Beint í efni

Sleipnir og stórhættulega fjölskyldutréð

Sleipnir á vit nýrra ævintýra

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO í samvinnu við Félag fagfólks á skólabókasöfnum hefur útbúið Sleipnispakka fyrir skólabókasöfn til að nýta í kennslu og hvetja grunnskólabörn til lesturs. Sleipnir, lestrarfélagi barnanna, er tákn fyrir lestrarhvatningu Bókmenntaborgarinnar og með honum eru send út skilaboð um lestrargleði og börn hvött til að koma með á hugarflug inn í heim ævintýranna.

Á myndinni má sjá þau Skúla Helgason, formann skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur, Dröfn Vilhjálmsdóttur bókasafns- og upplýsingafræðing á skólasafni Seljaskóla og Ævar Þór Benediktsson með fyrstu eintök splunkunýrrar bókar þeirra Ævars og Gunnars Karlssonar um ævintýri Sleipnis í goðheimum.

Sleipnir og stórhættulega fjölskyldutréð

Ævar Þór Benediktsson hefur skrifað nýja bók um ævintýri Sleipnis, sem heitir Sleipnir og stórhættulega fjölskyldutréð. Bókina er aðeins hægt að nálgast á skólabókasöfnum því hún er skrifuð sérstaklega fyrir söfnin í borginni að beiðni Bókmenntaborgarinnar.

Sleipnir, lestrarfélagi barnanna, er tákn fyrir lestrarhvatningu Bókmenntaborgarinnar og í gegnum það verkefni gefur Bókmenntaborgin öllum skólasöfnum í borginni nýju bókina eftir Ævar Þór ásamt fyrstu bókinni um Sleipni, Vetrarævintýri Sleipnis eftir Gerði Kristnýju.

Með Sleipni fylgja verkefni fyrir 1. bekk á vef Bókmenntaborgarinnar og geta starfsmenn á skólasöfnum prentað út verkefni fyrir sína nemendur eftir þörfum. Að auki fá bókasöfnin bókamerki sem ætluð eru sem lestrarhvatning fyrir nemendur í 2. bekk og uppúr.

Bókamerkinu fylgir hvatning um að lesa og telja þann fjölda bóka sem lesinn er. Eftir hverja lesna bók er merkt við á bókamerkið og þegar sex bækur hafa verið lesnar getur nemandinn valið sér mynd af einni af ævintýrapersónunum úr bókinni hans Ævars. Teikningar af Sleipni í báðum bókunum eru eftir Gunnar Karlsson en hann myndlýsir ævintýrin á sinn einstaka hátt.

Á vef Bókmenntaborgarinnar er síðan tvær myndstiklur til að styðja við ævintýri Sleipnis í grunnskólanum. Sleipnir á skólabókasafninu er stikla til að sýna nýjum gestum á bókasafninu, en þar fer Sleipnir á lifandi hátt yfir hvað er hægt að gera á söfnunum. Hann hvetur börnin til að njóta þess að vera á safninu og nýta allt það sem þar er að finna og skilaboð hans til barnanna eru, „komdu með á hugarflug“, sem er bein tilvísum í flug Sleipnis á milli heima. Seinni stiklan er lestrarhvatning frá Ævari Þór, sem skrifar nýjasta ævintýri Sleipnis. Ævar segir aðeins frá bókinni og þeirri sérstöðu hennar að hana er aðeins hægt að fá að láni í skólasafninu. Efnið er unnið í samstarfi við Félag fagfólks á skólabókasöfnum. 

Gjöf til skólabókasafna í Reykjavík

Efnið er gjöf Bókmenntaborgarinnar til skólabókasafna í Reykjavík og er því nú dreift í fyrsta sinn. Skólabókasöfn á landsbyggðinni geta keypt pakkann hjá Bókmenntaborginni, því fátt er betra en að fara á gott hugarflug með lestri, og vill Bókmenntaborgin gera þetta lestrarhvetjandi efni aðgengilegt fyrir skóla og bókasöfn um allt land.

Sleipnir – lestrarfélagi barnanna er þróunarverkefni sem Bókmenntaborgin hefur unnið að undanfarin ár. Sleipnir kemur nú í fyrsta sinn inn í grunnskólann en áður hafa leikskólabörn í Reykjavík fengið að kynnast þessum skemmtilega lestrarfélaga í sögustundum með Sleipni á Borgarbókasafninu. Bókin Vetrarævintýri Sleipnis, sem Gerður Kristný skrifaði fyrir Bókmenntaborgina, og verkefni henni tengd fylgja leikskólabörnum heim í sinn leikskóla eftir heimsóknina og eru öll verkefnin byggð á læsisstefnu Reykjavíkurborgar fyrir leikskóla.