Frá Edinborg, Bókmenntaborg UNESCO

Chitra Ramaswamy er höfundur verðlaunaverksins Expecting, sem er ritgerðasafn þar sem reynsluheimur þungaðra kvenna er litinn ferskum augum. Hún er líka blaðamaður sem skrifar fyrir dagblaðið The Guardian auk þess sem hún kemur reglulega fram á viðburðum og hátíðum víðsvegar í heimalandinu. Tilvitnunin að ofan er úr bókinni The Freedom Papers, sem kom út 2018 hjá Gutter Magazine í samstarfi við Edinburgh International Book Festival. Í verkinu fjalla rúmlega fimmtíu höfundar um hvaða þýðingu frelsi hefur fyrir þá. 

Bókmenntaborgin Edinborg

Lesum heiminn

Textasýningin Lesum heiminn /Read the World er í Ráðhúsi Reykjavíkur frá 10. - 31. október 2018. Í tilefni af 100 ára fullveldi Íslands bregður Bókmenntaborgin Reykjavík á leik með tilvitnunum frá systurborgum sínum í samstarfsneti skapandi borga UNESCO, UNESCO Creative Cities Network. Textarnir fjalla allir um frelsi, sjálfstæði eða uppreisnaranda í sem víðustum skilningi og er ætlað að vekja okkur til umhugsunar um þessi hugtök og þýðingu þeirra fyrir okkur sem einstaklinga eða þjóðir. Með sýningunni vill Bókmenntaborgin leggja áherslu á þýðingu samtals menningarheima fyrir íslenskt samfélag, fullveldi þess og framþróun og heiðra skáld um víða veröld sem vekja okkur til umhugsunar um ólíkar hliðar frelsis og sjálfstæðisbaráttu í einkalegu og opinberu tilliti.