Beint í efni

Þýskur gestahöfundur í Reykjavík

Nele Brönner er rit- og myndhöfundur frá Berlín. Hún dvelur nú í Gröndalshúsi í boði Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO og Goethe stofnunar í Kaupmannahöfn. Í tilefni þess sýnir hún myndverk úr barnabókum sínum í Borgarbókasafninu í Grófarhúsi. Hún er opin dagana 24. september til 12. október á opnunartíma safnsins. 

Nele er fædd og uppalin í Marburg en býr nú í Berlín. Hún lærði myndlist við Listaháskólann í Berlín (Universität der Künste) og einbeitir sér í list sinni að myndabókum fyrir börn auk myndasagna. Hún hlaut Serafina verðlaunin 2015 fyrir bókina Affenfalle og 2019 fékk hún hin virtu Stiftung Buchkunst verðlaun í flokki barnabóka fyrir bókina Begel, der Egel.

Meðal bóka Nele má nefna Frosch Will Auch (2020), Zitronenkind (2020) sem einnig hefur komið út á ensku sem Lemonchild, Begel, der Egel (2018), Das Tigerei (2018) og bækurnar Das Monströse og Affenfalle frá 2015.

Hér í Reykjavík teiknar Nele og skrifar í Gröndalshúsi, fyrrum heimili rithöfundarins og myndlistarmannsins Benedikts Gröndals. Fyrstu dagana dvaldi hún þar í sóttkví eins og lesa má um í bloggi á vefnum hennar þar sem einnig má kynnast verkum hennar nánar.

Goethe stofnun í Kaupmannahöfn hefur boðið þýskum höfundum til nokkurra vikna dvalar í Reykjavík um árabil og hefur Bókmenntaborgin Reykjavík tekið á móti þessum gestum og kynnt þeim íslenskt bókmenntalíf og staðið fyrir viðburðum með þeim.

Sýningin í Grófarhúsi er bæði í Hringnum í barnadeild safnsins á 2. hæð og í myndasögudeildinni á 5. hæð.