Beint í efni

Heilagur hinseginleiki

Heilagur hinseginleiki
Höfundur
Ragnar H. Blöndal
Útgefandi
Hringaná
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Þorvaldur S. Helgason

Sálmabók hommanna er, samkvæmt lista yfir útgefin verk, fimmta ljóðabók Ragnars H. Blöndal. Hér verður að viðurkennast að undirritaður hafði ekki lesið neitt áður eftir Ragnar sem hefur þó greinilega verið mikilvirkur í ljóðaútgáfu undanfarin ár og sent frá sér bók á hverju ári síðan 2019. Bókin er gefin út af Hringaná sem meðal annars leggur áherslu á útgáfu hinsegin bókmennta.

Í kynningartexta er ljóðum Ragnars lýst sem lofsöngi „til samfélags karlmanna og holdsins lystisemda en helgidómar andans koma líka við sögu“. Eins og sjá má af titli og lýsingu er skáldskapur Ragnars blygðunarlaust hinsegin en þarsíðasta bók hans ber titilinn Óskalög hommanna og má gera því skóna að um sé að ræða einhvers konar seríu.

Holdgerving karlmennskunnar

Strax á fyrstu síðu bókarinnar verður ljóst að hér eru lesendur komnir inn í heim þar sem hinseginleiki karlmanna fær að njóta sín til hins ýtrasta. Þar má sjá teiknaða nærmynd í svarthvítu af nöktum karlmannsbúk sem liggur glenntur á rúmi með stæðilegan getnaðarlim í forgrunni en höfuð og hendur mannsins liggja út úr rammanum. Hér er greinilega verið að vísa í þekkt málverk franska raunsæismálarans Gustave Courbet frá 1866, Uppruni heimsins eða L'Origine du monde. Verk Courbet er nærmynd af sköpum konu sem liggur nakin á rúmi og hefur þótt umdeilt allt frá því það var málað fyrir rúmum 150 árum enda var það eitt fyrsta málverkið í vestrænni listasögu til að sýna sköp konu í návígi.

Þótt ekki sé um eiginlegt ljóð að ræða má segja að Ragnar setji tóninn fyrir það sem koma skal með teikningunni á fyrstu síðu bókarinnar. Sálmabók hommanna er nefnilega sannkölluð upphafning á hinum holdlega hinseginleika karlmennskunnar í öllu sínu veldi. Ljóð Ragnars sækja innblástur víða og eru uppfull af vísunum í bókmenntir, trúarbrögð og goðsagnir en mest fer þar fyrir Kristinni trú og Biblíunni. Það eitt og sér er ef til vill nóg til að espa upp (ó)réttláta reiði íhaldssamra hómófóba og því viðbúið að einhverjir strangtrúaðir muni móðgast. En er það ekki einmitt markmið hinsegin bókmennta að vera róttækt afl sem ögrar viðteknum siðavenjum og íhaldsöflum?

Fagnaðarsöngur hedónismans

Sálmabók hommanna er svo sannarlega róttæk bók en í ljóðum Ragnars birtist lesendum neðanjarðarheimur sem vanalega er hulinn þeim sem ekki tilheyra samfélagi hinsegin karlmanna. Fyrsta ljóð bókarinnar hefst á eins konar minningarorðum um fallna félaga og vísar á fallegan hátt í alnæmisfaraldurinn sem herjaði svo grimmilega á hinsegin samfélagið undir lok síðustu aldar:

Í byrjun herjaði sjúkdómurinn helst á homma,
stjörnurnar slökknuðu hver af annarri.
Þeir glöðustu dóu fyrstir,
því þeirra er himnaríki.

Ljóðið heitir „Studio 54“ eftir samnefndnum sögufrægum diskóklúbbi sem starfræktur var í New York-borg á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og gífurlega vinsæll hjá hinsegin fólki. Hommaklúbbar og hinsegin staðir eru gegnumgangandi þema í bókinni og fer ljóðmælandi með lesendur í ferðalag í tíma og rúmi um ýmis slík rými víða um veröld sem sést í titlum á borð við „Club Church“, „Horsemen & Knights, Amsterdam“, „Candid Camera í Króatíu“ og „Der Boiler, Berlín“.

