Beint í efni

Blóðmjólk

Blóðmjólk
Höfundur
Ragnheiður Jónsdóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Í Blóðmjólk sogast lesandinn inn í vinkvennahóp sem verður fyrir miklu áfalli þegar ein þeirra deyr með hræðilegum hætti. Sjónarhornið flakkar á milli kvennanna þannig að lesandinn kynnist persónunum frá ýmsum hliðum. Hvað gerðist eiginlega? Og ef það var framinn glæpur, hver er hinn seki? Þessi skvísukrimmi fékk glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn.

Blóðmjólk er fyrsta bók verðlaunahafans Ragnheiðar Jónsdóttur. Svartfuglinn er glæpasagnaverðlaun sem Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson standa að ásamt Veröld.

Úr bókinni

Við Dóri höldumst þétt í hendur og ég nýt þess að finna ylinn frá honum. Mér er kalt og sé eftir að hafa ekki klætt mig betur. Ég sé líka eftir að hafa ekki mætt fínni. Vinkonur mínar virðast hafa tekið daginn í að undirbúa sig, Rakel er glæsilegri en nokkru sinni fyrr og ég sé ekki betur en að Adda hafi farið í hárgreiðslu. Ég er dofin og stari ýmist niður í kjöltuna eða fram fyrir mig en finnst erfitt að horfa á kistuna. Aumingja Jonni virðist líka eiga erfitt með það því hann grúfir sig niður í kollinn á Dröfn sem situr í fanginu á honum milli þess sem hann lítur út um gluggann og sýgur upp í nefið. Hann sækir eflaust styrk í litlu fallegu stelpuna sína, lyktina af fíngerðu hárinu og mjúkri húðinni. Hún er að mörgu leyti lík mömmu sinni þó hún sé ljósari yfirlitum. Hún hefur sama fallega augnsvipinn og mun eflaust líkjast henni meira með aldrinum. Persónuleikann hefur hún þó frekar frá föður sínum því rólegra barni hef ég aldrei kynnst. Dröfn er ekki eins og mamma hennar sem hvíldi aldrei sátt í eigin skinni eins og mamma orðaði það. Það er næstum einhver yfirnáttúruleg ró yfir henni. Guð, hvað ég vona að hún verði hamingjusöm, elsku hjartans Dröfn litla.
   Heyr himna smiður hljómar og ég sé út undan mér hvar Rakel engist um af sorg. Adda lætur pappírsklúta ganga til hennar og býður okkur hinum einnig. Ég afþakka og kreisti klútinn minn í þvölum lófanum. Mig svimar aðeins og finn hvernig hrollur hríslast niður eftir hryggsúlunni. Ógleði hellist yfir mig og mér líður hræðilega á líkama og sál. Tilfinningin er yfirþyrmandi og magnast upp svo mér liggur við yfirliði en ég anda djúpt og reyni að láta á engu bera. Strýk létt yfir magann eins og til að biðja fóstrið mitt litla um að hafa hægt um sig og reyna að gefa mér grið rétt í þetta eina sinn.
   - Kría Marínósdóttir var einstök kona, segir presturinn í minningarorðunum og djúp röddin hljómar um kirkjuna. Hún snerti hug og hjörtu svo margra enda var hún gædd óviðjafnanlegum persónutöfrum ...
   Ég heyri ekki hvað hann segir því ég á fullt í fangi með að sitja kyrr og halda andliti.

(s. 56-57)

Fleira eftir sama höfund