr Ofsa

Eyjólfur

Stundum þorði ég ekki að sofna vikum saman því að í svefni sótti alltaf á mig sama sýnin; afhöggvið höfuð manns sem liggur hjá túngarði. Það er svart og morkið á strjúpann og höfuðið farið að blána og svarblátt blóð í vitum og ég hálfgert barn, hrætt við heiminn, finn þetta höfuð og stirðna upp, en í stað þess að hlaupast á brott skelfingu lostinn að láta vita um minn fund og komast í öruggt skjól hjá fólki þá verða fætur mínir svo þungir eða máttvana að ég fæ mig hvergi hrært og þá snýr höfuðið sér til mín og ávarpar mig; hroðalegt og meinfýsið glott breiðist yfir andlitið og það segir að ég sé vesalingur og mannleysa og muni aldrei verða annað. Og er andlitið þagnar og ég get farið að bifa mér finn ég að það er farið að rigna, droparnir hafa bulið um hríð á hörundi mínu og er ég gái að þá sé ég að það rignir blóði ...

Þetta andlit, ég hafði einhverntíma séð það áður, en ekki á lifandi manni svo ég myndi til, og það birtist alltaf sjónum mínum um það bil sem ég var loks að ná friði svefnsins í sálina, þá fór það að glotta til mín, sprungnum eða morknum vörum, og ef ég reyndi að koma mér í burtu þá elti það mig, þótt það væri afhöggvið og lægi með moldugan strjúpann á jörðinni, það dróst einhvernvegin á eftir mér, rann á kinninni eins og í leðju, ég veit það ekki, bara að þetta fyllti mig alltaf hryllilegri skelfingu. Ég reyndi stundum að hraða mér í burtu en komst þá varla úr sporunum, þannig er það alltaf í martröðum og vondum draumum, einu sinni var ég þó kominn á einhvern skrið, fannst ég vera kominn yfir hól eða lækjardrag og að renna undan þessu afhöggna höfði, en þá heyrði ég hundgá á hælum mér, allir svörtu hundarnir stefndu á eftir mér með grimmdarlegu gelti, allir hundarnir geltu nema einn, sá var kominn með þetta afhöggna höfuð á hálsinn, hálfur maður og hálfur hundur, mannhundur, eins og ég; og það hló af illkvittinni hamingju, hló við mér eins og til að segja: hélstu að þú gætir sloppið?! Ég kastaði mér niður og lenti í háu falli og svo var ég kominn á einhvern annan stað og þar var friður og myrkur en svo fann ég að það var einhver þarna, þarna var þetta höfuð sem segir að ég sé vesalingur og mannleysa og það er komið til að bíta mig og naga og ég hljóðaði hátt, mér tókst það loksins; yfirleitt kemur maður ekki upp hljóði í martröðum frekar en að maður geti hraðað sér; ég hljóðaði og sló í þetta höfuð og það tók á móti, hvernig sem það fór að því svona afhöggvið; skelfingin var algjör og ég barði frá mér og grét og svo upplýstist allt í kringum mig, einhver var kominn með luktir og þarna var hún Þuríður konan mín, blóðug en reyndi að klóra mig, og sagði síðar að ég hefði byrjað að berja sig sofandi með hatursfullum ópum og síðan þá hef ég alltaf þurft að sofa einn handan við þilið.

(22-3)

More from this author

Wyspa diabla

Read more

Skáld (Skald)

Read more

Licht in der Finsternis

Read more

Une affligeante histoire

Read more

Luvattu maa

Read more

Revontulet

Read more

Pirunsaari

Read more

Tyhmyreiden neuvot

Read more

Kultasaari

Read more