Ljóð Ragnars eru þannig eins konar fagnaðarsöngur hedónismans og hressandi er að sjá skrifað um kynhegðun hinsegin karlmanna á svo gleðilegum og jákvæðum nótum, því jafnvel þótt Sálmabók hommanna fjalli um hinar dekkri hliðar tilveru samkynhneigðra, eins og sjá má í ljóðinu „Studio 54“, þá gerir bókin það á hátt sem er fullur af lífsgleði. Þessi afstaða birtist einnig í myndefni og hönnun bókarinnar en á baksíðu hennar má finna mynd af höfundinum þar sem hann stendur glaðbeittur og ber að ofan svo sést í grannan og sólbrúnan kropp, með kokteilrör í hendi.

Trúarlegt kynlíf

Undanfarin ár hefur víða átt sér stað söguleg og listræn endurskoðun á alnæmisfaraldrinum og áhrifum hans á hinsegin samfélagið, nýleg íslensk dæmi eru meðal annars sýningin Góða ferð inn í gömul sár eftir Evu Rún Snorradóttur og heimildaþættirnir Svona fólk eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur. Þessi endurskoðun er bæði þörf og góð enda hafa ekki nærri því öll kurl komið til grafar hvað varðar þetta hörmungatímabil í sögu hinsegin fólks. En það sem er einnig þarft og gott eru hinsegin bókmenntir á borð við Sálmabók hommanna sem upphefja ástir og upplifanir homma af eldri kynslóðum og sýna þær í jákvæðu ljósi, því eins og segir í ljóðinu „Faðir fyrirgef þeim, II“, þá er líka gaman að vera hinsegin:

Það er svo gott að vera
meðlimur í Hommakirkjunni.
Allir alltaf brosandi út að eyrum
með annan fótinn í himnaríki
og láta sig hlakka til næstu messu.

Dramatískar og tragískar birtingarmyndir samkynhneigðra karlmanna skortir svo sannarlega ekki í bókmenntum (Englar í Ameríku eftir Tony Kushner, Ungfrú Ísland eftir Auði Övu, Mánasteinn eftir Sjón, svo nokkur dæmi séu tekin) en undirritaður man ekki eftir því að hafa áður lesið bókmenntir um eða eftir hinsegin menn þar sem skrifað er um ástir homma á svo hispurslausan og frelsandi hátt eins og Ragnar gerir í Sálmabók hommanna. Höfundur er fæddur 1961 og því ljóst að hann hefur eflaust margar áleitnar sögur að segja af alnæmisfaraldrinum og fordómum samfélagsins en í staðinn kýs hann að fjalla um hinseginleikann á hátt sem er í senn karnivalískur, kómískur og erótískur. Táknmynd hinseginleikans í bókinni er „Hommakirkjan“ þar sem hinum ýmsu kynferðislegu athöfnum er líkt við trúarathafnir á borð við altarisgöngu, fermingu og skírn:

Við göngum til altaris,
þiggjum hold
og blóð frelsara vors,
helst í stríðum straumum.
Guð er innra með okkur öllum
í orðsins fyllstu merkingu.

En þrátt fyrir fögnuðinn og gleðina sem fylgir athöfnum Hommakirkjunnar þá er skömmin aldrei langt undan, enda innprentar samfélagið það í hinsegin fólk frá barnsaldri að þau eigi að skammast sín fyrir þrár sínar og langanir. Í ljóðinu „Okkar eigin ‚Símeon á súlunni‘“ líkir ljóðmælandi sér við meinlætamanninn Símeon stýlíta sem varði þrjátíu og sjö árum á litlum palli ofan á hárri súlu í Aleppo til þess að komast nær Guði á sama tíma og hann skapar hugrenningatengsl við slagara Pet Shop Boys frá níunda áratugnum, „It‘s a Sin“: „Mér líður svo oft eins og ég hafi fæðst sekur – jafnvel um eitthvað sem ég veit ekki hvað er.“ Í ljóðinu „Hliðartilvera“ sækir svo sorgin að ljóðmælanda þegar raunveruleikinn tekur við af trúarlegri alsælu Hommakirkjunnar:

Ég veit ekki af hverju
sorg sækir að mér,
söknuður kannski,
eftir litladauða.


