Beint í efni

Laxness120

Lesið, gengið, hjólað og sippað með Laxness

Árið 2021 höfðu íslenskukennarar við nokkra erlenda háskóla frumkvæði að bókmennta– og heilsuáskoruninni Laxness119. Nemendur voru hvattir til að taka þátt með því að lesa og ekki síður að stunda hreyfingu frá 8. febrúar til 23. apríl. Fyrri dagsetningin er dánardagur skáldsins og sú síðari afmælisdagur hans en í ár eru 120 ár frá fæðingu Halldórs og þaðan kemur heiti leiksins þetta árið, Laxness120.

Þetta skemmtilega heilsuátak fyrir líkama og sál verður sem sagt endurtekið í ár og að þessu sinni eru ekki bara íslenskunemarnir hvattir til að taka þátt heldur allur almenningur.

Skáldsagan Salka Valka verður í öndvegi en bókin kom út í tveimur hlutum árin 1931 og 1932 og fagnar því 90 ára afmæli um þessar mundir. Fólk er hvatt til að lesa bókina, eða önnur verk eftir Laxness, og hreyfa sig með einhverri vísan í töluna 120. Þannig má t.d. skokka, hlaupa, ganga eða hjóla 120 kílómetra á tímabilinu, sippa 120 sinnum á dag, gera 120 æfingar á viku eða hvað annað sem hverju og einu dettur í hug, en hugmyndin er að sú að talan 120 komi fram í persónulegu markmiði hvers og eins. Þátttakendur eru hvattir til að deila myndum og færslum á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #laxness120.

Leiknum lýkur á afmælisdegi Halldórs Laxness 23. apríl, sem er einnig alþjóðlegur dagur bókarinnar. Þá verður boðið upp á göngu frá Mosfellskirkju að Gljúfrasteini. Gangan hefst kl. 10 en nánari upplýsingar um hana verða veittar þegar nær dregur. Sjálfur fékk Laxness sér daglegan göngutúr með heimilishundinum í nágrenni Gljúfrasteins hvernig sem viðraði og sótti sér þannig bæði heilsubót og innblástur í náttúruna.

Facebook hópurinn Laxness120