Beint í efni

Laugavegur 11

Ásta Sigurðardóttir

Ásta Sigurðardóttir var fædd árið 1930 á Snæfellsnesi. Hún flutti ung til Reykjavíkur þar sem hún lauk landsprófi árið 1946 og í framhaldinu fór hún í Kennaraskólann og útskrifaðist þaðan 1950 með kennarapróf. Ásta fór ung að stunda ritlist og myndlist og vöktu smásögur hennar sem og myndverk fljótt athygli. Fyrsta smásögusafn Ástu Sunnudagskvöld til mánudagsmorgun vakti mikila athygli þegar það kom út 1961.

Margt hefur verið ritað og rætt um Ástu Sigurðardóttir skáld og er hér brot af því efni sem er aðgengilegt á vefnum um hana:

Um Ástu Sigurðardóttur skrifar Bragi Kristjónsson í vefritið Herðubreið í október 2014.

Grein í greinarsafni Morgunblaðsins um Ástu Sigurðardóttur frá árinu 2000 

Páll Ásgeir Ásgeirsson ritaði grein um lífshlaup Ástu í tímaritið Ský árið 2007

Laugavegur 11

Á sjötta áratug síðustu aldar var rekið vinsælt kaffihús sem bar einfaldlega nafn heimilisfangsins, Laugavegur 11. Staðurinn, sem var þar sem veitingahúsið Ítalía er nú til húsa, var mikið sóttur af listamönnum og skólafólki. Þar sátu til að mynda skáldin Dagur Sigurðarson, Ásta Sigurðardóttir, Þorsteinn frá Hamri, Jón Óskar, Thor Vilhjálmsson, Jóhann Hjálmarsson, Ari Jósefsson, Stefán Hörður Grímsson, Jónas Svafár og Elías Mar en staðurinn var ekki síst athvarf þeirra sem voru nokkuð á skjön við ríkjandi hefðir.

Af eldri skáldum sem einnig áttu til að líta inn má nefna þá Jóhannes úr Kötlum, Stein Steinarr og Þórberg Þórðarson og segir Þorsteinn frá Hamri frá því löngu síðar að viðkomur þeirra hafi þótt mikil upphefð fyrir staðinn. Jón Óskar helgar heilan kafla í endurminningum sínum, Kynslóð kalda stríðsins (1975) þessum samkomustað ungskáldanna.

Í viðtali við Nínu Björk Árnadóttur í Nýju lífi árið 1986 segir myndlistarmaðurinn Alfreð Flóki þetta um Laugaveg 11 þegar Nína Björk spyr hann hvort hann hafi í gegnum tíðina umgengist kollega sína mikið:

„Svokallaða kollega mína hef ég ekki umgengist, þó ég auðvitað dáist að þeim úr fjarska. Ég hef umgengist meira skáld og rithöfunda. Ég kynntist allflestum, sem eru vinir mínir í dag á Laugavegi 11, því góða kaffihúsi, en það var Sigurður Oddgeirsson, nú skólastjóri á Grænlandi, sem leiddi mig fyrst þangað inn. Þar kynntist ég Jóhanni Hjálmarssyni. Og Þorsteini frá Hamri, Ástu Sigurðardóttur, Úlfi Hjörvar, Ara heitnum Jósefssynin, Elíasi Mar, Sturlu Tryggvasyni, Braga Kristjónssyni, Helga úrsmíðarmeistara og málverkasafnara Guðmundssyni, Degi Sigurðar … Þarna var líka stofnuð svokölluð Intelligentía … í henni vorum við nokkrir útvaldir heiðursmenn og þrjár servitrísur af Laugavegi 11.

Þegar kaffihúsinu hafði verið lokað á kvöldin var farið í langa heilsubótargöngutúra eða bíltúra og diskúterað, fílósóferað og spekúlerað um lífið og listina, allir hlutir brotnir til mergjar.“

„Alfreð Flóki … Hver skyldi hann vera og hvernig skyldi hann verar?“ Nýtt líf, 8. tbl., 9. árg., 1986.

Dagur Sigurðarson skrifaði saknaðarljóð til staðarins, „Ljóðabréf frá útlöndum”, sem segja má að sé allt annars konar ættjarðarljóð en hefðin segir til um:

Ljóðabréf frá útlöndum

Trjástofnarnir í Edinborg:
risavaxnir stálstaurar
Krónurnar: ryðgaðar gaddavírs-
flækjur huldar reykmekki

- Lángar mig heim til Lellefs

Fólkssauðirnir í Höfn:
stríðaldir klunnar

Þeir stökkva ekki yfir réttarveggi
einsog hornfirzkir kollegar þeirra

- Lángar mig heim til Lellefs

Loftslagið í Vín:
heitt eins og víti
en ívið mollulegra

„Die schöne blaue“ Dóná
allsekki blá heldur
grá og brún og skítug

- Lángar mig heim til Lellefs

Leggstu aldrei í útlent gras Þú
verður öll útskriðin í pöddum

- Lángar mig heim til Lellefs