Hin eilífa hringrás

Tíminn er annað gegnumgangandi þema í Sálmabók hommanna og þar vísar höfundur meðal annars í eitt elsta og þekktasta tákn mannkynssögunnar, ouroboros eða snákinn sem étur sinn eigin hala, sem finna má í fjölmörgum fornum menninngarsamfélögum og táknar eilífðina og hringrás tímans. Á síðum Sálmabókarinnar er snáknum þó skipt út fyrir tvo stælta karlmannshandleggi sem grípa um hvor annan og mynda þannig hring; snjöll og skemmtileg aðferð hjá Ragnari til að snúa upp á þetta árþúsundagamla tákn og tengja það betur við þema bókarinnar.

Ég elska þig Úróberos,
eina snákinn einhvers virði
í minni bók. Megi aðrir
fölna í skugganum af þér
skuggasveinn.

Síendurteknar heimsóknir ljóðmælanda á mismunandi næturklúbba, þar sem gengið er til altaris í Hommakirkjunni, verða þannig eins konar táknmynd eilífðarinnar og hins hringlaga eðli tímans sem ouroboros stendur fyrir. Í ljóðinu „Bak við þyrnirósarunnann“ segir ljóðmælandi uppstigningu og endurfæðingu vera daglegar athafnir og í næstsíðasta ljóði bókarinnar „Vor, að mér virðist, eilífa hringrás“ líkir hann sjálfum sér við vatnsdropa sem deyr og endurfæðist í sífelldri hringrás:

Þegar ég dey fæ ég að hvíla mig
örstutta stund en fæðist svo enn á ný.
Þú veist, eins og vatnsdropi
sem sífellt gufar upp
og rignir svo aftur niður.

Þannig sameinar Ragnar Kristna og Vestræna heimsmynd hins línulega tíma dauða og uppstigningar við Austræna heimsmynd eilífrar hringrásar dauða og endurfæðingar.

Dásamlega hinsegin

Sálmabók hommanna er bók sem leynir svo sannarlega á sér. Það sem við fyrstu sýn gæti virst sem draumórakennd frásögn síðmiðaldra homma af löngu liðnu djammlífi reynist þegar betur er gáð vera marglaga skáldskapur hlaðinn af tilvísunum í vestræna bókmenntasögu, trúarbrögð, goðsagnir, táknfræði og hinsegin sögu. Ljóð Ragnars dýpka við hvern lestur og fyrir þá sem hafa gaman af jafn ólíkum hlutum og dæmisögum Biblíunnar, Guðbergi Bergssyni, Ódysseifskviðu eða módernískri list getur verið gaman að bera kennsl á hinar fjölmörgu tilvísanir skáldsins.

Ljóðin eru vissulega missterk og hefði bókin á heildina litið án efa grætt á markvissari ritstjórn en það gerir þó ekki að sök enda eru heildaráhrifin sterk og skilja mann eftir með djúpa tilfinningu fyrir efninu. Höfundi tekst að vera bæði hispurlaus í lýsingum sínum á hinseginleika og dulrænn með fjölmörgum vísunum í táknfræði og symbólisma. Sálmabók hommanna er þó fyrst og fremst dásamlega hinsegin og tekst að feta fullkomlega einstigið á milli melódramatíkur, með dassi af kampi, og harmleiksins, með dassi af hinu dulræna, tvö helstu einkenni góðrar hinsegin listar.
 

Þorvaldur S. Helgason, apríl 2023