Beint í efni

Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur

Skilafrestur handrita sem keppa um Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 2020 er til og með 9. janúar. 

Reykjavíkurborg auglýsti í ágúst eftir óprentuðu handriti að skáldverki fyrir börn eða unglinga, frumsömdu á íslensku, til að keppa um Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 2020. Verðlaununum verður úthlutað í annað sinn í apríl. 

Verðlaun að upphæð 1 milljón króna verða veitt fyrir eitt handrit.

Þriggja manna dómnefnd metur verkin og eru meðlimir hennar tilnefndir af menningar-, íþrótta – og tómstundaráði, Reykjavík bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasambandi Íslands.

Útgáfuréttur verðlaunahandrits er í höndum höfundar eða þess forlags sem hann ákveður að starfa með. Sé dómnefnd á einu máli um að ekkert innsent handrit fullnægi þeim kröfum sem hún telur að gera verði til verðlaunaverka má fella verðlaunaafhendinguna niður það árið.

Handritum skal skila í þríriti undir dulnefni, en rétt nafn og símanúmer höfundar fylgi með í lokuðu umslagi.

Handrit berist í síðasta lagi fimmtudaginn 9. janúar 2020.

Utanáskrift:

Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur

b.t. Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO

Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, 101 Reykjavík

Verðlaunin 2019

Í apríl 2018 samþykkti borgarráð að veita Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur árlega að vori fyrir handrit að nýrri barna eða ungmennabók. Bergrún Íris Sævarsdóttir hlaut verðlaunin þegar þau voru veitt í fyrsta sinn árið 2019 fyrir handritið að bókinni Kennarinn sem hvarf. Hún kom í kjölfarið út hjá forlaginu Bókabeitunni.